Flaug á milli landa á vegabréfi sonarins

Starfsmenn EasyJet athuguðu vegabréf konunnar ekki nógu vel.
Starfsmenn EasyJet athuguðu vegabréf konunnar ekki nógu vel. AFP

Bresk kona flaug frá Bretlandi til Þýskalands með vegabréf barnungs sonar síns án þess að átta sig á að hún væri með vitlaust vegabréf. Vegabréfaeftirlitið tók ekki eftir neinu fyrr en við komuna í Þýskalandi. 

Hin 33 ára gamla Lenesha Riley flaug frá Luton-flugvelli til Berlínar með EasyJet þegar ruglingurinn átti sér stað. Hún tók ekki eftir því sjálf fyrr en starfsmaður í vegabréfaeftirlitinu í Þýskalandi benti henni á það. Þá hafði hún tekið vegabréf sonar síns Josiah í misgripum og var strandarglópur í Þýskalandi. 

Hvorki flugvallastarfsmenn né starfsfólk EasyJet tók eftir því að konan var ekki með sitt eigið vegabréf. Henni var á endanum hleypt inn í landið eftir að frænka hennar sendi henni mynd af vegabréfinu hennar. En þá var hún strandarglópur í Þýskalandi og gat ekki flogið aftur heim til Bretlands.

Hún neyddist til að kaupa flug handa frænku sinni til Berlínar sem færði henni vegabréfið. „Það er ógnvænlegt að hugsa til þess að hver sem er geti komist inn og út úr landinu með annað vegabréf,“ sagði Riley í viðtali. 

Talsmaður fyrir Luton-flugvöll sagði í viðtali að málið væri í skoðun í samvinnu við EasyJet. Lögum samkvæmt þurfa flugvellir ekki að skoða vegabréf, aðeins að athuga hvort fólk sé með gildan farmiða áður en það fer í gegnum öryggisleitina. 

Samt sem áður eiga starfsmenn flugfélaganna að skoða vegabréf allra sem ganga um borð. Talsmaður EasyJet sagði í viðtali við The Independent að Riley hefði skráð rétt vegabréf inn í kerfið þegar hún bókaði flugið. Það hefði hinsvegar misfarist að skoða vegabréfið hennar áður en hún gekk um borð.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert