Keypti sér hús á Filippseyjum eftir 8 ára flakk

Guðmundur keypti hús á Filippseyjum árið 2017.
Guðmundur keypti hús á Filippseyjum árið 2017. Ljósmynd/Aðsend

Rafeindavirkinn Guðmundur Tryggvason ákvað árið 2017 að kaupa sér hús á Filippseyjum. Þá hafði hann verið á miklu flakki síðustu ár en hann kom fyrst til Filippseyja árið 2009 og varð að eigin sögn ástfanginn af landinu. 

Guðmundur er fæddur og uppalinn á Akureyri en hefur verið á miklu flakki síðan hann skildi árið 2008. Á þessum 11 árum hefur hann komið til 108 landa í sex heimsálfum. Hann dvelur um 4-5 mánuði á ári hér á Íslandi og vinnur þá hjá Öryggismiðstöðinni sem öryggisvörður.

Hann býður alla þá sem eiga leið til Filippseyja velkomna og segist vera boðinn og búinn að hjálpa fólki við að njóta lífsins þar.

Hvenær fluttir þú til Filippseyja og af hverju?

„Ég kom til Filippseyja fyrst 2009 og varð strax ástfanginn af landinu og hef verið hér nokkra mánuði á ári í hvert skipti. Alltaf þegar ég lendi hér kemur ákveðin tilfinning og ég hugsa „ahh ég er kominn heim“. Mjög góð tilfinning.  Ég ákvað í byrjun árs 2017 að kaupa mér hús á Filippseyjum eftir að hafa flakkað um eyjarnar og skoðað nokkra staði. Ég kaupi svo hús í lok október 2017 á Panglao-eyju á Bohol. Mjög flott hverfi þar sem húsin eru byggð í spænskum stíl. Hverfið heitir Royal Palms Dos. Það eru aðallega útlendingar sem búa í þessum hverfum. Ég er mikill strandarmaður og er Alona-ströndin sem er þekktasta ströndin á Panglao í nokkurra mínútna fjarlægð frá húsinu mínu. 

Ástæða þess að ég fór til Filippseyja í byrjun er sú að vinur minn er giftur stelpu frá Filippseyjum og bjuggu þar og í Singapúr til skiptis og ég var oft að heimsækja þau.  Ég elska þetta einfalda líf hér. Fólkið er almennt yndislegt. Góður maturinn og stórkostlegar strandir.

Hús Guðmundar á Pangalo Bohol.
Hús Guðmundar á Pangalo Bohol. Ljósmynd/Aðsend
Coron Island á Palawan.
Coron Island á Palawan. Ljósmynd/Aðsend

Hvar hefur þú dvalið lengst?

Ég hef verið lengst á eyjunni minni Panglao á Bohol. En einnig verið mikið í Manila þar sem vinir mínir bjuggu og Cebu. Annars hef ég verið mikið að ferðast um eyjarnar þegar ég er hér. Í flestum tilfellum er mjög einfalt og ódýrt að ferðast hér um.

Hvaða staðir á Filippseyjum eru í uppáhaldi?

Uppáhaldsstaðurinn minn á Filippseyjum er paradísareyjan Boracay þar sem ég er í þessum rituðum orðum. Búinn að koma hingað um 50 sinnum. Stórkostlega flott strönd með hvítum kóralsandi og kristaltærum sjó. Síðan er það Panglao Bohol og El Nido á Palawan-eyju. Einnig er eyjan Santa Fe í Cebu í miklu uppáhaldi. Þar er hægt að fara í fallhlífarstökk sem er eitt það skemmtilegasta sem ég geri fyrir utan köfunina sem ég stunda mjög mikið og hef verið að kenna hér á Filippseyjum. 

Guðmundur hefur ferðast vítt og breitt um Filippseyjar.
Guðmundur hefur ferðast vítt og breitt um Filippseyjar. Ljósmynd/Aðsend

Hvaða nágrannalönd og borgir eru í uppáhaldi hjá þér?

Singapúr er klárlega uppáhaldsborgin mín í Asíu. Margt að gera og skoða þar. Er ein hreinasta og öruggasta borgin sem ég hef farið til. Hef farið þangað um 60 sinnum. Einnig eru Malasía og Víetnam í miklu uppáhaldi hjá mér. Var í Víetnam í október og alltaf stórkostlegt að ferðast um landið. 

Örlítið lengra frá er svo Mjanmar eða Búrma. Var svo heppinn að ferðast þangað fyrst í ársbyrjun 2011. Landið opnaðist fyrir ferðamenn í lok 2010 eftir herforingjastjórn í tugi ára. Búinn að koma þangað þrisvar sinnum síðan og er mikil breyting búin að verða. Landið orðið miklu vestrænna síðan það var þetta bændasamfélag fyrir opnun. 

Sólarlag á Boracay.
Sólarlag á Boracay. Ljósmynd/Aðsend

Hvað er ómissandi að sjá á Filippseyjum?

Það er margt að skoða og gera á Filippseyjum. Fara til Boracay er algjört „must“. Underground River og að sjá kalksteinsklettana í El Nido á Palawan. Fara að surfa á Baler og á  Siquijor. Skoða Chocolate Hills og minnstu apategundina Tarsiers á Bohol. Sjá Whalesharks í Cebu og einnig kafa í Moalboal í Cebu. Skoða Mall of Asia i Manila. Einnig að fara í eyjahopp á ótrúlega mörgum stöðum á Filippseyjum. Ég get talið endalaust upp af stöðum hér sem hægt er að skoða. Mjög fallegar kirkjur víða um eyjarnar.  

Hver er besti maturinn sem þú hefur fengið á ferðalagi um Asíu?

Ég elska asískan mat. „Thai“ matur er í miklu uppáhaldi og eins indverskur matur. Kryddaður thai grænmetisréttur er í miklu uppáhaldi hjá mér. Eins maturinn héðan frá Filippseyjum. Lechon sem er heilsteikt svín og pork adobo sem er minn uppáhaldsmatur héðan.

En besti asíski maturinn að mínu mati er frá Víetnam. Cao lau sem er núðluréttur með baunum, svínakjöti og myntu. Annars elska ég „street food“ hvar sem ég fer um Asíu. 

Tarsiers-api á Bohol.
Tarsiers-api á Bohol.
Fallhlífarstökk yfir Santa Fe í Cebu.
Fallhlífarstökk yfir Santa Fe í Cebu. Ljósmynd/Aðsend

Hefurðu lent í einhverju hættulegu á ferðalagi þínu um álfuna? 

Fyrir nokkrum árum var ég að borða á veitingastað sem líka var bar í Jakarta í Indónesíu og allt í einu fylltist staðurinn af herlögreglu. Þetta var þá rassía því staðurinn reyndist vera líka vændishús og voru flestar stelpurnar undir lögaldri var sagt. Mikil slagsmál brutust út og voru flestir inni handteknir.  Ég reyndi í látunum að útskýra að ég væri bara saklaus að borða og var sleppt. Þá var haldið að ég hefði kjaftað í lögguna og mér hótað. Þá tóku tveir lögreglumenn mig út í bíl og keyrðu mig á hótelið sem ég var á ekki langt frá. Þeir sögðu mér að tékka mig út strax sem ég gerði og þeir keyrðu mig í annan borgarhluta til að fara á annað hótel. Þeir sögðu að það væri vitað á hvaða hóteli ég hefði verið. Það yrði pottþétt ráðist á mig ef ég skipti ekki um hótel. Löggan reddaði mér algjörlega þarna. 

Eru einhverjar „túristagildur“ sem ber að varast á þessu svæði?

Eins og á flestum stöðum eru túristagildrur á Filippseyjum. Ef þú tekur leigubíl láttu bílstjórann kveikja á mælinum.  Mjög margir segja að hann sé bilaður eða bjóða þér „special deal“. Rukka þig um margfalt verð. Ef bílstjórinn neitar að kveikja á mælinum farið þá út og finnið annan bíl.  Víða um Manila og Cebu eru hópar sem stunda það að „hjálpa“ þér. Þú þarft aðstoð við eitthvað. Þá er komið upp að þér og rætt við þig og þér haldið uppteknum meðan farið er í bakpokann eða farangurinn og þú rændur. Á þessum helstu túrista stöðum eru til sölu til dæmis sólgleraugu eða úr sem þér er talið trú um að sé alveg ekta en reynist svo „real fake“ dót.  

Annars eins og ég segi alltaf, nota common sense. Ef þetta hljómar of gott til að vera satt þá er það í flestum tilfellum dót. 

Chocolate Hills í Bohol.
Chocolate Hills í Bohol. Ljósmynd/Aðsend

Hvaða ráð getur þú gefið þeim sem hyggjast fara til Filippseyja í lengri eða skemri tíma?

Njóta matarins. Fólkið er upp til hópa alveg yndislegt. Flestir tala ensku og eru flestir boðnir og búnir að aðstoða þá sem vantar hjálp.

Meirihluti þjóðarinnar eru kaþólikkar og þar af leiðandi mjög trúaðir og trúa á að með því að hjálpa öðrum komist þeir til Guðs. 

Ekki líta niður á fólk þótt það sé fátækt. Margir útlendingar gera þau mistök og fá þá ekki sömu virðingu frá heimafólki og aðrir. 

Upplifa að kynnast fólki og þess venjum.  

Ferðast um í „jeepney“ og „tricycle“ sem er alveg einstakt. Ferðast um í local rútum þar sem fólk kemur inn með hænur eða fisk til að selja á markaðinum. 

Læra helstu setningar og orð á tagalog- eða visaya-tungumálinu. Það er ótrúlegt hvað fólk ber mikla virðingu fyrir þér ef þú sýnir að þú sért að reyna að tjá þig. 

Svo bara að njóta veðursins og svo ég tali nú ekki um verðið á mat og drykkjum. Mjög ódýrt í flestum tilfellum. 

Verið velkomin til Filippseyja. Ég skal glaður hjálpa þér að njóta og upplifa lífið hérna.“ 

Við innganginn í Underground River á Palawan.
Við innganginn í Underground River á Palawan. Ljósmynd/Aðsend
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert