Ása Steinars starfar við það að ferðast en hún er bæði ljósmyndari og áhrifavaldur. Atvinnulandslag hennar hefur breyst töluvert á stuttum tíma en Ása er ekki af baki dottin. Hún ætlar að nýta tímann til þess að halda áfram að deila fallegum ljósmyndum frá Íslandi og hvetur fólk til þess að búa til gott markaðsefni þegar réttur tími gefst.
„Verkefnin mín eru ansi fjölbreytt og fela í sér að ljósmynda fyrir fyrirtæki, aðstoða við markaðsmál og samfélagsmiðlaherferðir. Mörg verkefni koma í gegnum Instagram en ég er með um 200 þúsund fylgjendur. Þar sem ég ljósmynda aðallega ferðalög þá sjá ferðafyrirtæki sér oft hag að því að ráða mig sem ljósmyndara, fá mig til að búa til efni frá minni upplifun og auglýsa í gegnum minn aðgang. Þar sýni ég oft frá upplifun sem fyrirtæki eða áfangastaðir hafa upp á að bjóða,“ segir Ása um starf sitt.
Hvað gerir ferðaáhrifavaldur þegar mörg lönd hafa lokað landamærum?
„Núna þegar þetta óvissu ástand ríkir í heiminum þá hef ég tekið meðvitaða ákvörðun um að hægja á mér. Auk þess eru færri verkefni í boði. Ég reyni hins vegar að gera það besta úr stöðunni og held áfram að stunda mína ástríðu og einbeiti mér að því að ljósmynda Ísland og sýna frá upplifuninni. Ég hef þó verið passasöm um að halda mér frá fólki og fylgja ráðleggingum frá yfirvöldum“
Ása byrjaði snemma að fylgjast vel með fréttum af veirunni og þurfti meðal annars að breyta ferðalagi sínu til Asíu í janúar.
„Árið 2020 er búið að vera afar annríkt hjá mér. Ég er búin að vera að mynda í Japan, Filippseyjum og á Grænlandi. Það voru mörg verkefni framundan og ég var á leið til Austurríkis á svipuðum tíma og Ísland greindi það sem hááhættusvæði. Þar átti ég að fara að ljósmynda skíðaviðburð og ferðalagið átti að halda áfram til Zermatt í Sviss að ljósmynda og vinna fyrir ferðamálastofnun þar í landi. Ég var mjög spennt að tækla þessi verkefni en ég tók fljótt ákvörðun um að hætta við þessar ferðir og sjá hvað myndi gerast,“ segir Ása sem er nú heima á Íslandi.
„Snemma í janúar þá átti ég bókað flug til Asíu og báðar leiðir í gegnum Kína. Ég var búin að skipuleggja stopp í Peking og Sjanghaí. Tveimur dögum eftir að ég bókaði flugið fann ég litla grein um að einhver skrítin veira væri í gangi þar. Viku fyrir brottför voru fréttir farnar meira á flug og það var ansi ljóst að þar var eitthvað mikið í gangi. Þannig að ég breytti fluginu mínu og hélt áfram mínum plönum um að fara til Japan. Þar dvaldi ég í þrjár vikur, ferðaðist um landið og fór á skíði í Norður-Japan. Þaðan hélt ég til Filippseyja og þá var faraldurinn farinn að aukast. Ég þurfti allan tímann að vera meðvituð og ég var byrjuð að spritta hendur og vera mjög passasöm strax í lok janúar.
Áður en ég kom til Íslands hafði ég verið á ferðalagi um Grænland að ljósmynda landið að vetri til og vinna fyrir Visit Greenland.“
Hefur þú þurft að fara í sóttkví?
„Ég var heppin að losna alveg við sóttkví. Ég er búin að vera á hálfgerðum flótta undan veirunni allt árið, því hún er búin að vera allt í kringum mig alveg síðan ég fór til Japan í janúar. Ég kom heim nokkru áður en Ísland var farið að nota sóttkví og ég hef verið heilsuhraust allan tímann.
Ég lenti reyndar í því óhappi að veikjast af matareitrun um borð í 13 klukkustunda flugi frá Filippseyjum til Istanbúl. Þá var alveg „code red“ og áhöfnin stressuð og hélt að ég væri smituð af Covid19. En síðan hitamældu þau mig og ég var alveg hitalaus og reyndi að útskýra fyrir þeim að ég hefði borðað skemmdan mat á flugvellinum. Það fór sem betur fer á besta veg og þau hleyptu mér í næsta flug sem var á leið til Danmerkur. Þá kom smá stress hjá mér um að ég myndi enda í sóttkví í Tyrklandi. Eftir það atvik ráðfærði ég mig við lækna heima á Íslandi sem sögðu mér að vera alveg róleg og halda mínu striki.“
Hvernig eru næstu mánuðir?
„Það er frekar óljóst hvernig næstu mánuðir verða hjá mér og staðan gæti reynst ansi erfið. Ég vona að ég geti haldið áfram minni ástríðu að ljósmynda landið okkar. Draumastaðan væri að vinna með fyrirtækjum innanlands. Þrátt fyrir að þetta ástand sé ansi óhugnanlegt, þá held ég að fyrirtæki ættu ekki að sitja alveg lömuð. Það eru ýmis tækifæri núna, þá sérstaklega að Ísland er alveg tómt. Þegar versta ástandið gengur yfir gæti skapast tækifæri til að taka upp flott myndbönd af landinu, nýta það að náttúrulaugar eru tómar og enginn fyrir framan Geysi. Fyrirtæki gætu farið í flott ljósmyndaátak, hvort sem að það er ferðafyrirtæki eða tískufatnaður, oft þarf ekki fleiri en einn til tvo til að búa til flott efni. Margt af því sem ég bý til fyrir fyrirtæki geri ég sjálf með þrífæti, þannig svona verkefni þurfa ekki að skapa neina sérstaka áhættu.
Ég held að það sé mikilvægt að við styðjum við hvort annað, veljum íslenskt, verslum við söluaðila sem okkur þykir vænt um. Ég vona að fyrirtæki geri það sama. Velja sér að vinna með íslenskum ljósmyndurum og áhrifavöldum. Staðan í heiminum í dag er erfið en það munu koma bjartari tímar og fólk mun að lokum ferðast á ný.“
Ertu spennt fyrir því að ferðast um Ísland á næstunni?
„Í þessu öllu saman þá er ég afar þakklát fyrir að geta kallað Ísland heimilið mitt. Mér finnst við vera að taka mjög vel á þessum málum. Ég er búin að vera síðustu tíu daga fyrir Norðan í snjónum. Ferðaþjónustuaðilar hafa verið hjálpsamir og leyft mér að gista a tómum gististöðum. Ég er einnig búin að vera í bústað og nýti góða veðurdaga til að skella mér á fjallaskíði. Það er búið að vera dásamlegt og frábær lífsgæði sem við búum við. Ég er samt sem áður búin að vera í hálfgerðri „útivistareinangrun“. Ég hitti nánast enga, nema kærastann. Við hittum aðeins annað fólk þegar við verslum í matinn. Þannig vil ég líka reyna að leggja mitt að mörkum að lágmarka smit, þrátt fyrir að vera á smá ferðalagi. Ég held að við getum öll verið dugleg að nýta þessa flottu náttúru sem við eigum en vera passasöm að umgangast ekki annað fólk og svo auðvitað fylgjast með ráðleggingum frá Víði og teyminu.“
Sérð þú tækifæri í því sem á sér stað núna?
„Staðan er að sjálfsögðu afar viðkvæm en ég sé einnig tækifæri, ef rétt er farið að. Ég sé einna helst tækifæri til að búa til markaðsefni og vera tilbúin með það þegar heimurinn kemst í betra horf. Fyrirtæki geta verið tilbúin með ótrúlega flott efni þegar að rétti tíminn kemur til að markaðssetja. Ferðalög munu til dæmis breytast, fólk mun sækjast meira í víðáttu eins og á Íslandi, frekar en að liggja á troðinni sólarströnd. Auk þess mun þetta fela í sér nýja neysluhegðun hjá fólki og breytt viðmið.
Þannig að núna er tækifærið að gera eitthvað skapandi. Fríhöfnin stendur til dæmis tóm sem og Bláa lóninð. Gætum við nýtt okkur það? Útbúa myndbönd og markaðssetja náttúru Íslands. Ísland var aðeins komið með orðspor á sig fyrir að vera „troðið af túristum“. Núna er hins vegar tækifæri að sýna alla hina staðina sem hafa ekki enn orðið frægir, Vestfirðina og Austfirðina.
Stór hluti af mínu starfi hefur farið í að ljósmynda og auglýsa Ísland og ég hef mest megnist greitt það úr eigin vasa. Ég veit að það eru nokkrir aðrir að gera hið sama hér á landi. Það væri því sterkur leikur ef stjórnvöld styrktu til dæmis þessa aðila, þannig að við getum haldið því áfram. Við erum með smá sérstöðu vegna þess að mest öll Evrópa er í útgöngubanni og er á samfélagsmiðlum á meðan við á Íslandi getum enn farið út að mynda og verið í náttúrunni. Það getur að sjálfsögðu breyst, enda kom fram nýjar fréttir og ráðleggingar daglega. En þetta gæti verið tækifæri til að grípa áhorfendur og viðra þá hugmynd að Ísland sé næsti áfangastaður þegar allt opnar á ný. Þetta eru klárlega tækifæri, en það þarf að vanda til verka, þar sem þetta eru að sjálfsögðu viðkvæmir tímar.“
Ef ástandið batnar í sumar þá mælir Ása meðal annars með því að leigja sér húsbíl og ferðast um Ísland.
„Það stefnir í sumar þar sem verður lítið um utanlandsferðir og mögulega mun skapast tækifæri fyrir okkur að ferðast innanlands, þá mæli ég eindregið með því að leigja sér húsbíl. Það eru ótal húsbílar sem standa nú kyrrir í Reykjavík. Eflaust er hægt að fá þá á góðu verði. Ég mæli síðan með því að keyra um fallega landið okkar og heimsækja staði sem fólk hefur ekki haft tíma í að heimsækja áður. Þar að auki lágmarkar það eflaust smit ef allir eru á húsbílum og það er frábær ferðamáti. Það er svo mikið af fallegum perlum á Vestfjörðum og Austfjörðum. Það er til dæmis um að gera að fara í fjallgöngur, baða sig í náttúrulaugum, skoða fossa og svo framvegis. Það er nóg pláss fyrir alla til að njóta náttúrunnar og einnig hafa stjórnvöld gefið okkur Íslendingum smá styrk til að ferðast innanlands.
Ég gekk nýlega upp að Hengifossi fyrir austan sem er dásamlegur staður. Ég mæli með að horfa á miðnætursólina á Seyðisfirði eða nýta tækifærið og fjárfesta í ævintýri sem þú hefur aldrei upplifað á Íslandi eins og jöklagöngu, snjósleðaferð eða snorkla í Silfru. Allt þetta eru ævintýri sem við Íslendingar ættum að upplifa.“