Er hægt að ferðast til Ástralíu núna?

Kjarreldar brenna víða í suðausturhluta Ástralíu.
Kjarreldar brenna víða í suðausturhluta Ástralíu. AFP

Eldar hafa logað um Ástralíu síðan í september síðastliðinn og hafa tæplega tvö þúsund heimili brunnið. 25 manns hafa látist og milljónir dýra hafa týnt lífinu í eldunum. Þeir sem eiga bókaða ferð til Ástralíu á næstunni eða hyggjast ferðast þangað á komandi mánuðum þurfa að hafa ýmislegt í huga áður en haldið er af stað. 

Í desember biðluðu stjórnvöld því til almennings að fresta fyrirhuguðum ferðalögum til Nýju Suður-Wales fram yfir jól. 

Eldarnir geisa að mestu í suðausturhorni landsins í Nýju Suður-Wales en einnig í Victoria. Minni eldar loga líka á fleiri stöðum en þessir staðir hafa orðið hvað verst úti. Í Nýju Suður-Wales er að finna borgina Sydney sem er vinsæll áfangastaður ferðamanna. Melbourne er í Victoriu.

Stórborgirnar hafa ekki orðið eldinum að bráð heldur hafa dreifbýlissvæðin orðið verst úti. Loftgæði í áðurnefndum borgum eru ekki mikil og ekki heldur í höfuðborginni Canberra. Sé stefnt á ferðalag til borganna núna er mælt með því að hafa rykgrímu meðferðis. Hafa skal í huga að reykmengun hefur haft mikil áhrif á heilsu almennings í borgum á borð við Sydney og hefur læknisheimsóknum vegna mengunarinnar fjölgað.

Ekki er mælt með því að ferðast núna til þeirra staða sem hafa orðið verst úti. Frekar er mælt með að fara til Cairns, Kóralrifsins mikla í Queensland, svæða nálægt Perth, Exmouth og Broome í vesturhluta Ástralíu, Tasmaníu og norðursvæðisins. Mælt er með því að ferðalangar hafi samband við innlendar ferðamiðstöðvar þegar komið er til landsins.

Svæðin í Nýju Suður-Wales hafa orðið verst úti.
Svæðin í Nýju Suður-Wales hafa orðið verst úti. skjáskot/Google Maps

Philippa Harrison, framkvæmdastjóri Tourism Australia, sagði í viðtali við ferðatímaritið Fodor's að til lengri tíma litið mundi ferðamennska vera mikilvæg á þeim svæðum sem hafa orðið illa úti. „Eins og við höfum lært af óveðrum og náttúruhamförum síðustu ár þá er mikil seigla í ferðamannabransanum. Þegar samfélögin sem hafa orðið illa úti eru tilbúin til að taka aftur við ferðamönnum mun ferðamennskan spila stórt hlutverk í að byggja samfélagið aftur upp,“ sagði Harrison.

Sért þú á leið til Ástralíu núna er gríðarlega mikilvægt að fylgjast með ástandinu. Veðurstöð Ástralíu heldur utan um allar upplýsingar um eldana. Ástralski ríkisfjölmiðilinn ABC segir einnig áreiðanlegar fréttir af ástandinu. Forritin Fires Near Me, Live Traffic (bara í Nýju Suður-Wales) og VicEmergency forritið (bara í Victoriu) eru einnig mjög handhæg fyrir þá sem eru á svæðinu eða eru á leið þangað.

Þeim sem hyggja á ferðalög til landa í kringum Ástralíu, svo sem Nýja-Sjálands eða Indónesíu, er bent á að kaupa sér ferðatryggingu til að allt sé tryggt ef flug skyldu falla niður vegna eldanna. 

Fjölda kóalabjarna hefur verið bjargað frá skógareldunum í Ástralíu, en …
Fjölda kóalabjarna hefur verið bjargað frá skógareldunum í Ástralíu, en þó er óttast að miklu fleiri hafi farist. AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert