Hafþór Júlíus gerist leiðsögumaður um Ísland

Viltu skoða Ísland með Hafþóri Júlíusi Björnssyni?
Viltu skoða Ísland með Hafþóri Júlíusi Björnssyni? AFP

Aflraunamaðurinn Hafþór Júlíus Björnsson mun í samstarfi við Luminary Experiences leiða ferðamenn í ferð um Ísland í september næstkomandi. 

Ferðin virðist ekki vera fyrir hinn venjulega ferðamann heldur miðuð að vel efnuðum ferðamönnum sem hafa áhuga á að upplifa Ísland á annan hátt. Um er að ræða sex daga ferð dagana 20. til 25. september. 

Hafþór og föruneyti hans munu skoða Suðurlandið og gista á Hótel Rangá og á hótelinu í Bláa lóninu. Farið verður í hellaskoðun, siglingu í kringum Vestmannaeyjar, hvalaskoðun og helstu fossar á Suðurlandi skoðaðir.

Ferðin kostar 12.700 Bandaríkjadali fyrir tveggja manna herbergi og 13.200 fyrir einstaklingsherbergi eða um 1,5-1,6 milljónir á manninn.

Luminary Experiences sérhæfa sig í því að skipuleggja ferðir um þekkta ferðamannastaði með frægum heimamönnum. Þau bjóða meðal annars upp á ferð um París og Normandí með sagnfræðingnum Doris Kearns Goodwin, Napolí með kokknum Simone Flaco og Mílanó með fyrirsætunni og leikaranum Jeffrey Bowyer Chapman.

Gist verður þrjár nætur á Hótel Rangá.
Gist verður þrjár nætur á Hótel Rangá. Ljósmynd/Hótel Rangá
Gist verður á lúxushótelinu í Bláa lóninu.
Gist verður á lúxushótelinu í Bláa lóninu. Ljósmynd/Oddur Bjarnason
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert