Á hverju ári fær starfsfólk Guide to Iceland að fara í óvissuferð til framandi landa, að minnsta kosti þeirra sem eru ekki í alfaraleið og poppa strax upp í hugann þegar minnst er á ferðalög. Nú á dögunum komu stjórnendur fyrirtækisins starfsfólki sínu enn á óvart og buðu því til Miðjarðarhafseyjunnar Möltu.
„Öllum starfsmönnum Guide to Iceland var boðið í ferðina en þeim var einungis gefið upp að um væri ræða ferð til sólríks lands. Staðarvalið kom starfsfólkinu algjörlega á óvart, ekki síst fyrir þá sök að það var millilent í München í Þýskalandi og þá fengum við alveg urmul af spurningum yfir okkur,“ segir Ólafur Ólafsson, rekstrarstjóri Guide to Iceland.
„Tilgangurinn með ferðinni var að klára sumarið saman með því starfsfólki sem hafði starfað hjá okkur yfir það tímabil og hóa í nýja starfsmenn og hrista hópinn saman. Nýverið voru 10 starfsmenn ráðnir til fyrirtækisins og þeir voru að sjálfsögðu með í för.“
Malta eins og falinn fjársjóður
Malta heillaði mannskapinn að sögn Ólafs. Þar var sólríkt og ódýrt að lifa þar þó að þar sé gjaldmiðmiðillinn í evrum.
„Þetta var mjög vel heppnuð ferð í alla staði. Svona ferð þéttir hópinn og andann í vinnunni,“ segir hann og heldur áfram.
„Malta er eins og falinn fjársjóður, eyja sem er ekki stærri en 316 km en íbúar hennar eru 475.000 en fólksfjölgunin hefur verið ör frá 1850 og hún tekur á móti 4 milljónum ferðamanna á ári hverju en sé miðað við okkur Íslendinga koma hingað á ríflega 303.000 km svæði 2 milljónir.”
Þótt eyjan sé á stærð við Reykjanesskaga er hún tíunda minnsta og fimmta þéttbýlasta land jarðar. Elstu heimildir herma að byggð hafi verið á Möltu allt frá 5900 f. kr.
„Staðsetning eyjunnar í miðju Miðjarðarhafinu gerði hana eftirsóknarverða en hún varð bresk nýlenda um 1815 og gegndi síðan mikilvægu hlutverki í síðari heimsstyrjöldinni en Maltverjar stóðu með bandamönnum. Möltu var svo veitt sjálfstæði af breska þinginu og Malta varð lýðveldi árið 1974. Nú er landið meðlimur í Evrópubandalaginu.”
„Höfuðborgin heitir Valletta og hún mjög falleg og skemmtileg borg. Það vildi svo skemmtilega til að einmitt þann dag sem við fórum í miðbæinn var verið að fagna Gay Pride en hjá okkur vinna nokkrir samkynhneigðir svo þetta var tvöföld ánægja. Maltverjar eru kaþólskir en þarna ríkir engu að síður töluvert frjálslyndi. Sjálf vorum við aðeins utan við höfuðborgina, eða eins og frá miðbænum og upp í Mosfellsbæ. Það var yndislegt, að fara út á sjóinn, synda og kafa en sjórinn er það heitur að það er hægt að busla í honum daglangt.“
Valetta gömul og falleg borg
Valetta var stofnuð 1565 af riddurum Jóhannesarreglunnar sem komu til eyjunnar þegar þeir þurftu að yfirgefa landið helga eftir ósigur og ófarir hinna kristnu riddara fyrir múslimum. Valetta státar af óviðjafnanlegu úrvali arkitektúrs barrokk tímans, rammgerðum virkisveggjum með ótrúlegu útsýni yfir Miðjarðarhafið og auðvitað hinni einstöku dómkirkju heilags Jóhannesar með sínum fínmeitluðu skreytingum í steinhleðslur og hvolfboga auk hinnar frægu myndar eftir Caravaggio sem útskýrir af hverju þessi smæsta höfuðborg innan Evrópu tilheyrir völdum stöðum UNESCO.
Hópurinn gisti í bænum Marsaskala, sem er í um 20 mínútna akstursfjarlægð frá miðborginni.
„Þetta er lítið og afslappað sjávarþorp og andrúmslofið mjög rólegt meðal heimamanna. Það er lítið um ferðaþjónustu á þessu svæði þannig að við urðum ekki vör við mikla umferð á rútum eða ferðamönnum sem var þægilegt. Við gistum öll á íbúðarhóteli á svæðinu sem heitir Portside Lodge. Við vorum öll með flottar svalir og sólbaðssvæði á þakinu sem margir nýttu sér.
Við fórum í skipulagðan göngutúr um Valletta. Borgin er hönnuð í beinum línum og tók aðeins 10 daga að hanna borgina að sögn leiðsögumannsins okkar. Allar götur eru opnar í báða enda með útsýni að hafi. Var það gert til þess að vindur frá hafinu blési um göturnar og kældi borgarbúa. Triton Fountain er við borgarhliðið sem er inngangurinn að gamla borgarhlutanum. Það er frábær staður til að taka það rólega í sólinni og spjalla.“
Góður matur og skemmtanalíf
Ólafur segir að Maltverjar bjóði upp á góðan mat. „Veitingastaður sem ég mæli með er King´s Own, en hann er í gamla bænum. Þar fengum við heimalagaða rétti hjá fjölskyldu sem hafði átt staðinn í yfir 100 ár. Matarmenning þarna er blanda af ítölskum réttum ásamt sjávarréttum, enda alltaf stutt að fara út á sjó að veiða. Þjóðarréttur þeirra er steikt kanína sem við fengum að smakka og bragðaðist mjög vel.”
Ólafur segir að rétt norðan við Valletta sé skemmtilegt svæði sem heitir Paceville en þar er mikið um veitinga- og skemmtistaði.
„Það svæði er fullt af börum, kaffihúsum og klúbbum. Áður en það þróaðist í skemmtanasvæði Möltu var eyjan þekkt fyrir mjög róleg kvöld og lítið næturlíf eftir klukkan 9 á kvöldin. En eftir komu Sheraton- og Hilton-hótelanna á svæðið þróaðist það í miðbæ næturlífsins,” segir Ólafur.