Ég anda alltaf örlítið léttar þegar ég kem til Kaupmannahafnar (sem ég geri reglulega því ég er svo heppin að eiga fjölskyldu þar). Borgin er svo skemmtileg, sambland af því að vera afslöppuð en um leið iðandi af lífi. Hún er fullkominn staður til að njóta lífsins í botn í litríkri evrópskri borgarmenningu.
Það er ævintýralega margt hægt að sjá og gera í Kaupmannahöfn og það var erfitt að velja hvað kæmist á listann á mínum draumadegi. Þegar upp er staðið ákvað ég að þema draumadagsins míns í Kaupmannahöfn yrði einfalt: að njóta.
Ég læt ekki heillast af því úrvali af gæðabrauðmeti og -bakkelsi sem Kaupmannahöfn hefur upp á að bjóða og kýs í staðinn það sem ég kalla morgunmat meistaranna: ostrur og kampavín (verður maður ekki að taka þetta alla leið á draumadegi?).
Torvehallerne er matarmarkaður við Nørreport-lestarstöðina, nærri Strikinu. Þar er einstaklega gott úrval af bæði verslunum og veitingastöðum og ætti markaðurinn að vera viðkomustaður hjá öllum matarunnendum sem ferðast til Kaupmannahafnar. Úrvalið er slíkt að lítið mál er að fara í örlitla heimsreisu með smáréttum héðan og þaðan, hvort sem það er bólivísk brauðkolla, sushi, hafragrautur eða takó sem verður fyrir valinu. Þeir sem leggja ekki í ostrur fyrir hádegi hafa því um nóg annað að velja – það er að segja ef matarlystin er hrokkin nógu hressilega í gang.
Eftir misléttan morgunmat er best að koma sér af stað. Við hliðina á Torvehallerne er Nørreport-stöðin og þaðan tekur metróferðin yfir á Kristjánshöfnina aðeins þrjár mínútur.
Kristjánshöfnin er fallegt hverfi þar sem margur Íslendingurinn hefur alið manninn í gegnum tíðina. Líkt og stór hluti miðbæjarins er svæðið sundurskorið af síkjum, umkringdum fallegum húsum sem gaman er að rölta um og skoða, en á draumadeginum er bara pláss fyrir tvo áfangastaði; kirkjuheimsókn og Kristjaníu.
Kristjaníu hafa flestir núlifandi Íslendingar heyrt um, fríríkið í miðri Kaupmannahöfn sem er þekkt fyrir uppreisn og eiturlyf. Hvaða skoðun sem maður kann að hafa á því er Kristjanía skemmtilegur staður að heimsækja. Svæðið er bæði fallegt og einstaklega liflegt. Þar er alls konar fólk að gera alls konar hluti. Á svæðinu er hægt að kaupa einhver glæsilegustu hjól sem finnast í Köben, þar eru góðir veitingastaðir, öflugt tónlistarlíf, listagallerí, fatabúðir og að sjálfsögðu sölubásar með alls konar túristavarningi, og fleiru.
Þrátt fyrir tengsl staðarins við fíkniefni er ekkert að óttast að kíkja í „Stínu“, svæðið er alveg jafn öruggt og afgangurinn af borginni. Það er mjög gaman að rölta um skoða, en ekki sleppa því að fara lengra en mið„bærinn“. Ég mæli sérstaklega með stígnum sem liggur meðfram vatninu þar sem má sjá hús sem augljóslega eru ekki byggð eftir byggingarreglugerðum og virðast hanga saman á lyginni einni.
Nokkrum skrefum frá Kristjaníu gnæfir Vor Frelseres Kirke yfir Kristjánshöfninni. Kirkjan státar af háum brúnum turni með gylltum þrepum og stórri gylltri kúlu efst á toppnum.
Kirkjan sjálf er falleg, en ekkert endilega fallegri en aðrar kirkjur. Það sem gerir heimsóknina þangað sérstaka er að fara upp í turninn, klífa fyrst gamlar trétröppur, hærra og hærra, og svo gylltu tröppurnar sem hlykkjast utan um efsta hluta turnsins. Frá toppnum sést yfir borgina til allra átta, þaðan sést óperan, gamla kauphöllin, nýja Konunglega leikhúsið, ein þekktasta og furðulegasta skíðabrekka Norðurlandanna Copenhill (staðsett á þakinu á gamalli sorpbrennslustöð) og fleira. Úr þessari hæð verður skipulag Kaupmannahafnar í ferhyrndar blokkareiningar og skrautlegir litir húsanna skemmtilega greinilegt.
Þessi áfangastaður er ekki fyrir lofthrædda, en þrátt fyrir að fólk komi sér bara rétt upp innri tröppurnar og kíki út um dyrnar sem liggja að tröppunum utan á turninum þá er útsýnið þess virði. Þeir hugaðri geta haldið áfram, smærri hjörtu geta snúið við og samt sagt hetjusögur af sér í háum kirkjuturni.
Er nokkuð betra á góðum degi en njóta lífsins á báti? Ég held ekki og þess vegna er sigling næsti dagskrárliður. Í göngufæri frá kirkjunni er að finna litla höfn þar sem hægt er að leigja litla átta manna báta sem engin réttindi þarf á og er ótrúlega auðvelt að sigla. Kaupmannahöfn er sundurskorin af síkjum eins og áður sagði svo það er hægt að skoða mörg helstu kennileiti borgarinnar á siglingu, eins og Amalíuborg (höll drottningar), bókasafnið Svarta demantinn, Kristjánsborgarhöll, horfa inn Nýhöfnina og fleira. Satt best að segja er það mun fljótlegra en að taka almenningssamgöngur að stöðunum.
Það hljómar kannski ógnvekjandi að vera sjálfur við stýrið á bát án þess að maður viti nokkuð hvað maður er að gera, en þetta er mun einfaldara en það virðist. Hámarkshraðinn er mjög lágur, síkin eru breið, og maður fær kort í hendurnar sem sýnir hvert má fara og hvar allt það helsta er að finna.
Það skemmir ekki fyrir að koma við í næstu kjörbúð á leið í bátinn og kaupa gæðasnarl til að hafa með sér, hvort sem það er í föstu eða fljótandi formi. Markmið dagsins er jú að njóta.
Ef marka má alla hipstera heimsins eru matarmarkaðir helsti staðurinn til að borða á í dag. Það er ekki að undra, hvað getur maður beðið um betra í lífinu en að fá gæðamat á góðu verði í sérlega léttri og skemmtilegri stemningu?
Einn hressasti matarmarkaður Kaupmannahafnar er Reffen. Hann er aðeins úr alfaraleið en við höfum hægt og rólega fært okkur nær honum yfir daginn. Frá bátahöfninni er aðeins örstutt strætóferð með 2A, sem gengur á u.þ.b. 10 mínútna fresti.
Á Reffen er alltaf ótrúlega mögnuð stemning, oft lifandi tónlist og ævintýralegt úrval! Þessi markaður er ólíkur Torvehallerne, þar eru fleiri barir og veitingastaðir en engin matvörusala, og stemningin er aðeins hressari og gestirnir aðeins yngri. Þar er fjöldi matarvagna sem bjóða upp á gæðagötumat úr hinum og þessum heimshornum, hver öðrum áhugaverðari og betri. Markaðurinn er við höfnina og útsýnið er glæsilegt. Þetta er fullkominn staður til að setjast niður á og hanga, sérstaklega ef veðrið er gott. Aðeins að taka það rólega eftir annasaman dag.
Ef Reffen veitir ekki næga afslöppun er hægt að taka slökunina skrefinu lengra í Copenhot, sem er rétt hjá. Þar eru heitir útipottar við höfnina með sama glæsilega útsýninu. Hvort sem annað eða hvort tveggja verður fyrir valinu þá er gott að vera úthvíldur fyrir næstu skref, því dagurinn er hvergi nærri búinn.
Frá Reffen liggur leiðin í bæinn. Strætó 2A gengur beint að aðallestarstöðinni, og þangað skal ferðinni heitið.
Heitasta hverfið í Kaupmannahöfn um þessar mundir er Vesterbro, sem liggur fyrir aftan aðallestarstöðina í gagnstæða átt frá Tivoli. Þar má finna næstfrægustu götu Kaupmannahafnar á eftir Strikinu, Istedgade, sem er fræg fyrir konurnar sem þar standa á hornum. Svæðið hefur gengið í gegnum endurnýjun lífdaga síðasta áratug. Þar má enn finna konur á hornum, tattústofur og sóðalega rokkarabari, en þeim hefur fækkað. Í staðinn hafa birst gæðakaffihús, barir sem gera út á úrvalskokteila og handverksbjór (einn frægasti handverksbjórframleiðandi Dana, Mikkeler, er t.d. með bar á svæðinu) og þar er meira að segja að finna eitt heitasta veitingahúsahverfi borgarinnar, Kødbyen.
Það er ótrúlega gaman að rölta um hverfið. Þarna slær saman hinu gamla, hinu nýja, hinu „sóðalega“ og algerlega hipsteralega. Útkoman er skemmtilega fjölbreytt svæði og einn af bestu stöðunum til að fara á pöbbarölt, maður veit aldrei almennilega hvar maður lendir því staðirnir eru svo fjölbreyttir. Og ef hugurinn fer að kalla á meiri mat (því líkaminn er sjálfsagt ekki að því), þá er örstutt yfir í Kødbyen í smá kvöldsnarl.