Dyr Daxing-flugvallarins í Peking voru opnaðar í dag og var formleg opnun í höndum Xi Jinping, forseta Kína. Flugvöllurinn er engin smásmíði, 700.000 fermetrar, eða á við 98 fótboltavelli, að því er ríkismiðlar í Kína greina frá.
Kostnaðurinn við flugvöllinn er um 11 milljarðar dollarar, eða sem nemur 1,3 billjónum króna. Hann er staðsettur 46 kílómetra suður af Tinanmen-torgi og er hannaður af víðfræga arkitektinum Zaha Hadid. Lögun flugvallarins minnir á krossfisk og hefur flugvöllurinn því strax fengið gælunafnið „stjörnufisksflugvöllurinn“. Bygging vallarins tók aðeins þrjú ár.
Flugvöllurinn er talinn afar merkilegur fyrir þær sakir að í raun er aðeins ein flugstöðvarbygging (e. terminal) á vellinum og er hann því stærsti flugvöllur í heimi sem er allur í einni byggingu.
Flugvöllurinn er annar alþjóðaflugvöllurinn í borginni. Daxing-flugvöllurinn var byggður til að minnka álag á alþjóðaflugvöllinn sem þegar er starfræktur í Peking. Yfir 100 milljónir hafa farið í gegnum Peking Capital-flugvöllin frá því að hann var opnaður árið 1958.
Farþegaspár gera ráð fyrir að 170 milljónir farþegar fari um borgina árið 2025 og búist við að meirihluti þeirra fari í gegnum Daxing-flugvöll. Með opnun flugvallarins bætist Peking í hóp borga eins og New York og London sem státa af tveimur alþjóðaflugvöllum.
Sjö innlend flugfélög hófu að fljúga frá Daxing-flugvelli í morgun. Þá hafa flugfélög á borð við British Airways, Cathay Pacific og Finnair tilkynnt að þau muni hefja flug til og frá Daxing-flugvelli fljótlega.