Heimferðin frá Kanarí kostar um 850 þúsund

Hjónin Gunnar og Helga fluttu með fjóra syni sína til …
Hjónin Gunnar og Helga fluttu með fjóra syni sína til Kanarí í fyrra. Ljósmynd/Aðsend

Gunnar Jarl Jónson flutti tímabundið til Kanaríeyja síðasta sumar ásamt eiginkonu sinni og fjórum af fimm sonum þeirra. Elsti sonurinn er kominn í háskóla á Íslandi en yngri synirnir fjórir sem eru á aldrinum þriggja til fimm ára þurftu að aðlagast spænsku lífi. Ævintýrið sem átti að vara í eitt ár tók skjótan enda þegar útgöngubann skall á á Spáni og nú er fjölskyldan á leiðinni heim. Fjölskyldan keypti dýrt flug og fær aðstöðu hjá fjölskyldu sinni þar sem íbúðin þeirra er í útleigu. 

Gunnar segir Helgu eiginkonu sína hafa fengið hugmyndina að prófa að skipta um umhverfi.

„Hún kom með þessa hugmynd fyrir nokkrum árum síðan að prófa að flytja erlendis. Við tókum bara ákvörðun að fara í lok sumars 2019. Við vildum gott loftslag og spænskt umhverfi og eftir að hafa skoðað ýmislegt fannst okkur Las Palmas vera staðurinn fyrir okkur. Mjög spænskt umhverfi og lítið um ferðamenn. Það hefur verið æðislegt að vera hérna. Við fengum góð ráð frá góðu fólki.“

Elsti sonurinn heimsótti Gunnar og Helgu um jólin ásamt kærustu …
Elsti sonurinn heimsótti Gunnar og Helgu um jólin ásamt kærustu sinni en hann stundar háskólanám á Íslandi. Ljósmynd/Aðsend

Gunnar segir að lífið á Kanarí hafi verið gott áður en að kórónuveirufaraldurinn skall á. Það var alls ekki svo að lífið hafi ekki verið krefjandi en það getur verið flókið að flytja í nýtt land með framandi tungumáli.

„Dvölin gekk mjög vel. En það voru hindranir og krefjandi tímar líka. Ekki bara eins og í vel skrifaðri amerískri bíómynd. Það eru góðir tímar og svo koma tímar þar sem hlutirnir ganga ekki vel. Heimþrá hjá strákunum, tungumálaörðugleikar, erfitt að eignast vini og allt þetta á fyrstu mánuðunum þegar allir eru að koma sér inn í hlutina í skólunum. En við erum afskaplega ánægð með þennan tíma hér úti. Við eignuðumst afskaplega góða vini hér sem við munum sakna en þeir munu heimsækja okkur til Íslands ásamt því að við munum koma reglulega hingað í framtíðinni. Las Palmas er æðisleg borg.“

Fjölskyldan hefur verið í útgöngubanni í yfir 36 daga. Þegar blaðamaður spyr hvernig það gangi að vera með fjóra stráka á aldrinum þriggja til 15 ára inni segir Gunnar Jarl það ganga betur en hann þorði að vona. 

„Það er komin mikil rútína. Við útskýrðum fyrir tveimur yngstu að það væri bannað að fara út og þeir hafa ekki einu sinni beðið um það. Ótrúleg breyting frá því að vera úti í sex til sjö tíma á dag á sífelldri hreyfingu og vera fastur inni í 36 daga. Eldri strákarnir hafa haldið góðri rútínu og hreyft sig mjög vel. Við erum með tvennar svalir sem hefur gert mikið fyrir okkur, annars ekkert útisvæði. Í raun er magnað að hafa upplifað slíka einangrun þegar maður hugsar út í það. Ég tel að þetta hafi styrkt elstu tvo drengina mjög mikið andlega, því þetta er mikið álag að vera kippt úr daglegu lífi á einu augnabliki og mega ekkert fara út.“

Helga fékk þá hugmynd að prófa að búa erlendis tímabubundið.
Helga fékk þá hugmynd að prófa að búa erlendis tímabubundið. Ljósmynd/Aðsend

Þið eruð enn úti, af hverju ákváðu þið ekki að taka bara fyrsta flug heim?

„Í raun eru margar ástæður fyrir því. Yngsti strákurinn var eitthvað lasinn á þessum tímapunkti og sömuleiðis var ég búinn að vera í umhverfi með fjölmörgum ítölskum nemendum í spænskuskólanum. Við ákváðum að öruggast væri að bíða storminn af sér hér. Við erum einnig með húsaleigu hér úti út sumarið ásamt því að húsið okkar heima er í útleigu og því ekki auðvelt að fara með sex manna fjölskyldu í þessu ástandi í mars með stuttum fyrirvara,“ segir Gunnar.

Fjölskyldan ákvað þó nýlega að drífa sig heim. Fjölskyldan flýgur í gegnum Stokkhólm og þarf að gista í tvær nætur þar áður en flogið er heim til Íslands.

„Við ákváðum bara að fljúga núna í vikunni í gegnum Stokkhólm. Lettnesk ferðaskrifstofa flýgur til Stokkhólms og svo tökum við flug með Icelandair. Ég hefði verið til í að sjá Icelandair vera með lægra fargjald en heildarkostnaður við ferðina er um 850.000 með flugi og gistingu í 2 nætur.“

Eftir ferðalagið í gegnum Svíþjóð kemur fjölskyldan heim á laugardaginn. Hún fer beint í tveggja vikna sóttkví. Fjölskyldan fær að vera í tvær vikur í íbúð foreldra Gunnars á meðan foreldrar hans fara upp í bústað. „Við höfum einnig aðgang að íbúð bróður míns þannig að við höfum gott fólk í kringum okkur, foreldra og systkini sem eru boðin og búin til að aðstoða okkur.“

Yngstu strákarnir hafa verið duglegir að vera inni. Þeir fara …
Yngstu strákarnir hafa verið duglegir að vera inni. Þeir fara í leikskóla á Íslandi í haust. Ljósmynd/Aðsend

Eftir tveggja vikna sóttkví lýkur á Íslandi tekur nokkurn veginn hefðbundið líf við ef eitthvað er hefðbundið þessa dagana. Fjölskyldan fær húsið sitt aftur í lok maí og yngri strákarnir komast á leikskóla í haust. 

„Helga er í námsleyfi út sumarið og lýkur því en ég er í ársleyfi frá kennslu og þjálfun en mun eflaust eftir sóttkví skoða að vinna aðeins til að drýgja tekjurnar. Yngstu drengirnir þriggja og fimm ára komast ekki í leikskólann sinn gamla núna þannig að þeir byrja bara í haust aftur. Eldri ættu að fá inn í sína gömlu skóla síðasta mánuðinn sem eftir er af skólaárinu.“

Þrátt fyrir að ævintýrið hafi ekki endað eins og vonast var til sér Gunnar ekki eftir ævintýrinu. 

Myndir þú mæla með því fyrir fjölskyldur að skipta um umhverfi eins og þið gerðuð? 

„Hiklaust. Við þökkum Helgu fyrir að við skelltum okkur. Höfum upplifað allt annað umhverfi, menningu og tungumál. Strákunum hefur gengið ágætlega að læra spænskuna og hafa núna afskaplega góðan grunn til framtíðar. Þeir þurftu að byrja í skóla og á fótboltaæfingum með engan þekkingu á spænsku þannig að þetta var djúpa laugin í allri sinni dýrð. Þetta tók tíma fyrir þá en um leið þroskandi og krefjandi fyrir þá. Þetta er ekki eins og í sögu, það gengur ekki alltaf allt fullkomlega upp en þannig er lífið einfaldlega. Einn risastór lærdómur sem við fengum út úr þessari dvöl þó það hefði verið skemmtilegra að ljúka henni með öðrum hætti.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert