Keppt í að láta hárið frjósa í náttúrulaug

Keppendur með frosið hár.
Keppendur með frosið hár. skjáskot/Instagram

Það eru ekki bara fallegar náttúrulaugar á Íslandi. Í Kanada má meðal annars finna fallegt landslag og náttúrulaugar. Í náttúrulaugum sem kallast Takhini Hot Springs er staðið fyrir árlegri hárfrystikeppni á meðal gesta heitu lauganna sem eru í Yukon í Kanda. Hinn 1. apríl síðastliðinn voru úrslit keppninnar í vetur kunngjörð.

Keppnin hefur farið fram síðan árið 2011 og í ár voru fimm verðlaun í boði. Besta karlmannshárgreiðslan fékk verðlaun sem og kvenmanns, einnig voru sérstök hópverðlaun, frumlegasta hárgreiðslan var valin sem og hárgreiðsla fólksins. Eins og sjá má á myndum sem birtar voru á vef keppninnar og instagramsíðu hennar voru hárgreiðslurnar margar hverjar mjög skemmtilegar.

Peningaverðlaun voru í boði svo það var til mikils að vinna en ákveðin veðurskilyrði voru fyrir þátttöku í keppninni. Keppendur þurftu að baða sig þegar frostið var mínus 20 eða kaldara. Starfsfólk heitu lauganna tekur svo myndina. 

Nú er bara spurning hvort nógu mikið frost sé á Íslandi á veturna til þess að leika þessar hárgreiðslur eftir í íslenskum náttúrulaugum.







mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert