Arndís Birgisdóttir mun klára samtvinnað atvinnuflugnám hjá Keili á næstu vikum. Hún hefur nú þegar klárað bóklega hlutann en klárar verklega hlutann þegar veður leyfir. Arndís segir karlmenn enn í meirihluta í flugnámi en konurnar sækja á. Ekki er að heyra að erfiðleikar í flugrekstri á Íslandi að undanförnu dragi úr flugmannsdraumi Arndísar.
Áhugi Arndísar á flugvélum kviknaði snemma.
„Þegar ég var lítil var pabbi stundum að segja mér sögur frá því þegar hann átti flugvél og var með einkaflugmannspróf. Síðan fórum við stundum að skoða flugvélar á Reykjavíkurflugvelli. Frænka mín er flugmaður hjá Icelandair og hún tók mig í fyrsta flugið mitt og eftir það var ég viss um að ég vildi verða flugmaður,“ segir Arndís.
Hvernig byrjar maður að læra að verða flugmaður?
„Þú getur byrjað á að taka PPL (einkaflugmannspróf) og síðan haldið áfram í atvinnu en ég heillaðist meira af samtvinnuðu atvinnuflugnámi (intergrated). Þar þarftu ekki að fara í tímasöfnun og það er meiri áhersla á blindflug en ef þú byrjar í PPL og ferð svo í atvinnu. Ég byrjaði í PPL hjá Flugskóla Íslands, kláraði bóklega þar en ekki verklega hlutann. Eftir það sótti ég um intergrated hjá Keili. Ég þekki samt marga sem hafa tekið PPL og svo atvinnu. Þetta er bara einstaklingsbundið hvað hentar hverjum.“
Hvað tekur við þegar þú klárar verklega prófið?
„Það eru alveg margir valmöguleikar í boði. Þú getur sótt um hjá hvaða flugfélagi sem er þannig séð ef þú uppfyllir kröfur þeirra, það fer eftir hvað flugfélögin eru að biðja um. Svo getur þú líka farið í flugkennarann sem er held ég mjög skemmtilegt og gott að hafa það á ferilskránni sinni. Þegar ég klára ætla ég að taka flugkennarann og meðan það ferli er í gangi bara sækja um hjá flugfélögum þar sem ég uppfylli kröfur.“
Arndís segir að það sé ákveðið frelsi sem fylgi því að fljúga flugvél. Svo skemmir ekki útsýnið úr flugstjórnarklefanum. Þegar hún ferðast sjálf með flugvélum er hún mjög róleg og segist aldrei hafa verið flughrædd. Það breyttist ekki eftir að hún hóf flugnámið og ef eitthvað er þá finnst henni skemmtilegra að ferðast með flugvélum núna þar sem hún veit hvað er að gerast og hvernig flest virkar.
Lengi vel voru karlar í meirihluta í þessari starfsstétt, finnst þér það vera að breytast?
„Já það eru alltaf fleiri og fleiri stelpur að byrja þótt strákar séu enn í meirihluta. Í mínum bekk voru strákar alveg í meirihluta. Ég held við höfum verið sex stelpur og 17 strákar, en það er ekkert í öllum bekkjum sem er svona mikill munur. Það eru mjög margar konur fyrirmyndir í fluggeiranum en mín fyrirmynd hefur held ég alltaf verið Linda frænka mín sem vinnur hjá Icelandair, það verður mjög gaman að fljúga aftur með henni ef Icelandair vill ráða mig einn góðan veðurdag,“ segir Arndís.
Miklar sviptingar hafa verið í flugrekstri á Íslandi að undanförnu með falli WOW air og kyrrsetningu MAX-flugvélanna. Arndís hélt ótrauð áfram flugnáminu en þó voru nokkrir sem hættu.
„Ég veit að nokkrir hættu við flugnámið þegar WOW air varð gjaldþrota til dæmis og jú maður finnur fyrir smá niðursveiflu núna í fluginu út af MAX-málinu en maður má bara ekkert vera að stressa sig. Það kemur uppsveifla á endanum, maður þarf bara að vera þolinmóður.“
Síðustu tvö ár hefur Arndís lagt mikla áherslu á námið og ferðast minna en áður. Hún stefnir þó á áframhaldandi ferðlög í háloftunum í framtíðinni.
„Mig langar rosa mikið að næsta ferðalag mitt verði að heimsækja Guðrúnu vinkonu mína sem á heima í San Francisco eða til Maldíveyja að hitta Steina vin minn úr Keili. Hann er akkúrat að byrja að fljúga tveggja hreyfla sjóflugvél þar. Ég er síðan alltaf með nýja og nýja draumastaði til að heimsækja en svona seinustu mánuði er mig búið að dreyma um Mexíkó,“ segir Arndís að lokum um draumaferðalagið.