Nýtur lífsins hinum megin á hnettinum

Fjölmiðlakonan Halla Mía er í ársleyfi frá RÚV og nýtur lífsins hinum megin á hnettinum þar sem hún vaknar fyrir allar aldir innan um framandi dýr og fugla.

„Ég tók með mér smá vinnu að heiman fyrir Landann en hægði annars bara aðeins á tempóinu. Hleyp meðfram ströndinni, les bækur, stússast í eigin verkefnum og sæki ýmis námskeið. Geri það sem ég hef ekki gefið mér tíma í að gera síðustu ár,“ segir Halla Ólafsdóttir sem búið hefur í Sydney í Ástralíu í þrjá mánuði ásamt kærastanum sínum Óskari Erni Hálfdánarsyni. Þegar Óskari bauðst, vegna rannsóknarvinnu í faraldsfræðum, að dvelja við störf hjá UNSW, University of New South Wales, sló parið til og verða þau staðsett hinum megin á hnettinum í ár.

Árrisulir Ástralar

Lífið í Ástralíu er nokkuð annað en á Ísafirði þar sem Halla hefur búið undanfarin fjögur ár og sinnt starfi fréttamanns RÚV sem og dagskrárgerð fyrir Landann. Að hennar sögn eru til að mynda allir mun árrisulli í Ástralíu en á Íslandi.

„Hér fer fólk snemma á fætur og snemma að sofa. Það er til dæmis sterk hefð fyrir því að hreyfa sig fyrir vinnu. Það eru margir sem hlaupa og stunda líkamsrækt hérna við ströndina og það skiptir ekki máli hversu snemma maður mætir, maður er alltaf „seinn“. Það er alltaf fullt af fólki komið á fætur á undan þér og út. Fyrst eftir að við komum vorum við svo þotuþreytt að við vöknuðum sjálfkrafa snemma en við höfum svo reynt að halda því og kunnum frekar vel að meta það. Að vakna um sex og fara að sofa á milli klukkan níu og tíu á kvöldin,“ segir Halla sem er ánægð úti. „Margir útlendingar sem ég hef hitt hér segjast hafa ætlað að vera hérna í eitt eða tvö ár en jafnvel fimmtán árum síðar séu þau enn hérna. Ég skil það vel. Hér er stöðugt sumar, hvítar strendur, auðvelt að koma sér inn í hlutina á ensku og fólk jafnan mjög vinalegt. En svo er náttúrlega misjafnt hverju fólk sækist eftir. Þótt við höfum það gott og njótum þess í botn að skipta um umhverfi þá eigum við svo marga góða að heima, sem ekkert kemur í staðinn fyrir, svo við komum aftur heim.“

Ruslatunnukjúlingar og ævintýrapáfagaukar

Halla hafði aldrei áður komið til Ástralíu áður en þau Óskar fluttu þangað síðastliðið haust. Hún segist þó hafa vitað ýmislegt um landið þar sem hún á marga ástralska vini sem hún hefur kynnst á ferðalögum sínum um heiminn. „Ég vissi því ýmislegt um samfélagið, án þess þó að átta mig á landslaginu eða fugla- og dýralífinu, sem kemur mér sífellt á óvart. Ég hafði til dæmis ekki hugmynd um að krummar Sydney-borgar væru hvítir stórir páfagaukar með gula kamba, eins og Kíkí úr Ævintýrabókum Enid Blyton. Eða að sníkjufuglarnir sem reyna að komast í nestið þitt eru ekki bara mávar heldur líka háfættir, svartir og hvítir fuglar á stærð við gæsir með mjóa, svarta, bogna gogga. Þeir heita ástralskur hvítur íbis en eru líka kallaðir ruslatunnukjúklingar, nestissjóræningjar og samlokuhnuplarar. Sums staðar eru það líka kalkúnar og endur sem falast eftir mat. En svo er ekki óalgengt að sjá græna páfagauka með marglita bringu á rafmagnslínunum og rauða páfagauka uppi í trjám. Áður en ég kom var alltaf verið að vara mig við köngulóm, snákum og kengúrum á vegunum en – en ég pældi ekkert í fuglunum.“ Eins og áður segir búa þau Óskar í Sydney, í hverfi sem heitir Coogee sem er við samnefnda strönd.

„Það sem heillar mig mest við Sydney er strandlengjan. Sydney hverfist um náttúrulega höfn og beggja vegna hafnarinnar eru strandir. Það er gaman að skoða hafnarsvæðið, þar sem óperuhúsið er og brúin fræga, Sydney Harbour Bridge, og taka ferjuna svo yfir höfnina og kíkja til Norður-Sydney og á strendurnar þar. Uppáhaldið mitt í Sydney er stígur sem liggur meðfram ströndinni í austurhverfum borgarinnar fyrir sunnan höfnina. Frá suðurhluta Coogee til hinnar frægu Bondi-strandar í norðri. Stígurinn er um 5-6 km og skemmtileg gönguleið sem er líka frábært að hlaupa. Leiðin þræðir hvítar strendur af öllum stærðum og gerðum, fallega sjávarhamra og í leiðinni má fylgjast með brimbrettafólki, njóta framandi gróðurs og fugla og fylgjast með iðandi lífi sem myndast á og í kringum strendurnar á heitum sumardögum.“

Keyra minna og dvelja lengur

Þó Halla og Óskar hafi mest verið í Sydney hafa þau farið í nokkrar dagsferðir út frá Sydney og eins fór Halla norður til Brisbane stuttu eftir að hún kom út.

„Pabbi var á ráðstefnu þar í nágrenninu, og við mamma flæktumst um á litlum húsbíl. Við fórum til eyju sem heitir Stradbroke , til bæjarins Noosa og í nálæga þjóðgarða, og til sandeyjunnar miklu, Fraser-eyju.“

Að sjálfsögðu er Halla líka búin að sjá kengúrur sem hún segir að séu ótrúlega víða, jafnvel í bakgörðum fólks. En lumar Halla á einhverjum góðum ráðum fyrir ferðalanga sem eru á leið til Ástralíu? „Það er margumtalað, og ekki að ástæðulausu, en Ástralía er svakalega stórt land. Það er margt að sjá en ferðalangur verður að vera grimmur við að velja og hafna. Það er líklega auðvelt að falla í þá gryfju að ætla sér að sjá margt en enda svo á því að verja mun meiri tíma í akstri á tilbreytingarlausum hraðbrautum en við að skoða og njóta fallegra staða og umhverfis. Ég hugsa að það sé líklega best að velja bara nokkra staði og dvelja lengur.“

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka