Fluttu til Köben vegna veðursins

Sigrún Lárusdóttir ásamt dóttur sinni í Fælledparken.
Sigrún Lárusdóttir ásamt dóttur sinni í Fælledparken. Ljósmynd/Aðsend

Sigrún Lárusdóttir flutti með kærasta sínum, Þórði Jóhannssyni, og dóttur þeirra, Nóru Röfn, til Kaupmannahafnar sumarið 2018. Þá voru þau bæði í fæðingarorlofi og höfðu stefnt að því að búa erlendis eftir háskólanám á Íslandi. Sigrún er ánægð með lífið í gamla höfuðstaðnum en hvetur þó fólk að kíkja út fyrir Kaupmannahöfn þegar það heimsækir borgina. 

„Við kærastinn minn vorum bæði nýbúin að klára háskólanámið okkar og vorum í fæðingarorlofi á sama tíma. Ég útskrifaðist úr Listaháskóla Íslands sem fatahönnuður í júní 2018, en hann hafði útskrifast úr alþjóðasamskiptum frá Háskóla Íslands fyrr um vorið. Það væri eflaust eðlilegast að við hefðum flutt þar sem við vorum bæði með menntun sem okkur þótti henta betur erlendis, en í raun vorum við orðin dauðþreytt á veðrinu. Það var endalaus rigning á Íslandi á þessum tíma og nokkurra mánaða hitabylgja að ganga yfir Köben. Eftir að minnast á hugmyndina að flytja við foreldra mína gripu þau samstundis inn í og nánast sendu okkur út. Tveimur vikum seinna vorum við flutt! Þau hafa mjög jákvæða reynslu af Danmörku, enda hafa þau eignast þrjú af sex systkinum mínum hérna. Öll systkini mín hafa á einhverjum tímapunkti menntað sig hérna líka, svo þetta meikaði alveg sens. Við erum að sjálfsögðu þakklát hvatvísinni í foreldrum mínum í dag enda höfum við náð að koma okkur mjög vel fyrir og fengið mörg tækifæri innan okkar fagsviðs sem okkur hefðu ekki boðist á Íslandi,“ segir Sigrún um ástæðu þess að fjölskyldan flutti til Kaupmannahafnar. 

Þórður og Sigrún eru ánægð með lífið í Danmörku.
Þórður og Sigrún eru ánægð með lífið í Danmörku. Ljósmynd/Aðsend

Hvað heillaði þig við Kaupmannahöfn?

„Upprunalega var það hugmyndin um að geta tekið langa göngutúra með barnavagninn í sólinni meðan ég var í orlofi, komast í þægilegri samgöngur og losna við bílinn. Fyrst vissum við í raun ekki hvort við værum að fara í langt sumarfrí eða flytja til lengri tíma, ætluðum bara svolítið að komast að því yfir sumarið. En svo höfðum við auðvitað alltaf haft það ómeðvitað á bak við eyrað að flytja utan eftir námið okkar. Ég hafði alltaf séð fyrir mér að flytja aftur til London þar sem ég bjó um skeið, og kærastinn minn hafði sjálfur búið í París og talað um að flytja aftur. Evrópskar stórborgir heilluðu okkur sem sagt bæði mikið, og Kaupmannahöfn varð einhvern veginn millilendingin hjá okkur. Svo áttum við mjög auðvelt bæði tvö með að fá vinnur við menntunina okkar. Ég gekk til starfa hjá fatahönnuðinum BARBARA I GONGINI eftir orlofið og kærastinn minn fékk nánast strax vinnu við alþjóðaviðskipti, eitthvað sem er ekki í boði í jafn ríkum mæli á Íslandi.“

Hvaða hverfi er í uppáhaldi hjá þér?

„Það er klárlega Nordhavn. Við bjuggum þar um tímaskeið og erum alltaf að plana að flytja þangað aftur. Það er nýlegt hverfi sem hefur verið hannað út frá sjálfbærniviðmiðum, svo andinn þar er klárlega í takt við okkar lífsstíl þar sem við erum bæði að mestu leyti vegan og hugum mikið að umhverfismálum. Svo skemmdi arkitektúrinn, hönnunarbúðirnar og sjávarútsýnið ekki fyrir, né það að geta dýpt sér í sjósund hvenær sem er. Við búum núna í Østerbro sem er hinum megin við lestarteinana við Nordhavn og er alveg yndislegt fjölskylduhverfi. Núna erum við með þessa krónísku togstreitu með næstu skref á nýja árinu, en okkur langar annaðhvort að færa okkur aftur í Nordhavn, eða í þverandstæðuna, þá út fyrir Kaupmannahöfn þar sem við getum komist í hús með garði og helst mikilli náttúru í kring. Grunar að það seinna verði fyrir valinu.“

Hverfið Nordhavn sést hér en það er í uppáhaldi hjá …
Hverfið Nordhavn sést hér en það er í uppáhaldi hjá fjölskyldunni. Ljósmynd/Aðsend

Áttu þér uppáhaldsveitingastað?

„Þar sem við fjölskyldan eyðum nánast öllum frístundum saman og orkuboltinn hún dóttir okkar ekki mikið fyrir að staldra við of lengi á sama stað, höfum við átt svolítið erfitt með að prófa okkur áfram á því sviði. Við höfum því fundið meira eins og uppáhalds „veitingarými“, en fyrir fjölskyldufólk er frábært að kíkja í Torvehallerne sem er með svipað konsept og Hlemmur mathöll (nema töluvert stærra). Þar geta krakkar fengið að hlaupa um nánast frjálsir og ýmiss konar veitingastaðir og „street food“ í boði. Það er því frábær lausn fyrir fjölskyldufólk sem er að kíkja til Köben.

En kaffihús?

„Kaffebiksen í Frederiksberg hjá gamla stúdíóinu mínu sem ég fór daglega á. Það voru aldrei vonbrigði að kíkja þangað, vinalegt andrúmsloft, gott kaffi og eitthvað fyrir alla. Annars er það að sjálfsögðu á Illum rooftop í miðbænum þar sem hægt er að setjast utandyra og njóta útsýnisins yfir fallegu byggingarnar.“

Hvað er ómissandi að sjá?

Mér þykir litla hafmeyjan og álíka ferðamannastopp vera orðin ágætlega óspennandi, svo ég myndi mæla með því að skoða arkitektúrinn í Nordhavn, Googla pop-up viðburði í Fælledparken, fiðrildahúsið í Botanical Gardens eða reyna að finna meiri náttúruafþreyingar, t.d. leita að „The six forgotten giants“. Það er auðvitað alltaf gaman að skoða helstu „attraction-in“ en ég fæ persónulega mest úr upplifunum sem skilja eftir minningar og þá sérstaklega ef þær séu utandyra.

Inn í kastalanum í Hillerød.
Inn í kastalanum í Hillerød. Ljósmynd/aðsend

Annars hika ég ekki við að mæla með að kíkja í útjaðar Kaupmannahafnar, þá listasafnið Louisiana, Bakken í Klampenborg (einn elsti skemmtigarður í heiminum ef ekki sá allra elsti), kastalann í Hillerød og skoða stórkostlegu setrin við norðursjávarlengjuna á leið til Helsingør. Þegar þangað er komið er hægt að skoða kastala og kíkja yfir til Svíþjóðar, eða njóta þess að rölta um þorpið sem er gamalt og fallegt. Alla þessa áfangastaði er hægt að komast á á innann við 30 til 40 mínútum frá Kaupmannahöfn, svo það er tilvalið að kíkja í stutta dagsferð.“

Sigrún mælir með ströndinni í Klampenborg við Bakken.
Sigrún mælir með ströndinni í Klampenborg við Bakken. Ljósmynd/Aðsend

Hvað finnst þér skemmtilegt að gera á veturna í Kaupmannahöfn?

Við fjölskyldan erum mjög mikið fyrir það að taka röltið um miðbæinn eða önnur hverfi þar sem eru jóla pop-up markaðir, tónleikar og þess háttar og drekka í okkur „hygge“ stemninguna. Við ákváðum einnig að kaupa árskort í Tivoli, svo við höfum náð að fylgjast mikið með því sem er árstíðabundið eins og hrekkjavökunni, Jul i Tivoli og svo framvegis. Svo erum við alltaf spennt fyrir því að skreyta og byrja að gera huggulegt fyrir jólin, í raun nýta dimmuna sem mest til að gera kósí heima með kertum, seríum og tónlist.“

Hvernig er draumadagurinn þinn í Kaupmannahöfn?

„Vakna snemma og eiga hægan morgun, taka góðan göngutúr með fjölskyldunni í skóginum við húsnæðið okkar eða skella okkur á barnaviðburði (sem er allt morandi af í Kaupmannahöfn) búa til góðan bröns og í raun einblína á að gera sem mesta gæðastund fyrir okkur þrjú fram að hádegi. Seinni part dags finnst okkur svo gaman að kíkja á menningarlegri viðburði eða söfn, tónleika, skapandi „workshops“ og þess háttar. Þá erum við gjarnan með bróður og mágkonu minni eða fjölskylduvinum. Svo er alltaf lúxus þegar við fáum pössun og getum kíkt á deit þegar dóttirin er farin í háttinn, sem gerist þó örsjaldan. En þá höfum við yfirleitt reynt að gera eins mikinn viðburð og hægt er úr því, allt frá því að kíkja á tónleika í Tivoli upp í að fara í Arcade-leikjasalinn í Nørrebro og trampólíngarðinn í Nordhavn. Svo hefði ég auðvitað reynt að troða einum jógatíma inn á einhverjum tímapunkti yfir daginn, en ég æfi hjá Jo:ga sem býður upp á mjög fjölbreytta og áhugaverða tíma.“

Mæðgurnar í miðbæ Kaupmannahafnar. Sigrún mælir þó með að fara …
Mæðgurnar í miðbæ Kaupmannahafnar. Sigrún mælir þó með að fara út fyrir Strikið. Ljósmynd/Aðsend

Hvaða mistök heldur þú að flestir Íslendingar geri þegar þeir koma til Kaupmannahafnar?

„Missi af því sem er til staðar fyrir utan Kaupmannahöfn ef þau eru ekki að heimsækja borgina í fyrsta skiptið. Það eru ótal gullfallegir og menningarríkir staðir með mikla sögu og magnaðar byggingar í örstuttu færi fyrir utan. Þegar við fáum gesti reyni ég alltaf svolítið að ýta þeim með okkur þangað, en það er kannski eitthvað sem er svolítið innbyggt í mér þar sem ég ólst upp á landsbyggðinni á Íslandi og fæ því alltaf mjög mikið út úr því að komast í meiri ró og náttúru út fyrir æsinginn í stórborginni.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert