Hendrikka Waage skargripahönnuður er búsett í Bretlandi. Hún hefur hannað skartgripi í fjöldamörg ár og selt út um allan heim. Undanfarin tvö ár hefur hún verið að mála áhugaverðar myndir, Wonderful Beings, sér til ánægju. Hún segir einangrunina skerpa einbeitingu en hlakkar til að geta ferðast á ný.
Hendrikka segir að þegar hún horfi til baka, á farin ferðalög, finnist sér menningin á ólíkum stöðum og fólkið skipta mestu máli.
„Eins huga ég mikið að litlu hlutunum. Hvernig kaffibollinn er borinn fram. Hver sagan á bak við tyrkneska kaffið sem þú fékkst þér er, af hverju það er svona sterkt og þar fram eftir götunum. Þetta allt finnst mér einstaklega áhugavert.“
Japönsk menning og saga heillandi
Hendrikka hefur sjálf búið í nokkrum löndum. Þar með talið Rússlandi, Bandaríkjunum, Japan og Englandi. Þegar hún lítur til baka er hún á því að Japan sé landið sem hafi haft hvað mest áhrif á sig til þessa.
„Á mínum yngri árum bjó ég í Tókýó og var svo lánsöm að geta ferðast vítt og breitt um landið. Til sem dæmi Osaka, Kamakura og Kyoto.
Japönsk menning hefur alltaf haft mikil áhrif á mig. Þá helst sagan þeirra, einfaldleikinn í japanskri listsköpun, matargerðin, Fuji-fjall, fallegu zen-garðarnir svo ekki sé minnst á ilminn af kirsuberjatrjánum. Ég er einnig mjög hrifin af samúræjasverðum. Á vissan hátt hefur japönsk menning lætt sér inn í hugskot mitt og lífsstarf á margan hátt. Ég hef eflaust verið samúræjatöffari í einhverju af mínum fyrri lífum.“
Hendrikka er mikið fyrir mikil gæði og notar Tumi-ferðatösku þegar hún ferðast á milli landa.
„Það fer alveg eftir því hvert ég er að fara hvernig ég pakka. Ef ég er að fara í ferð yfir langa helgi tek ég með mér nokkra kjóla, íþróttaföt, skó og snyrtidót. Ég pakka þessu í góðu sterku Tumi-helgartöskuna mína.“
Hverfur inn í annan heim þegar hún er að skapa
Hendrikka er á því að mestu skipti þessa dagana að hafa innri frið og huga og hlúa að heilsunni.
„Eins skiptir mig miklu máli að vera í góðu sambandi við fjölskyldu og vini. Að hanna skartgripi, mála og skapa eitthvað nýtt hefur alltaf verið ástríðan mín.
Sköpun færur mér svo mikla hamingju. Ég hverf inn í einhvern annan heim og það er eins og eitthvað sem flæðir og gefur mér svo mikla orku og ánægju. Mér finnst mikilvægt að fylgjast með og læra eitthvað nýtt.“
Hendrikka segir að á tímum þegar bannað er að ferðast verði minningarnar um frábær ferðalög svo dýrmætar.
„Ég verð samt að viðurkenna að þótt ég hafi ferðast mikið í gegnum tíðina hef ég aldrei verið mikið fyrir flugvélar. Og þótt ég sé lítið fyrir vín fæ ég mér alltaf nokkra Jägermeistera áður en ég legg í hann. Eins er ég aldrei of sein út á flugvöll.“
Þegar ferðabanninu verður aflétt ætlar Hendrikka að fara í spennandi ferðalag.
„Ég hef veirð að plana að fara til Beirút í Líbanon með vinum mínum og fjölskyldu þannig að ég reikna með að það verði næsti áfangastaður. Ég hlakka mikið til þess.“