Mistök sem ferðamenn gera í Brussel

Hefur þú gert þessi mistök í Brussel?
Hefur þú gert þessi mistök í Brussel? Ljósmynd/Aðsend

Stella Vest­mann þekkir hvern krók og kima í Brussel í Belgíu. Hún rekur þar fyrirtækið Stellar Walks sem býður upp á gönguferðir um þessa sögufrægu borg. Stella tók saman fimm mistök sem ferðamenn gera þegar þeir koma til borgarinnar.

Kynna sér ekki nöfn lestarstöðva nægilega vel

Almenningssamgöngur eru góð leið til að ferðast á milli staða í Brussel og losna við tíðar umferðarteppur. Þú ert kominn með miða, hoppar um borð og veist að þú átt fara út á metrostöðinni Arts-Lois. Áður en þú veist af ertu kominn á endastöð, kófsveittur og ruglaður. Þú ert ekki í rangri lest, þú hefur líklegast bara séð skiltið „Kunst-Wet“ og þar hefðir þú átt að stíga af, enda ein og sama stoppistöðin. Í Belgíu eru öll opinber nöfn og heiti bæði á hollensku og frönsku. Oftast eru nöfnin keimlík en þó ekki alltaf. Bæði heitin eiga að vera sýnileg en engu að síður er gott að vera meðvitaður um bæði heitin. Annað dæmi, þú átt erindi til borgarinnar Mons í Suður-Belgíu og leggur áhyggjulaus af stað í bílaleigubílnum en staðsetningartækið þitt vill ólmt senda þig til Bergen! Þú spyrð þig hvaða furðulega þráhyggja þetta sé og af hverju Bergen í Noregi af öllum stöðum?! Jú sjáðu til, þetta er sama borgin. Mons er franska heitið en Bergen það hollenska. Það verður seint sagt að Belgar séu húmorslausir. 

Kaupa sér vöfflur við ferðamannagötur

Belgar vita ekki hvað keto er og munu líklegast aldrei viðurkenna þann lífsstíl með allan sinn bjór, djúpsteiktu fríturnar sínar og ilmandi vöfflusölustaði á hverju horni. Hornsteinar belgískrar næringarfræði og selt á öllum götuhornum. Margir ferðamenn tileinka sér þetta mataræði meðan á dvöl þeirra stendur en gera þau mistök að kaupa vöfflur við mestu ferðamannastaðina þar sem þær eru oftar en ekki bara hitaðar upp og gestir plataðir til að hlaða alls kyns óþarfa á vöffluna, líklegast til að fela dagsgamla bragðið af vöfflunni. Þumalputtareglan er að því færri túristar, þeim mun meiri gæði.

Halda að Delerium sé besti barinn í Brussel og ætla sér of mikið í bjórsmakki

Margir kannast við Delerium-barinn þar sem hann komst í Heimsmetabók Guinnes árið 2004 fyrir að bjóða upp á flestar tegundir af bjór, yfir 2.000 tegundir. Staðurinn varð gríðarlega vinsæll og stækkaði umtalsvert eftir það. Fyrir vikið er hann einskonar pöbbaskrímsli með rorrandi fullum bakpokaferðalöngum eftir aðeins þrjá bjóra. Líklegast bandarískir ferðamenn, vanir 4-6% bjórum meðan 7-9% er algengasta áfengismagnið í belgískum bjór. Bjórinn í Belgíu ber að varast enda afar lúmskur.

Skoða bara gamla miðbæinn

Gamli miðbærinn er lítill og hefur upp á margt stórfenglegt að bjóða með skyldustoppum ferðamannsins. Fagráð er að fá sér leiðsögn við upphaf ferðar til að sjá þessa lykilstaði með skiplögðum hætti og fá skýringar á þeim. Á stuttum tíma nær maður öllu því helsta og getur notað tímann afgangs til að kanna aðra spennandi staði í borginni sem flestir ferðamenn missa af á meðan þeir flögra ómarkvisst og ringlaðir um í gamla miðbænum. Í Brussel eru ótal torg og hverfi þar sem gaman er að fara á veitingahús eða kaffihús til að slaka á og fylgjast með mannlífinu. Torg eins og Sablon, Place Saint Boniface, Place du Chatelain eða hverfi eins og Saint Gilles eða Marollen eru aðeins örfá dæmi um skemmtilega staði. 

Treysta öllu sem sem Belgar segja þér

Ekki misskilja, þetta er ekkert neikvætt. Segjum sem svo að þú setjist inn á kaffihús við fallegt torg og lendir á spjalli við innfæddan. Gaman að fá Brussel beint í æð í gegnum innvígða borgara í margar kynslóðir. Í fyrstu geta þeir virkað alvarlegir og fullir af fróðleik sem þeir deila glaðir með þér. Þá er kominn tími til að deila í með tveimur eða meira. Líklegast er þetta allt uppspuni frá rótum! Þeir elska að gantast í ferðamönnum og hafa ákaflega gaman af því að segja sögur. Njóttu þess en ekki taka þá of alvarlega, við Íslendingar kunnum að meta góðar sögur og vitum sem er að góð saga á aldrei að líða fyrir sannleikann.

Þess má geta að hægt er að fá íslenska leiðsögn í Brussel með Stellar Walks. Einnig má fylgj­ast með Stellar Walks á Facebook og In­sta­gram.

Belgísk vaffla er algjör lostgæti.
Belgísk vaffla er algjör lostgæti. Ljósmynd/Aðsend
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka