Verkið sem María Ellingsen er að leika í heitir Er ég mamma mín? Hún segir verkið hrikalega fyndna og hjartnæma fjölskyldusögu sem sögð er á tveimur tímabilum. Með megináherslu á áhrif hverrar kynslóðar á þá næstu sem og samskipti hjóna í blíðu og stríðu.
„Þetta er flottur leikarahópur með Kristbjörgu Kjeld í hlutverki ættmóðurinnar.
Svo er ég að leika utanríkisráðherra Íslands í sjónvarpsseríunni Thin Ice sem sýnd er á RÚV og fyrr í vetur frumsýndi ég eigið verk Arctic Women í kolalestarstöð á Svalbarða um samspil manns og náttúru.“
Hvað gerir þú þegar tími gefst til?
„Þá sest ég niður og skrifa. Ég er með verkefni bæði fyrir leikhús og sjónvarp á prjónunum. Svo reyni ég eftir fremsta megni að finna tíma til að styrkja fólk í að koma fram og halda ræður.“
Hvað gerir þú til að dekra við þig?
„Ég fer út að leika. Mér finnst það langmest gefandi að fara út í náttúruna til dæmis á hestbak, gönguskíði eða á fjöll.
Á sumrin fer ég með manninum mínum eitthvað út í buskann og sef í tjaldi og sting nefinu niður í mosann.“
Hvaða hönnuð heldur þú upp á?
„Mér finnst frekar leiðinlegt að fara í búðir og var því ákaflega ánægð þegar ég datt niður á Tory Burch fyrir tilviljun. Hún hannar föt sem hægt er að hreyfa sig í enda tenniskona.
Svo hafa bæst við fínni föt líka svo nú get ég farið í þessa einu búð til að kaupa allt sem ég þarf.“
Stundarðu hreyfingu að staðaldri?
„Ég er aldrei kyrr! En ég byrja samt rólega á morgnana með jóga og svo reyni ég að komast í sund því allir dagar verða betri ef maður nær að komast í sund. Svo stekk ég í ræktina eða fer og hreyfi mig úti við þegar stund gefst.“
Hver er uppáhaldsliturinn þinn?
„Blár – allir tónar af bláum. Ég vildi helst geta horft yfir hafið á hverjum degi til að drekka í mig bláa litinn.“
Áttu þér íþróttafatnað sem þú heldur upp á?
„Lululemon-fatnaður er þægilegur, fallegur og vandaður. Ég er búin að eiga sömu flíkurnar frá þeim í mörg ár.“
Hver er mest notaða snyrtivaran í snyrtitöskunni?
„Taramar, serum og krem sem er bæði náttúrulegt og tæknilegt. Þróað af íslenskri konu og búið til að mestu leyti úr þangi.“
Hver er uppáhaldsverslunin þín?
„Melabúðin, þar sem maður fær matarlyst og hittir skemmtilegt fólk.“
Áttu þér uppáhaldsborg?
„Já, New York-borg er algjör uppáhaldsborg. Hún fagnar fjölbreytileika og er full af lífi, litum og krafti. Ég lærði leiklist við New York-háskólann og í borginni líður mér eins og heima hjá mér.“
Hver er besti veitingastaðurinn á landinu að þínu mati?
„Mímir er með frábært hráefni, beint frá býli og unga kokka sem eru að brillera. Það er allt gott á matseðlinum, ekki síst grænmetið. Fallegur og notalegur staður og frábær þjónusta.“
Borðarðu morgunmat?
„Ég borða risa morgunmat. Grænan drykk. Hafragraut með chia og ávöxtum. Ristað brauð, eggjaköku og te.“
Áttu þér uppáhaldssmáforrit?
„Trello er gott. Það er svo gaman að skipuleggja alls konar bras í því.“
Hvað er á óskalistanum?
„Brúðkaupsferð til fjarlægra landa er efst á listanum, en við Christopher Lund giftum okkur í Færeyjum síðastliðið sumar.“