Stjórnklefinn í Chernobyl opinn ferðamönnum

Þessi stjórnklefi í kjarnorkuverinu Visaginas í Litháen var notaður fyrir …
Þessi stjórnklefi í kjarnorkuverinu Visaginas í Litháen var notaður fyrir þættina Chernobyl. Þetta er þó ekki hinn upprunalegi klefi í Úkraínu, enda má bara vera þar í nokkrar mínútur í senn. AFP

Stjórnklefinn þaðan sem starfsmenn stjórnuðu kjarnaofni númer fjögur í Chernobyl-kjarnorkuverinu hefur verið opnaður fyrir ferðamenn. Þangað geta ferðamenn nú farið með leiðsögn í tilheyrandi öryggisklæðnaði. 

Það var einmitt í stjórnklefanum fyrir kjarnaofn númer fjögur þar sem vísindamenn tóku nokkrar erfiðar ákvarðanir í Chernobyl-slysinu árið 1986. Þetta er í fyrsta skipti sem þessi tiltekni klefi er aðgengilegur ferðamönnum sem hingað til hafa ekki fengið að koma nálægt klefanum í skoðunarferðum um svæðið. Í klefanum er 400 þúsund sinum meiri geislun en venjulegt fólk ætti að vera nálægt og fá því ferðamenn aðeins að eyða nokkrum mínútum þar.

Kjarnorkuverið í Chernobyl og bærinn Pripyat hafa notið aukinna vinsælda á þessu ári í kjölfar þáttaseríunnar Chernobyl sem sýnd var á bandarísku sjónvarpsstöðinni HBO í vor. Það sem af er ári hafa 89 þúsund ferðamenn heimsótt svæðið samanborið við 72 þúsund árið 2018. 

Forseti Úkraínu, Volodymyr Zelensky, tilkynnti í júlí að ríkið ætlaði sér að bæta aðstöðu ferðamanna á svæðinu í kjölfar aukins áhuga. Afraksturinn er 21 nýi ferð um svæðið og komast ferðamenn nú á svæði sem áður voru lokuð, eins og til að mynda stjórnklefann fyrir kjarnaofn fjögur. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert