Í þáttunum Hver ertu? heimsótti tónlistarmaðurinn Unnsteinn Manuel Stefánsson móðurfjölskyldu sína í Angóla. Móðir hans, Ana Maria Unnsteinsson, er ættuð frá Angóla í Afríku, en þaðan fluttist hún aðeins 11 ára gömul. Unnsteinn segir tilfinninguna að koma til heimalands móður sinnar góða og hlakkar til að sýna fjölskyldu sinni landið í framtíðinni.
„Ég fór ásamt Þóru Karítas Árnadóttur til Malaví á vegum UN Women árið áður og það var mjög áhugavert. Þá fékk ég svona meiri áhuga á minni sögu og sögu mömmu minnar,“ segir Unnsteinn í viðtali við Ferðavefinn.
Þegar þættirnir voru á upphafsstigi hjá Republik ákvað Unnsteinn að slá til og kanna betur landið sem móðir hans fæddist í. Hann hefur hitt töluverðan hluta móður fjölskyldunnar en hluti hennar býr úti í Portúgal, þar sem Unnsteinn fæddist.
„Móðurættin hefur fyrir mér alltaf verið í Portúgal. Angóla var portúgölsk nýlenda í mörg hundruð ár en að fara til Portúgals er ekki það sama og að fara til Angóla,“ segir Unnsteinn.
Hann segir að margir líti á heimsálfuna Afríku sem eina heild. Eftir að hafa komið til Malaví þá varð hann ekki var við menningarsjokk við komuna til Angóla. Enda séu löndin ólík, þó þau hafi bæði mjög sterk afrísk einkenni.
„Ég hafði komið til Malaví og svo kem ég til Angóla og það er allt öðruvísi land. Það er miklu ríkara land heldur en Malaví. Þar er mikil misskipting þar auðvitað og maður sér það vel. Ólíkt nágrannalöndunum er nokkuð stór millistétt í Angóla sem hefur það gott, þó hún sé ekki mjög rík,“ segir Unnsteinn.
Unnsteinn á stóra fjölskyldu úti í Angóla. Þegar hann, ásamt tökuliðinu var á leiðinni að hitta móðurbróðir hans og alla fjölskylduna stoppuðu þau á bensínstöð. Á bensínstöðinni sá hann mann sem honum fannst líkur frænda sínum og í ljós kom að þetta var frændi hans sem hafði búið á Íslandi ásamt yngri bróður móður hans.
Hann segir fjölskyldurnar vera mjög stórar úti í Angóla og á hann stóran frændgarð þar. „Það sem ég tók sérstaklega eftir er hversu samheldin fjölskyldan er. Bróðir mömmu er gamall og frekar veikur. Hann er mikið heima og getur ekkert unnið en hann er samt aldrei einn, það er alltaf einhver hjá honum og tilbúinn að fara í búðina og þessháttar fyrir hann. Það er mjög mikil samheldni,“ segir Unnsteinn.
Í þáttunum spjallar Unnsteinn einnig við mömmu sína um Angóla og sagði hún honum frá stöðum sem hún man eftir úr æsku sinni. Hún minntist meðal annars á öll dýrin og á þriðja degi ferðarinnar fór hann í safari-ferð til að skoða dýrin.
Unnsteinn segir þetta hafa verið frábært tækifæri til að kynnast landi forfeðra sinna betur og segist hlakka til að heimsækja það aftur og sýna fjölskyldu sinni heima á Íslandi landið.
Þættirnir Hver ertu? eru framleiddir af Republik og verða sýndir í Sjónvarpi Símans næsta vetur. Auk Unnsteins verður einnig rætt við Lilju Pálmadóttur, Hannes Þór Hilmarsson, Ágústu Evu Erlendsdóttur, Boga Ágústsson og Heru Hilmarsdóttur. Lárus Jónsson leikstýrir þáttunum.