Páskarnir öðruvísi og ekki bara vegna veirunnar

Bjarni Snæbjörnsson hefur í nógu að snúast um páskana.
Bjarni Snæbjörnsson hefur í nógu að snúast um páskana. ljósmynd/Saga Sig

Bjarni Snæbjörnsson leikari er vanur að nýta páskana til ferðalaga. Páskarnir í ár verða þó með öðru sniði og ekki bara vegna þess að fólk er beðið að vera heima heldur vegna flutninga sem eru á dagskrá. 

„Ég og kærastinn minn erum að festa kaup á okkar fyrstu íbúð þessa dagana og við fáum líklega afhent rétt eftir páska þannig að ætli ég muni ekki standa vaktina við að pakka og henda drasli,“ segir Bjarni um páskana í ár. 

Bjarni er meðal annars vanur að fara til Tálknafjarðar um páskana. 

„Já ég ólst upp á Tálknafirði og við fjölskyldan eigum ennþá sumarhús þar. Okkur finnst gott að komast þangað og páskar eru vinsæll tími þar,“ segir Bjarni sem einnig hefur nýtt fríið um páskana til þess að fara í styttri ferðir. „Ég hef til dæmis farið til San Francisco og Amsterdam í styttri ferðir um páska.“

Hvernig verða þessir páskar öðruvísi vanalega?

„Þeir eru öðruvísi út af ástandinu í samfélaginu. Við erum ekki að fara að hitta mikið af fólki eða ferðast neitt. Það að kaupa sína fyrstu íbúð er líka allt öðruvísi en allir aðrir páskar sem ég hef átt þannig að þetta er bara gleði og spennandi nýtt upphaf.“

Bjarni var að kaupa sína fyrstu íbúð.
Bjarni var að kaupa sína fyrstu íbúð. ljósmynd/Saga Sig
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert