Skólahaldi frestað í Peking vegna kórónaveirunnar

Freyr og Ísey eru búsett í Peking en eru nú …
Freyr og Ísey eru búsett í Peking en eru nú á ferðalagi um Indónesíu. Ljósmynd/Aðsend

Fyrsta skóladegi í mörgum háskólum í Kína hefur verið frestað en ný önn átti að hefjast nú bráðlega eftir áramótin þar ytra. Ísey Dísa Hávarsdóttir sem búsett er í Peking segir í samtali við mbl.is að þau séu tvístígandi yfir því að fara aftur heim til Peking um þessar mundir en þau fóru til Balí yfir hátíðirnar. 

Hún og kærasti hennar Freyr Brynjarsson stunda bæði háskólanám í borginni og fyrsta skóladeginum hjá þeim báðum hefur verið frestað vegna útbreiðslu kórónaveirunnar á þessu svæði.

„Við erum á ferðalagi um Balí og nálægar eyjur í Indónesíu um þessar mundir. Hér virðist fólk fremur rólegt yfir veirunni og við höfum í raun mjög lítið orðið vör við hana og allt umstangið sem henni fylgir í daglegum erindagjörðum hérna. Það er ekkert lát á því að fólk komi saman á veitingastöðum eða slíku og almenningssamgöngur ganga sinn vanagang. Það verður samt að viðurkennast að við erum svolítið meira vör um okkur og erum alltaf með spritt við höndina og svoleiðis,“ segir Ísey.

Planið hjá þeim var að fara til Hong Kong í næstu viku og svo heim til Peking eftir það, í tæka tíð fyrir upphaf annarinnar. „Það er óhætt að segja að kórónaveiran sé búin að setja strik í reikninginn vegna þess að við fengum póst í upphafi þessarar viku þess efnis að það sé búið að fresta fyrsta skóladeginum. Í póstinum stóð einfaldlega að innritun hefði verið frestað og við myndum fá upplýsingar um það síðar hvenær skólinn hæfist að nýju. Auk þess kom fram að það væri ekki æskilegt að snúa aftur á skólasvæðið fyrr en skólinn hefst svo að við erum í svolítið mikilli óvissu núna,“ segir Ísey og bætir við að um 100 þúsund manns sæki skólann á degi hverjum. 

Þar að auki eru ferðaplönin í uppnámi því í gær fengu þau tölvupóst þess efnis að fluginu frá Hong Kong til Peking, með Hong Kong Airlines, hefði verið aflýst. Ef þau ákveða að halda sig við það að fara til Hong Kong eru því einhverjar líkur á að þau festist þar vegna þess að flest flugfélög hafa stöðvað allt innanlandsflug í Kína. 

Ísey segir að þau hafi fengið góðar upplýsingar hjá íslenska sendiráðinu í Peking. „Íslendingasamfélagið í Peking er fámennt en afar sterkt að mínu mati. Fólkið sem vinnur hjá sendiráðinu stendur sig frábærlega í því að passa upp á að allir séu upplýstir um gang mála og hafa bent okkur á ýmsar hagnýtar upplýsingar. Íslendingum í Kína hefur boðist að skrá sig hjá borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins og við erum að sjálfsögðu hvött til að fara varlega. Við höfum lesið okkur til á vefsíðu embættis landlæknis og reynum okkar besta í að fara eftir þeim ráðleggingum sem beint er til ferðafólks,“ segir Ísey.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka