Vanmetin uppspretta ódýrra ferðaráða

Margar konur kjósa að ferðast einar.
Margar konur kjósa að ferðast einar. Ljósmynd/Pexels

Amanda Black, ung kona frá Bandaríkjunum, elskar að ferðast ein. Á síðustu árum fannst henni eitt vanta, samfélag til að reiða sig á þegar hún skipulagði ferðalög sín. 

Hún ákvað því að stofna hóp á Facebook í maí 2016 og bætti við konum sem hún hafði hitt á ferðalögum sínum og þær bættu við vinkonum sínum. Vinkonurnar bættu svo vinkonum sínum í hópinn og svona rúllaði boltinn áfram. Í dag eru yfir 312 þúsund konur í hópnum, The Solo Female Traveler Network, sem deila reynslu sinni af ferðalögum og ráðum. 

Þessi hópur á sér svo 6 systur-hópa sem tileinkaðir eru sérstökum málefnum, til dæmis er hópur fyrir hinsegin fólk, hópur fyrir þá sem eru 40 ára og eldri og þá sem eru 60 ára og eldri. Til er fjöldi annarra lokaðra hópa á Facebook sem eru tileinkaðir ferðalögum kvenna. Sá stærsti er eflaust Girls LOVE Travel en þar inni eru 920 þúsund konur.

Sækja þarf um aðgang að hópunum á Facebook og oftast nær þarf að svara stuttum spurningum um af hverju maður vill fá inngöngu í hópinn. Í hópunum er svo hægt að spyrja um ráð fyrir tiltekinn stað, meðmæli með hóteli, veitingastað eða afþreyingu eða auglýsa eftir ferðafélaga.

Black segir í viðtali við Huffington Post að umræðuefnin í hópnum séu ekki alltaf tengd því að vera kona heldur einnig almennum ráðum. Þar geti þó skapast umræða um ýmislegt tengt öryggi kvenna á ferðalagi og konur óskað eftir ráðum. Hún segir að besta ráðið sem hún hafi fengið í hópnum sé að ferðast með bara eitt rafmagnsmillistykki og fjöltengi, frekar en að kaupa heilan helling af millistykkjum. 

Önnur kona sem Huffington Post ræddi við sagði að besta ráðið sem hún fékk inni í hópnum væri að taka mynd af ferðatöskunni sinni. Ráðið kom frá konu sem lenti í því að taskan hennar týndist á flugvellinum. Þegar hún var beðin um lýsingu á töskunni mundi hún að hún ætti mynd af töskunni og áframsendi hana. Taskan fannst svo fljótt og örugglega í kjölfarið. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert