Hlakkar til að fara aftur til Ítalíu

Andrés og eiginkona hans Ása Laufey á Ítalíu í bænum …
Andrés og eiginkona hans Ása Laufey á Ítalíu í bænum Radda í Chianti héraðinu Ljósmynd/Aðsend

Andrés Jónsson, ráðgjafa í almannatengslum, langar til að ferðast til Ítalíu þegar heimsfaraldurinn er yfirstaðinn. Hann og eiginkona hans hafa ferðast til landsins oft á síðustu árum og segir Andrés að sér líði eins og það sé skylda sín að styðja við bakið á Ítölum eftir að veiran lék þá grátt. 

Auk þess að vera ráðgjafi í almannatengslum er Andrés ræðismaður Indónesíu á Íslandi. Andrés mælir með að sé fólk statt í Indónesíu smakki það sate kambing, sem er grillað lambakjöt á teini með hnetusósu og fæst í veitingavögnum víða um landið.

Til hvaða landa hefur þú komið?
Ég hef komið til allflestra nágrannalanda okkar en það er spurning hvort það verði jafn auðvelt fyrir okkur að ferðast eftir kórónuveiruna og það var fyrir hana. Í Evrópu hef ég komið til Færeyja, Noregs, Svíþjóðar, Finnlands, Danmörku, Eistlands, Lettlands, Litháens, Rússlands, Englands, Wales, Skotlands, N-Írlands, Þýskalands, Frakklands, Sviss, Austurríkis, Ungverjalands, Ítalíu, Slóveníu, Króatíu, Kósovó, Serbíu, Bosníu-Hersegóvínu, Svartfjallalands, Spánar, Mónakó, Grikklands, Tyrklands, Hollands og Belgíu.

Í Mið-Austurlöndum hef ég komið til Jórdaníu og Sameinuðu arabísku furstadæmana.

Í Asíu hef ég komið til Taílands, Singapúr og Indónesíu nokkrum sinnum og einu sinni til Japans.

Svo hef ég komið á nokkra ólíka staði í Bandaríkjunum.

Ég á Suður-Ameríku, Afríku og Eyjaálfu ennþá alveg eftir. Svo dreymir mig um að heimsækja ákveðnar eyjar í Kyrrahafinu en ég er ekki viss um að sá draumur verði uppfylltur. Sem er allt í lagi. Suma staði er hægt að heimsækja bara í huganum.

Hvernig ferðalögum ert þú hrifinn af?
Ég hef alltaf verið hrifinn af því að ferðast utan alfaraleiðar, þar sem maður fær tækifæri til að hitta alls kyns fólk og kynnast því hvaða augum heimamenn líta tilveruna. Hins vegar er heimurinn í dag orðinn ein alfaraleið þannig að það er ögn erfiðara en það var kannski áður. Svo verður að viðurkennast að þægindi spila meiri rullu á ferðalögum hjá mér nú en þau gerðu á mínum yngri árum. Ég myndi líklega ekki nenna því núna að skoppa eftir holóttum fjallvegum Jövu í gamalli rútu með enga loftkælingu, jafnvel þótt leiðin lægi á löngu gleymda og vel falda strönd.

Hjónin stefna á að fara aftur til Ítalíu.
Hjónin stefna á að fara aftur til Ítalíu. Ljósmynd/Aðsend

Átt þú þér einhverja uppáhaldsborg?
Já, ég myndi segja að Moskva væri mín uppáhaldsborg, þótt ég hafi bara komið þangað einu sinni og það hafi verið fyrir ansi mörgum árum. Hún er vissulega erfið borg, en býr um leið yfir svo mikilli sögu og er eitthvað svo kynngimögnuð. Manni finnst eins og maður fái beina snertingu við hinar miklu þrautir og þrár rússnesku þjóðarinnar í gegnum aldirnar þegar maður skoðar sögufræg hús og staði í borginni og spjallar við fólkið sem maður hittir. Rússar eru gríðarlega gestrisin og stolt þjóð. Það var gaman að kynnast þeim og ég er alltaf á leiðinni þangað aftur.

Hvert er eftirminnilegasta ferðalagið sem þú hefur farið í?
Líklega vikulangt ferðalag sem ég fór í um Japan fyrir nokkrum árum. Það var svo gjörólíkt okkar menningu en um leið ólíkt því sem ég hafði búist við fyrirfram. Miklar andstæður. Framsækin þjóð á svo mörgum sviðum en aftarlega á merinni á öðrum. Menningin er alltumlykjandi en það er samt erfitt að reyna að lýsa Japan. Þetta er ólýsanleg upplifun að koma þangað. Ef fólk hefur tækifæri til að ferðast þangað þá myndi ég stökkva á það en þetta er langt að fara og það er flest dýrt í Japan, gisting, lestir og fleira.

Andrés tók við sem ræðismaður Indónesíu á Íslandi í fyrra.
Andrés tók við sem ræðismaður Indónesíu á Íslandi í fyrra. Ljósmynd/Aðsend
Ljósmynd/Aðsend

 

Áttu þér einhvern eftirlætismat sem þú hefur fengið á ferðalögum?
Já. Ég myndi tvímælalaust nefna sate kambing (steikt lambakjöt á teini með hnetusósu), sem útbúið er af götuveitingamönnum á litlum matarvögnum sem þeir ýta eða draga um götur borga í Indónesíu. Þessi götumatarmenning er reyndar á undanhaldi með auknum hreinlætiskröfum og bættum kaupmætti almennings í Indónesíu sem núna fer frekar í stórar loftkældar verslunarmiðstöðvar í leit að næstu máltíð.

Hvaða stað í heiminum mælir þú með að fólk heimsæki?
Sko, ég mæli með Taílandi ef fólk er að leita eftir að komast í sól og fagurt umhverfi. Taíland er líklega eitt albesta ferðamannaland í heimi. Vegna dökku hliðanna þá komst slæmt orð á landið hjá Íslendingum hér áður fyrr. Sem er synd því það er vel hægt að sneiða hjá þeim. Ég hef ferðast þangað nokkrum sinnum á síðustu árum, bæði með konunni minni eftir að við kynntumst og þar áður með fjölskylduvinum sem voru með lítil börn og það var í öllum tilfellum yndislegt. Landið er mjög öruggt, samgöngur eru góðar, fólkið heiðarlegt og vingjarnlegt og náttúran ægifögur. Síðan er verðlagið mjög hagfellt okkur sem komum frá norðanverðri Evrópu. Ég reyni yfirleitt að velja gististaði sem eru aðeins utan við vinsælustu túristastaðina en það verður enginn svikinn af því að heimsækja Taíland.
 

Hvert langar þig að ferðast þegar heimsfaraldurinn er yfirstaðinn?

Ítalíu. Ég og konan mín höfum ferðast á ólíka staði á Ítalíu á síðustu árum og erum gersamlega ástfangin af bæði landinu og fólkinu sem býr þar. Um leið og faraldurinn er genginn yfir býst ég við að við förum að plana Ítalíuferð. Manni líður eiginlega eins og það sé skylda okkar að fara og styðja við og kanna hvernig fólk hafi það á Ítalíu eftir þessar hörmungar.

Ljósmynd/Aðsend
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert