Íslendingar á Tenerife hafa úr nógu að velja vilji þeir hitta samlanda sína á barnum. Nýlega hafa fjórir íslenskir staðir bæst við bar- og veitingahúsaflóru eyjunnar og þar með eru íslensku staðirnir á Tenerife orðnir fimm talsins.
Hér er listi yfir alla fimm íslensku barina á Tenerife en staðirnir eru allir staðsettir á suðurhluta eyjunnar á aðalferðamannasvæðinu.
Íslendingarnir Níels Hafsteinsson, Magnús Árni Gunnarsson, Guðmundur Halldór Atlason, Trausti Hafsteinsson, Rún Kormáksdóttir og Mikael Nikulásson tóku við þessum stað 3. ágúst síðastliðinn. St Eugens er einn flottasti sportbar eyjunnar með 18 risaskjám inni og 5 fermetra sjónvarpi á útisvæði. Staðurinn er risastór, með leyfi fyrir 400 manns. Auk þess að sýna alla landsleiki er skemmtidagskrá á hverju kvöldi. Matseðlar á íslensku og íslenskt starfsfólk. Heimilisfangið er Av. de los Pueblos 13, við hliðina á San Eugenio verslunarmiðstöðinni.
Þetta er elsti Íslendingabarinn á eyjunni en hann opnaði árið 2016 og eru það hjónin Herdís Árnadóttir og Sævar Lúðvíksson sem standa sjálf vaktina á barnum. Öll mánudagskvöld er boðið upp á íslenskan fisk á staðnum, til skiptis plokkfisk og steiktan fisk. Eins er alltaf boðið upp á grillveislur á föstudögum og rjómapönnukökur á sunnudögum. Skötuveislur, þorramatur og jólamatur hefur einnig verið í boði og hafa færri komist að en viljað á þau kvöld undanfarin ár. Karíókí, spilakvöld, landsleikir, trúbadorar og fleira er einnig í boði á staðnum. Nostalgía er í gömlu klaustri við Calle Eguenio Domínguez Alfonso. Best er að finna ströndina Playa del Bobo og horfa þar í kringum sig eftir gulri byggingu með rauðum turni, inn í henni miðri er barinn.
Bar-inn er lítill bjórstaður í Los Cristianos sem opnaði í lok september. Ingifríður Ragna Skúladóttir og Guðmundur Guðbjartsson standa að rekstrinum. Aðeins er boðið upp á drykki á Bari-inn en þegar fram líða stundir hafa eigendur hug á að bjóða líka upp á tapasrétti. Á Bar-inn er hægt að horfa á íslenskar fréttir og alla landsleiki. Heimilisfangið er Avendida Amsterdam 9. en gengið inn frá Carr. Gral. Best er að finna barinn með því að finna Tenerife Sur-hótelið í Los Cristianos, barinn er á móti hótelinu.
Á kvöldin er El Paso klassískur mexíkóskur veitingastaður. Á morgnana er hægt að fá þar morgunmat og yfir daginn snakk, frosnar margarítur o.fl. Matseðlar eru á íslensku og landsleikir sýndir á staðnum. Það eru sömu eigendur að El Paso og Castle Harbour-hótelinu, þeir Níels Hafsteinsson, Hafsteinn Egilsson, Trausti Hafliðason og Rún Kormáksdóttir en veitingastaðurinn er við sundlaug hótelsins. Heimilisfangið er Calle Rodeo 3 í Los Cristianos.
Bambú er kósý sófastaður sem býður upp á einfalda og holla rétti sem og alls konar kokteila. Matseðillinn er á íslensku. Plöntur og bambus eru áberandi í innréttingum staðarins. Oft er lifandi tónlist á staðnum, sérstakir hittingar fyrir Íslendinga búsetta á eyjunni og landsleikir sýndir. Eigandi staðarins er Halla Birgisdóttir. Staðurinn er við Pinta-ströndina. Best er að finna hótelið La Pinta við Av. de España og ganga neðan við það.