Vinnan dregur Evu Maríu á flakk

Eva María í Marokkó.
Eva María í Marokkó. Ljósmynd/Ettore Franceschi

Ferðalög eru Evu Maríu Þórarinsdóttur Lange hugleikin. Hún vinnur við að skipuleggja ferðalög fyrir hinsegin ferðamenn á Íslandi sem framkvæmdastjóri Pink Iceland og ferðast þess á milli bæði erlendis og innanlands. 

Eftirminnilegasta ferðalagið?

„Vikuferð með okkar nánasta fólki um Suður-Ítalíu í tilefni giftingar okkar Birnu síðastliðinn október,“ segir Eva María. 

Eva María og Birna fögnuðu giftingu sinni á ítölsku riveríunni …
Eva María og Birna fögnuðu giftingu sinni á ítölsku riveríunni á Suður-Ítalíu. Ljósmynd/Kristín María Stefánsdóttir

Uppáhaldsborg í Evrópu?

„Fyrir utan Reykjavík þá er Napolí uppáhaldsborgin mín en ég bjó þar sem barn þannig að ég þekki hana á annan hátt en flestir ferðamenn.“

Uppáhaldsstaður á Íslandi?

„Vestfirðir eru í miklu uppáhaldi.“

Í Arnarfirði.
Í Arnarfirði. Ljósmynd/Aðsend

Besti maturinn á ferðalagi?

„Mér finnst alltaf skemmtilegast að smakka mat sem er einkennandi fyrir hvern áfangastað.“

Mesta menningarsjokkið?

„Menningarsjokk sem mér er efst í huga tengist ekki framandi landi eins og mætti ímynda sér heldur Bandaríkjunum. Ég fékk (og fæ enn) mikið sjokk yfir ofneyslunni sums staðar þar.“

Í Miklagljúfri í Bandaríkjunum.
Í Miklagljúfri í Bandaríkjunum. Ljósmynd/Aðsend

Hefur þú lent í einhverju hættulegu á ferðalagi í útlöndum?

„Ég er mjög lánsöm með að hafa aldrei lent í neinu mjög hættulegu. Hef alveg verið smeyk nokkrum sinnum en allt hefur endað vel.“

Hvað er ómissandi í flugvélinni?

Hljóðeinangrandi heyrnartól, vatnsbrúsi, hlaðvarp og tónlist.“

Í Monument Valley í Bandaríkjunum.
Í Monument Valley í Bandaríkjunum. Ljósmynd/Aðsend

Hvert dreymir þig um að fara?

„Í afslöppunarferð til Seychelles-eyja.“

Hvaða ferðalög eru á dagskrá?

„Ég ferðast mikið vegna vinnunnar en mér er næst boðið til Möltu og síðan Caprí þar sem ég er að fara að halda fyrirlestra fyrir hönd Pink Iceland. Svo er ég á leiðinni með konunni minni og fjórum vinum okkar í mánaðar ferðalag um Mið- og Austur-Evrópu í vor.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert