Magnað að hjóla frá London til Kölnar

Ljósmynd/Aðsend

Ísabella Ósk Gunnarsdóttir er 28 ára gömul og býr í Danmörku. Ísabella, sem er meðal annars þjálfari og vinnur með Herbalife Nutrition, hjólar mikið í Danmörku en í september fór hún í mun lengri hjólaferð en hún fer vanalega í. Ísabella hjólaði alla leið frá London á Englandi til Kölnar í Þýskalandi. 

„Herbalife er með stóra ráðstefnu einu sinni á ári, þetta árið var hún í Köln í Þýskalandi. Við byrjuðum hjólaferðina í London því við vorum að hjóla með hópi frá Englandi, Skotlandi og Írlandi. Við hjóluðum frá London og til Kölnar til styrktar Herbalife Nutrition Foundation sem styrkir börn út um allan heim. Í dag hjálpa þau í kringum 100.000 börnum á hverju ári, börnum sem minna mega sín, þau fá næringu, menntun og betri lífsgæði,“ segir Ísabella um ástæðu ferðarinnar og segir söfnunina enn í fullum gangi hér. 

Hvernig var ferðin? 

„Úff, ferðin var mögnuð í alla staði! Ferðin tók fjóra daga og við gistum þrjár nætur á mismunandi stöðum. Í heildina voru þetta um það bil 450 kílómetrar yfir þessa fjóra daga. Fyrstu tveir dagarnir voru lengstir en þá var hjólað á milli 130 til 145 kílómetra, svo voru síðustu tveir aðeins styttri. Við vorum í kringum 60 manns að hjóla saman, í mismunandi hraðahópum. Við vorum fjórar frá Íslandi en annars voru hinir frá Englandi, Skotlandi og Írlandi.“

Fjórir Íslendingar hjóluðu leiðina frá London til Kölnar.
Fjórir Íslendingar hjóluðu leiðina frá London til Kölnar. Ljósmynd/Aðsend

Voru einhverjir staðir sem heilluðu þig á leiðinni?

„Holland heillaði okkur öll rosa mikið. Mjög fallegt land og flottar aðstæður fyrir hjólafólk. Væri til í að fara þangað aftur og skoða landið betur. Svo verð ég nú að viðurkenna að það sem heillaði mig mjög mikið var líka þetta fallega rúm sem tók á móti mér þegar ég opnaði hurðina á hótelherberginu á degi númer tvö. Það var bara langur dagur.“

Hvað var erfiðast við ferðina?

„Það sem mér fannst erfiðast var klárlega dagur númer tvö. Fyrstu nóttina okkar gistum við í ferju þar sem við vorum að sigla á milli Englands og Hollands. Þegar ég vaknaði um morguninn var ég svo sjóveik að ég átti erfitt með að standa í lappirnar og græja mig fyrir daginn og tala nú ekki um ógleðina sem fylgdi mér fram að hádegi. Sá dagur var líka sá lengsti, það var um það bil 145 kílómetra leið, og fyrri part dags vorum við að hjóla í gegnum nokkra litla bæi þar sem göturnar eru hellulagðar með litlum kúptum hellum og það var „horror“ að hjóla á þeim.

Síðasti dagurinn okkar var líka smá erfiður í byrjun, við lögðum af stað klukkan 06:30 og vá hvað það var kalt. Okkur var öllum svo kalt, fingur og tær voru frosnar í marga tíma. En við gerðum þetta - við kvörtuðum smá við hvort annað og héldum svo bara beinustu leið áfram í átt að Köln.“

Hefur þú hjólað mikið áður?

„Nei í rauninni ekki. Litli bróðir minn keypti sér racer fyrir um fjórum árum síðan, hjólaði sjálfur á ráðstefnu fyrir þremur árum, frá norður Þýskalandi og til Prag, sem var töluvert lengri og erfiðari leið. En þegar hann kynntist racer-menningunni að þá fannst honum það svo magnað og smitaði mig. Ég keypti mér racer, hjólaði smá annað slagið en svo var hjólinu stolið. Svo var það í vor að ég ákvað að ég vildi hjóla með frá London til Köln. Í lok maí keypti ég mér hjól aftur og fór að æfa mig fyrir stóru ferðina. Annars finnst mér þetta ótrúlega gaman, og það er bara svo mikið frelsi að hjóla um, þetta er svo róandi en á sama tíma skemmtileg og góð hreyfing. Mæli klárlega með hjólasporti.“

Ísabella með hjólið sem hún hjólaði á frá London til …
Ísabella með hjólið sem hún hjólaði á frá London til Kölnar. Ljósmynd/Aðsend

Er kannski einfaldara að hjóla um Evrópu en fólk heldur?

„Þar sem ég bý í Danmörku er ég vön þessari hjólamenningu og fannst þar af leiðandi ekkert erfitt að hjóla um í Evrópu. Þetta var svipað og hérna nema auðvitað misgóðir hjólastígar. Það sem mér fannst erfitt var að hjóla í London, ekki nóg með að það var bilað mikil umferð en að þá þurftum við líka að hjóla „vitlausu megin“ fyrir okkur Evrópubúa. Challenge Central skipulagði hjólaferðina okkar en það er fyrirtæki sem tekur að sér alls konar svona ævintýraferðir, bæði hjóla- og gönguferðir. Það þarf klárlega að skipuleggja svona ferðir vel uppá hvar hjólastígar eru og annað.“

Hvernig leið þér þegar þú komst til Kölnar?

„Ég get ekki lýst þessu mómenti. Þetta var svo ótrúlega magnað og tilfinninga mikið móment. Stuðningskona númer eitt, elsku mamma mín, tók á móti Íslendingunum sínum í Köln og það var bara æðislegt að geta deilt þessu með henni, og auðvitað öllum hjólahópnum og fans sem tóku á móti okkur þegar við komum til Kölnar. Ég get alveg sagt það að ég sveif um á bleiku skýi í marga daga eftir á, þetta var eins og að lifa í einhverri annarri veröld. Bæði það að hjóla svona, og svo að klára eitthvað svona magnað.“

Um 60 manns hjólaði saman en ferðin var vel skipulögð.
Um 60 manns hjólaði saman en ferðin var vel skipulögð. Ljósmynd/Aðsend

Ertu byrjuð að skipuleggja næsta ævintýri?

„Já, á næsta ári ætlum við að hjóla til Stokkhólms í Svíþjóð þar sem næsta ráðstefna verður. Það er ekki alveg búið að skipuleggja ferðina, enda næstum því ár í hana, en það er í umræðunni að hjóla frá Gautaborg og til Stokkhólms en það kemur í ljós þegar nær dregur.“

Ísabella segir að ferðin hafi sýnt henni að hún geti allt og það sama á við um alla aðra. 

„Aldrei hugsa að þú getir ekki eitthvað, slepptu öllum afsökunum sem koma nú upp í hugann á þér. „If you want it — then do it!“ Það sem ég lærði um sjálfa mig var að ég gefst ekki upp, ég hélt áfram „no matter what“. Fyrst ég gat þetta, að þá get ég allt sem ég ætla mér í þessu lífi. Og það getur þú líka!“

Ísabella segir að fólki sé velkomið að hafa samband sig við á Instagram: isabellaoskg ef fólk hefur áhuga á að vita meira um ferðina, undirbúninginn eða einfaldlega hefur áhuga á að gera eitthvað svipað. 





mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert