Þeim fjölgar stöðugt sem nýta sér íbúðaskipti til ferðalaga og vefsíðum sem bjóða upp á samband á milli húseiganda hefur fjölgað hratt í takt við aukna eftirspurn. Þessar vefsíður eru jafn ólíkar og þær eru margar og því úr nægu að velja fyrir þá sem vilja nýta sér þennan valkost.
Það kostar að vera meðlimur á flestum þessum skiptisíðum en árgjaldið er fljótt að borga sig upp ef skipti eru bókuð. Misjafnt er hverskonar þjónusta er í boði svo gott er að vanda valið áður en síða er valin. Hér má sjá lista yfir helstu skiptisíður heimsins eru, hvert árgjaldið er og hvaða þjónustu þær bjóða upp á.
Þó svo það hljómi vissulega vel að ferðast um heiminn án þess að greiða fyrir gistingu þá hafa íbúðaskipti líka sína galla og þeir sem eru að íhuga þennan valkost þurfa að vera meðvitaðir um þá.
Hér fyrir neðan er listi yfir nokkur atriði sem gott er að hafa í huga áður en ákvörðun er tekin um það hvort íbúðaskipti henti fjölskyldunni.
Lægri ferðakostnaður en tímafrekt
Þó ferðakostnaðurinn lækki augljóslega þegar ekki er greitt fyrir gistinguna á ferðalaginu þá getur verið tímafrekt að finna réttu skiptin. Flestir senda út margar fyrirspurnir áður en þeir ná skiptum.
Hætta á tjóni en líka ókeypis þjófavörn
Það er vissulega áveðin áhætta að lána heimili sitt til ókunnugra. Yfirleitt er þó aðeins um minniháttar tjón að ræða sem hefðu allt eins getað gerst í þínu daglega lífi, eins og að glas brotni eða rispa komi í parketið. Það getur hinsvegar verið áhættunnar virði að hafa einhvern á heimilinu þegar þú ert á ferðalagi til þess að passa gæludýrið, vökva blómin og taka póstinn. Að hafa umgang í húsnæðinu getur líka fælt þjófa í burtu.
Mikill undirbúningur en á sama tíma eðlilegt viðhald
Það þarf að undirbúa heimilið vel fyrir skipti. Fyrir utan að þrífa húsnæðið almennilega þá þarf oft að færa til hluti svo vel fari um gesti á heimilinu. Mörgum finnst þetta leiðinlegasti hlutinn við íbúðaskipti á meðan aðrir nota tækifærið og nýta skiptin sem pressu til að klára ýmislegt viðhald á heimilinu. Það sama á við þegar verið er að undirbúa heimför, þá þarf að taka til á heimilinu sem fengið var að láni. Sumum finnst einfaldlega meira frí í því að geta hent handklæðunum á gólfið á hótelherberginu og gengið út.
Öðruvísi upplifun en skuldbinding langt fram í tímann
Það getur vissulega verið skemmtileg upplifun að dvelja frekar á heimili heldur en á hóteli í fríinu. Oft fylgja leikföng og reiðhjól með í skiptunum. Skemmtilegt samband kemst líka yfirleitt á við heimamenn og skiptin leiða til áhugaverða upplifana fjarri hefðbundnum ferðamannastöðum. Hinsvegar þarf oft að skipuleggja skipti með nokkuð góðum fyrirvara. Eins þarf að standa við gerðar skuldbindingar og erfitt er að afbóka ef eitthvað óvænt kemur upp á í fjölskyldulífinu.