Sturla Snær Snorrason er 26 ára gamall atvinnumaður á skíðum. Hann lýsir sjálfum sér á víðáttufara og unir sér best á köldum stöðum uppi í fjöllum. Hann hefur verið heima á Íslandi síðan í mars og gerir gott úr erfiðri stöðu afreksmanns á skíðum.
„Ég kom heim 16. mars, degi áður að allt lokaði í Þýskakandi. Þannig ég er búinn að vera heima núna í mánuð. Ég fór ekki meira út einfaldlega vegna þess að það er búið að loka flest öllum löndum í heiminum,“ segir Sturla Snær um ákvörðun sína um að koma heim.
„Ég var nýkominn frá Suður-Kóreu, þar sem ég var að keppa í Asíubikarnum þegar faraldurinn fór að dreifa verulega úr sér í Evrópu. Ég var búinn að skippuleggja aðra ferð til Japans þar sem ég ætlaði einnig að keppa í Asíubikarnum. Einum degi fyrir brottför til Japans var allt sett í lás, samkomubann komið á í Japan og ferðinni aflýst.“
Sturla Snær hélt áfram að undirbúa sig fyrir næstu mót en einn daginn þegar hann var að æfa með Þjóðverjum gaf þýska skíðasambandið út að enginn mætti æfa lengur og fóru skíðasvæðin að loka í kjölfarið. „Þá fór maður bara að drífa sig heim.“
Hvað gerir skíðakappi þegar skíðasvæðum er lokað?
„Á skrýtnum tímum finnur maður sér ýmsar leiðir til að halda forminu við. Ég hef til dæmis verið að fara á fjallaskíði og gert heimaæfingar í samráði við þjálfarana mína.“
Áttu þér uppáhalds skíðasvæði erlendis?
„Já ég á mér nokkur uppáhalds skíðasvæði. Fyrir æfingar er Watles í Suður-Týrol virkilega góður staður til æfinga en í frískíðun hef ég reglulega gaman af til dæmis Madonna,“ segir Sturla Snær og tekur fram þó fram að hjartað slái í Bláfjöllum.
Veturinn með öllum sínum snjó er tími skíðakappans og ferðast Sturla Snær oftast á köld svæði. Á sumrin starfar hann sem götumálari og reynir að ferðast innanlands.
„Á sumrin reyni ég að ferðast um landið og fer í einhverjar fjallgöngur samhliða vinnunni minni sem fer fram úti á götum Íslands,“ segir Sturla Snær.
„Þá sjaldan sem ég ferðast ekki á kalda staði þá hef ég nánast einungis farið til Spánar og þykir það voðalega ljúft.“