Á slóðum Harrys Potters í Edinborg

Það er ekki erfitt að ímynda sér ævintýri í Edinborg
Það er ekki erfitt að ímynda sér ævintýri í Edinborg Mynd/skjáskot af facebooksíðu Edinborgarkastala

Þegar gengið er um þröng skástræti í miðbæ Edinborgar með mikilfenglega kastala fyrir augum flögrar hugur Harry Potter aðdáandans strax að bókunum, og ekki að ástæðulausu. J.K. Rowling, höfundur Harry Potter, skrifaði handrit nokkurra bókanna í Edinborg og ef vel er að gætt má víða sjá innblástur hennar að skrifunum.

Það er því ekki úr vegi að víkja fyrir aðdáendur að skella sér í pílagrímsferð til borgarinnar. Það vill meira að segja svo skemmtilega til að allir helstu staðirnir eru annaðhvort í miðbænum eða í nokkurra mínútna fjarlægð frá honum og krefjast þar af leiðandi einskis annars fararskjóta en tveggja jafnfljótra. 

Gatan Victoria Street í Edinborg þykir minna á lýsingarnar á …
Gatan Victoria Street í Edinborg þykir minna á lýsingarnar á Skástrætí í bókunum um Harry Potter Mynd: Sóley Björk Guðmundsdóttir

Innblástur Skástrætis

Fyrsti áfangastaður er gatan Victoria Street, sem liggur frá Grassmarket upp í átt að Royal Mile, aðalverslunargötu borgarinnar. Victoria Street er þröng gata sem liggur í boga upp í móti og er þétt skipuð verslunum með framhliðum í fjölbreyttum litum. Þessi gata er talin vera innblásturinn að Skástræti, sem er svokallaður Laugavegur galdramanna í Bretlandi. Þangað fer Harry Potter til að kaupa sér allt frá töfrasprota til bjölluaugna og leðurblökuvængja (sem fara í pott til að sjóða galdraseyði).

Þegar gengið er upp götuna er auðvelt að ímynda sér skikkjuklæddar nornir og galdramenn á rölti. Ekki skemmir fyrir að nokkrar búðir í götunni selja Harry Potter-varning, svo það er fljótgert að ná sér í trefil eða sprota og ímynda sér að maður sé nemandi í Hogwartsskóla að skoða sig um í heimi mugga (fólk án galdrahæfileika).

George Heriot's skólinn er talinn vera innblásturinn að Hogwartsskóla
George Heriot's skólinn er talinn vera innblásturinn að Hogwartsskóla Mynd/skjáskot af facebooksíðu George Heriot's School

Fyrirmynd Hogwartsskóla

Frá Victoria Street er stutt upp að Edinborgarkastala, sem einn og sér lítur út fyrir að eiga heima í ævintýri frekar en í miðri borg. Frá planinu fyrir framan kastalann má sjá yfir stóran hluta Edinborgar. Þar sést meðal annars vel yfir George Heriot-skólann. Sá er sérlega mikilvægur fyrir Harry Potter-aðdáendur þar sem hann er talinn hafa veitt Rowling innblásturinn að hugmyndinni um Hogwartsskóla, sem Harry og vinir hans ganga í og er sögusvið flestra bókanna.

Í glugga Elephant House má sjá skilti sem á stendur …
Í glugga Elephant House má sjá skilti sem á stendur „Birthplace of Harry Potter“ Mynd/ skjáskot af facebooksíðu Elephant House

Fæðingarstaður Harrys Potters

Eftir göngu og búðaráp er líklega komið að hressingu. Elephant house er kaffihús á George VI Bridge (tiltölulega nærri kastalanum) og er eitt þeirra kaffihúsa sem J.K. Rowling sótti mikið þegar hún var að skrifa fyrstu bækurnar. Það þekkist bæði á rauðmálaðri framhlið, sem og af hópum af fólki sem eiga það til að standa fyrir framan skilti í glugganum og taka sjálfur. Á skiltinu stendur „Birthplace of Harry Potter“. Eins og gefur að skilja er kaffihúsið mjög vinsælt, en það hefur ekki komið niður á veitingunum sem eru ljómandi góðar.

Hér hvílir Hinn myrki herra
Hér hvílir Hinn myrki herra Mynd: Sóley Björk Guðmundsdóttir

Gröf Voldemorts

Rétt handan við hornið frá Elephant House má finna hvorki meira né minna en gröf þess sem ekki má nefna, Voldemorts, erkióvinar Harrys Potters. Hana er að finna í hinum drungalega kirkjugarði Greyfriars Kirkyard, en Rowling rölti þar um til að finna hugmyndir að nöfnum fyrir sögupersónurnar í bókunum. Ef vandlega er að gáð má finna fleiri grafir með kunnuglegum nöfnum, McGonnagall, Scrymgeour, Potter og fleiri. Gröf Voldemorts er undir nafninu Thomas Riddle. Voldemort er nafn sem hinn myrki herra tekur sér eftir skóla og er stafarugl á nafninu hans. Á ensku verður nafnið Tom Marvolo Riddle að I am Lord Voldemort. Í íslenskri þýðingu bókanna er nafn hins illa herra hins vegar Trevor Delgome, sem er stafarugl fyrir Eg er Voldemort.

Greyfryars Kirkyard er mjög nærri George Heriot-skólanum, svo ef það er tími og áhugi fyrir því að skoða innblástur Hogwarts í návígi þá er stutt að rölta yfir.

Þessi ku vera mun vinalegri en Ripper, sem Harry Potter …
Þessi ku vera mun vinalegri en Ripper, sem Harry Potter aðdáendur ættu að muna eftir úr þriðju bókinni Mynd/skjáskot af facebooksíðu The Dog House

Hundakofinn

Eftir kuldalegt viðmót hins myrka herra í gömlum kirkjugarði gæti verið kominn tími á aðra hressingu. The Dog House er krá í tæplega 1 km fjarlægð frá kirkjugarðinum. Þar er hægt að fá hunangsöl, vinsælasta drykk knæpunnar Þriggja kústa í Hogsmeade, sem er þorp í næsta nágrenni Hogwartsskóla. Ekki bara það, heldur býr á barnum bolabítur sem er víst mun vinalegri en Ripper, bolabítur Marge frænku Harrys. 

Leyndarmálastofnunin

Það er engin Harry Potter-heimsókn til Edinborgar fullkomin án þess að heimsækja Leyndarmálastofnunina (The Department of Mysteries). Þar er bæði hægt að smakka á töfradrykkjum eða berjast gegn upprisu hins illa herra í svokölluðu flóttaherbergi (enska: escape room). Þar geta tveir eða fleiri látið loka sig inni í herbergi þar sem hópurinn þarf að leysa fjölda þrauta í anda Harrys Potters til að komast út, og til að koma í veg fyrir að Voldemort snúi aftur.

Harry Potter og vinir hans lentu í óvæntum og erfiðum …
Harry Potter og vinir hans lentu í óvæntum og erfiðum slag í Leyndarmálastofnuninni Stilla úr myndinni Harry Potter og Fönixreglan

Rútuferð í anda Riddaravagnsins

Ef verslanir Edinborgar heilla það mikið að lítill tími gefst til að elta Harry Potter-áfangastaði, eða ef ef söguglaður ættingi varð til þess að safnaheimsóknin varð þrisvar sinnum lengri en hún átti að verða, þá er hægt að sjá flesta þessa áfangastaði á ferð. Í tveggja hæða rútu í anda Riddaravagnsins er hægt að þeysast um Edinborg og skoða helstu Harry Potter-slóðirnar án þess að þurfa að standa upp!

Gististaðir í anda Harrys Potters

Einhvers staðar þarf að leggja höfuð á kodda þegar kvölda tekur og fyrir sérlega Potteraðdáendur eru það helst þessir tveir gististaðir sem koma til greina:

Rowling-svíta á lúxushóteli

Lokahnykk sögunnar um galdradrenginn skrifaði J.K. Rowling í herbergi 552 á Balmoral-hótelinu í Edinborg, einu af fínustu hótelum borgarinnar. Þá voru ansi breyttar aðstæður frá kaffihúsaflakkinu í aðdraganda fyrstu bókanna, enda bækurnar búnar að slá í gegn.


Það er hægt að bóka svítuna sem Rowling dvaldi í þegar þessir töfrar áttu sér stað, og það fer ekki á milli mála að svo var. Svítan var endurnefnd J.K. Rowling Suite og þar prýðir herbergið enn sama skrifborðið og hún notaði, sem og stytta af gríska goðinu Hermes, árituð af höfundinum.

Það er greinilegur Griffindorandi sem hér svífur yfir vötnum
Það er greinilegur Griffindorandi sem hér svífur yfir vötnum Skjáskot af síðu Canongate Luxury Homestay

Íbúð í anda Griffindor

Ef veskið er ekki svo teygjanlegt að leyfa svítu á Balmoral er hægt að leigja íbúð sem er innréttuð í anda Griffindor, heimavistarinnar sem Harry Potter bjó á alla sína galdraskólagöngu. Íbúðirnar eru nærri Royal Mile og Waverly-lestarstöðinni, og því í prýðisfjarlægð við alla helstu Harry Potter-áfangastaði, sem og flest annað í miðbæ Edinborgar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert