Jón Gnarr lenti í hremmingum í Flórída

Jón Gnarr fór til Flórída í lok síðasta árs.
Jón Gnarr fór til Flórída í lok síðasta árs. mbl.is/Kristinn Ingvarsson

Grínistinn Jón Gnarr fór til Flórída yfir áramótin en segir farir sínar ekki sléttar af bílaleigunni Avis í Bandaríkjunum. Jón pantaði bíl sem hann ætlaði að keyra frá Orlando til Miami. Eftir miklar hremmingar seinkaði ferð Jóns um marga klukkutíma. Jón eyddi stórum hluta af tveimur heilum þáttum af útvarpsþættinum Tvíhöfða á Rás 2 í að tala um ferðina og þá sérstaklega vandræðin á bílaleigunni. 

Jón segir að í fyrstu hafi fjölskyldan þurft að bíða lengi eftir bílnum sem hann pantaði. Að lokum fékk hann dýrari bíl þar sem bíllinn sem hann pantaði var ekki til. Ekki fór þó betur en svo að bíllinn var bilaður og Jón og fjölskylda þurftu tvisvar sinnum að snúa við með tilheyrandi töfum. Segir Jón að kona á bílaleigunni hafi öskrað á hann. Taldi konan að hann væri algjör fáviti og hefði hreinlega ekki kunnað á sjálfstýringarbúnað bílsins. Að lokum fengu þau þó nýjan bíl og gátu keyrt alla leiðina til Miami en þó í myrkri, eitthvað sem þau ætluðu að reyna að forðast. 

Málinu var þar með ekki lokið þar sem Jón kvartaði. Hann skrifaði eina og hálfa blaðsíðu en fékk staðlað svar og boð um hátt í 20 prósenta afslátt næst. Jón svaraði staðlaða bréfinu og sagði meðal annars að hann efaðist um að hann myndi leigja aftur bíl af Avis. Hann gaf einnig leyfi til að birta umsögn sína í lok ferðar á netinu. Jón segir að hann hefði viljað fá alla upphæðina sem hann borgaði fyrir bílinn endurgreidda. 

Þrátt fyrir hremmingarnar á bílaleigunni náðu Jón og fjölskylda að njóta þess að vera í Miami og sagði að það hefði verið gaman á Miami. 

Þetta er ekki í fyrsta skipti sem Jón lendir í hremmingum á ferðalagi, hann greinir frá því að hann hafi þurft að kvarta eftir pakkaferð fyrir mörgum árum. Hótelið sem fjölskylda hans var á stóðst á engan hátt væntingar. Fékk hann hluta ferðarinnar endurgreiddan þegar heim var komið. 

Sigurjón og Jón Gnarr í Tvíhöfða.
Sigurjón og Jón Gnarr í Tvíhöfða. mbl.is/Kristinn Ingvarsson
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert