Herdís og Aron keyptu sér húsbíl 27 ára

Húsbílinn heitir Krílríkur eftir hundinum hans Steinríks en Aron og …
Húsbílinn heitir Krílríkur eftir hundinum hans Steinríks en Aron og Herdís eru miklir aðdáendur bókanna um Ástrík og Steinrík.Krílríkur er Dodge Ram-trukkur og verður öldungur á næsta ári því hann er árgerð 1995. Mynd úr einkasafni

Herdís Helgadóttir og Aron Birkir Stefánsson falla  ekki alveg inn í staðalímynd húsbílaeiganda. Þótt þau séu ekki orðin þrítug hafa þau átt húsbíl í nokkur ár og elska þennan ferðamáta. 

„Við hlæjum oft að því með vinum okkar að við höfum alveg rústað miðaldra-keppninni með því að kaupa okkur húsbíl,“ segir Herdís Helgadóttir, starfsmaður Hjálpræðishersins á Akureyri, en hún og eiginmaður hennar Aron sem er smiður hafa átt húsbíl í tæp þrjú ár. Bílinn eignuðust þau þegar þau voru 27 ára gömul. „Já við erum töluvert yngri en flestir húsbílaeigendur sem við hittum á tjaldsvæðum landsins, þótt þar sé reyndar fólk á öllum aldri. Við hittum sennilega oftast útlendinga á okkar aldri í litlum tjöldum eða eldra fólk á húsbílum. Það fer þó aðeins eftir því hvar maður er, hvernig aðstaðan á tjaldsvæðinu er o.s.frv. Á tjaldsvæðum passa allir inn því þar er alls konar fólk svo aldurinn skiptir ekki öllu!“

Húsbílaeigandur nýta gjarnan veturinn til þess að sinna viðhaldi á …
Húsbílaeigandur nýta gjarnan veturinn til þess að sinna viðhaldi á bílnum og skipuleggja ferðalög næsta sumar. Herdís og Aron dreymir um að fara til Færeyja á sínum húsbíl. Hér eru þau við Svartafoss. Mynd úr einkasafni

Hvernig kom það til að þið keyptuð ykkur húsbíl? „Við keyptum bílinn af foreldrum mínum þegar þau fengu sér nýrri bíl. Við fórum bæði mjög mikið í útilegur með fjölskyldunum okkar sem börn, mín fjölskylda í tjaldi og fjölskylda Arons í tjaldvagni. Þegar ég og bróðir minn vorum hætt að koma með foreldrum okkar í útilegur fengu þau sér sinn fyrsta húsbíl. Þá var ég um 17 ára og mér fannst þetta ekkert ofsalega spennandi. Eftir að ég kláraði háskólann og kynntist því á ný að fá sumarfrí fórum við Aron að ferðast meira og meira um Ísland, þá í tjaldi, og sáum fljótt hvað húsbílarnir eru hentugur ferðamáti.“

Hvert hafið þið farið á húsbílnum?  „Við höfum eingöngu ferðast innanlands og farið um nánast allt Ísland; hringveginn, Langanes og Melrakkasléttu, norðanverða Vestfirði og Snæfellsnesið. Við eigum sunnanverða Vestfirði reyndar eftir. Eitt af fyrstu ferðalögunum á bílnum var þegar við fórum vestur á firði sumarið 2017. Ég hafði aldrei áður komið á Vestfirði og við vorum mjög heppin með veður. Ég er reyndar hrikalega bílhrædd á vondum vegum svo hjartslátturinn var oft frekar hraður en ferðin var góð! Annars eru allar ferðir góðar, sérstaklega ef veðrið er gott. Gönguferðir, heitir pottar, gítar, prjónar, spil, bækur og heitt kakó — þetta eru nokkur lykilorð þegar kemur að ferðalögunum okkar og það er svo hollt að koma sér frá amstri hverdagsins og bara njóta lífsins! Eftirminnilegasta útilegan hlýtur samt að vera þegar við fórum á Möðrudal á Fjöllum. Á tjaldsvæðinu þar var geit sem var bæði frek og fyndin. Hún vissi sko hvað hún vildi — og henni var slétt sama hvað mannfólkið vildi. Hún reyndi að éta útilegustólinn minn, fór inn í tjaldið hjá breskum mótorhjólaferðamönnum og stangaði ferðamenn sem reyndu að reka hana út úr tjaldinu sínu. Við lágum inni í húsbíl, fylgdumst með geitinni á kvöldgöngunni sinni og grétum úr hlátri.“

Frek og fyndin geit á tjaldstæðinu á Möðrudal á Fjöllum.
Frek og fyndin geit á tjaldstæðinu á Möðrudal á Fjöllum. Mynd úr einkasafni

Hvað er það besta og það versta við húsbílalífið? „Frelsið er dásamlegt. Þegar við vorum með tjald var undirbúningurinn fyrir ferðalög svo mikill, það þurfti að ná í allt í geymsluna, pakka niður fötum, raða mat í kælibox og muna eftir kælikubbunum, troða dótinu í bílinn og svo framvegis. Svo kemur það nú fyrir að það rigni hér á landi svo við vorum einhvern veginn alltaf með hálfblautt tjald og borðandi volgt jógúrt úr kæliboxi sem stóð ekki alveg undir nafni. Í húsbílnum erum við hins vegar með öll helstu þægindi, rúm, vask, ísskáp, gashellur, lýsingu og hita. Svo er hann vatns- og vindheldur svo veðrið truflar mann ekki nálægt því eins mikið og þegar maður ferðast með tjald. Við gerum bílinn tilbúinn á vorin og svo getum við lagt af stað í ferðalag með engum fyrirvara, hvenær sem er. Það er það besta! Þegar maður kemur á tjaldsvæðið þarf ekki að setja neitt upp eða tjalda neinu, við erum bara tilbúin. Ef fólk vill stoppa lengi á sama stað og geta skroppið hingað og þangað er húsbíllinn kannski ekki besti ferðamátinn, þar sem maður getur ekki skroppið í bíltúr nema ganga frá og fara af tjaldsvæðinu. En við erum yfirleitt bara í eina til tvær nætur á hverjum stað og þá er þetta ekkert mál.“

Einhver góð ráð til þeirra sem eru að íhuga að fá sér húsbíl? „Skoða geymsluplássið í bílnum, það er mismunandi hvað maður þarf mikið en það er mikilvægt að hafa nóg. Mikilvægast finnst mér að bíllinn sé traustur og vel farinn, sama hvort hann er gamall eða nýr. Svo mæli ég með því að skoða það að ganga í húsbílafélag, það getur borgað sig og þar fær maður ýmis ráð.“

Hvert dreymir ykkur um að fara á húsbílnum næst? „Okkur langar að fara til Færeyja. Aron hefur aldrei komið til Færeyja og ég hef bara farið í tvær stuttar vinnuferðir þangað. Mig langar að fara þangað aftur og aftur. Mig dreymir líka um að fara einhvern daginn til Skandinavíu á bílnum en það er dýrt og þá þarf maður að hafa góðan tíma. Ég hef farið ótal sinnum til Noregs og á marga vini þar en hef sjaldan fengið að vera túristi og virkilega skoða þetta fallega land.“

Bíllinn er geymdur í hlöðu á bóndabæ á veturna. Herdís …
Bíllinn er geymdur í hlöðu á bóndabæ á veturna. Herdís segist vera mikið jólabarn en strax eftir jól fer hún að hlakka til að ná í bílinn úr geymslu. Mynd úr einkasafni
Kakó og góð bók er ómissandi í útilegulífið.
Kakó og góð bók er ómissandi í útilegulífið. Mynd úr einkasafni



Frelsið er yndislegt. Herdísi fannst húsbílar óspennandi kostur þegar foreldrar …
Frelsið er yndislegt. Herdísi fannst húsbílar óspennandi kostur þegar foreldrar hennar fengu sér húsbíl þegar hún var 17 ára gömul. Það átti síðar eftir að breytast og hún var sjálf orðin húsbílaeigandi 27 ára. Mynd úr einkasafni
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert