Ætla að sigla yfir til Karíbahafsins

Oddný og Sondre ætla að sigla yfir til Karíbahafs í …
Oddný og Sondre ætla að sigla yfir til Karíbahafs í byrjun næsta árs. Ljósmynd/Aðsend

Oddný Sunna Davíðsdóttir og eiginmaður hennar Sondre Jørgensen keyptu skútuna Freyju fyrir tveimur árum. Þau hafa unnið hörðum höndum að því að gera skútuna upp síðan þá og hyggjast halda í ferðalag á henni nú í apríl. 

Upprunalega planið er að sigla upp með ströndum Noregs, alla leið til Lofoten. Síðar í sumar ætla þau svo að sigla suður til Hjaltlandseyja og koma við á Írlandi og Skotlandi. Þaðan ætla þau að sigla til Spánar, Portúgals og Morokkós og eyða jólunum á Kanaríeyjum. Eftir það ferðalag ætla þau að sigla yfir Atlantshafið yfir til Karíbahafsins. 

Oddný og Sondre keyptu skútuna fyrir tveimur árum.
Oddný og Sondre keyptu skútuna fyrir tveimur árum. Ljósmynd/Aðsend
Oddný hefur unnið heima í skútunni síðustu vikur.
Oddný hefur unnið heima í skútunni síðustu vikur. Ljósmynd/Aðsend

Skútan er nú við höfn í Kaupmannahöfn en Oddný og Sondre hafa búið í skútunni síðan í ágúst í fyrra. Oddný hefur búið í Kaupmannahöfn síðastliðin 10 ár. Hún útskrifaðist frá IT University of Copenhagen árið 2017 með mastersgráðu í stafrænni hönnun og samskiptum. Síðan þá hefur hún unnið sem notendaviðmótshönnuður hjá 3Shape. Síðasti vinnudagurinn hennar var 31. mars en þau láta úr höfn nú í apríl. 

Sondre er verkfræðingur að mennt en hann er ættaður frá Noregi. Síðustu ár hefur hann unnið sem sérfræðingur hjá fyrirtækinu HOFOR. Sondre kynntist sigligum þegar hann var 14 ára gamall og fékk að fara með vini sínum og fjölskyldu hans í þriggja vikna siglingu um vesturhluta Noregs. Þegar hann var tvítugur ferðaðist hann með vini sínum til Karíbahafsins þar sem þeir eyddu þremur mánuðum í að ferðast um Jamaíku. Hann ákvað þá að hann skyldi heimsækja Karíbahafið aftur og hann ætlaði sér að sigla þangað. 

Kötturinn Flóki verður með í för.
Kötturinn Flóki verður með í för. Ljósmynd/Aðsend
Sondre fékk áhuga á siglingum á unglingsárum sínum.
Sondre fékk áhuga á siglingum á unglingsárum sínum. Ljósmynd/Aðsend

Oddný segir að stuttu eftir að þau Sondre kynntust hafi þau verið farin að tala um að kaupa sér skútu. „Ég hef alltaf ferðast mikið og mig hefur lengi dreymt um að taka mér frí í lengri tíma og ferðast um heiminn. Þegar Sondre sagði mér frá sínum draumi að sigla til Karíbahafsins tók það mig ekki langan tíma að segja að ég væri sko til í það,“ segir Oddný. 

Áður en hún kynntist Sondre og þau keyptu skútuna Freyju hafði hún enga reynslu af siglingum. „Það eru nokkrir sjómenn í minni fjölskyldu svo ég hef verið úti á sjó og alltaf þótt rosalega gaman, en aldrei á skútu. Mín fyrsta alvöruupplifun var þegar við keyptum og sigldum Freyju heim frá Árósum í apríl 2018. Sondre fór á siglinganámskeið og fékk svokallað „sejlerbevis/navigationsbevis“ og svo hefur hann bara prófað sig áfram,“ segir Oddný og bætir við að Sondre hafi verið hennar helsti siglingarkennari ásamt YouTube. 

„Fjölskyldum okkar fannst við auðvitað vera frekar klikkuð og trúðu lítið á í byrjun að draumur okkar yrði að veruleika. Þetta hefur verið rosalega mikil vinna og tímafrekt að setja skútuna í stand  fyrir svona langferðalag,“ segir Oddný. 

Skútan Freyja.
Skútan Freyja. Ljósmynd/Aðsend
Jólunum ætla þau að verja á Kanarí.
Jólunum ætla þau að verja á Kanarí. Ljósmynd/Aðsend

Þau hafa unnið í henni í tvö ár og segir Oddný að verkefnin hafi skipt þúsundum. „Við höfum einangrað bátinn upp á nýtt, fjarlægt eitt bað og byggt út svefnherbergi við stafninn. Við höfum skipt um allar rafmagnsleiðslur, sett nýjan mótor og sett um vindmyllu,“ segir Oddný. Þau hafa gert mestallt sjálf og lært hvernig þau eigi að gera hlutina á YouTube en einnig fengið leiðsögn frá öðrum sjóurum. 

Flóki.
Flóki. Ljósmynd/Aðsend

Oddný og Sondre búa ekki bara tvö í skútunni en þau eiga köttinn Flóka og hyggjast taka hann með sér í ferðalagið.

„Eftir jól, í janúar 2021, stefnum við á að sigla yfir Atlantshafið til Karíbahafsins. Út af COVID-19 og aðstæðum erum við ekki 100% viss um að plönin okkar haldist. Við vonum að þetta verði hægt en erum auðvitað tilbúin til þess að breyta plönum ef þess þarf,“ segir Oddný.

Hægt er að fylgjast með þeim hjónum á Instagram. 



mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka