Perlur fjalllendis Perú

Týnda borgin Machu Picchu er án efa frægasta kennileiti Perú
Týnda borgin Machu Picchu er án efa frægasta kennileiti Perú Mynd: Sóley Björk Guðmundsdóttir

Fljótandi eyjar í byggð og týnda borgin Machu Picchu eru bara tvær af fjölmörgum perlum sem finnast í fjalllendi Perú. Sierra, eins og svæðið er kallað ef heimamönnum, er gífurlega fjölbreytt, enda spannar það neðstu hlíðar Andesfjallanna og upp í tæpa 7000 metra hæð. Þar ráða kondórar ríkjum, coca te (bruggað úr sömu plöntu og kókaín er unnið úr) er helsti drykkurinn og þar er gnótt fornleifa, enda var svæðið höfuðvígi Inkaveldisins. 

Hvort sem leiðangurinn um Andesfjöllin verður að veruleika síðarmeir eða bara í huganum heima í stofu er aukaatriði. Báðir eru ævintýralegir, þó mistímafrekir.

Fastar og fljótandi eyjur Titicaca-vatns

Titicaca-vatnið er á landamærum Perú og Bólivíu. Eyjarnar fljótandi eru …
Titicaca-vatnið er á landamærum Perú og Bólivíu. Eyjarnar fljótandi eru flestar við akkeri nærri bænum Puno, Perúmegin við vatnið. Mynd: Sóley Björk Guðmundsdóttir

Á stærsta vatni Suður-Ameríku fljóta yfir hundrað eyjar og hólmar sem hýsa megnið af Uru ættbálknum. Eyjarnar eru byggðar úr sérstökum hálmi og rótum eftir aldagamalli aðferð. Sami ljósguli hálmur er líka notaður sem byggingarefni fyrir hús og báta, sem ljáir eyjunum sérstakan mónótónískan blæ. 

Talið er að Uru fólkið hafi upphaflega sest að á eyjunum fljótandi til að verjast nágrannaættbálkum og síðar Inkunum. Þrátt fyrir að engin hætta stafi af meginlandinu lengur hefur ættbálkurinn haldið í gamlar hefðir og híbýli og aðeins tekið upp einstaka nútímaþægindi (sumar eyjanna eru með pósthús, aðrar með litlar sólarsellur). 

Fólkið sem býr á botnföstu eyjunum virðist hafa svipað viðhorf til nútímaþæginda og lifir m.a. án rafmagns en menningin og andinn þar er samt mjög ólíkur því sem finnst á eyjunum fljótandi, þar er ekki einu sinni talað sama tungumálið. Eyjarnar standa hátt upp úr vatninu og landslagið er sérstaklega fallegt, þar eru auðveldar gönguleiðir umkringdar kínóaökrum og einstöku rústum, með útsýni yfir vatnið og fjöllin í fjarska.

Það er þess virði að gefa sér tíma á vatninu og heimsækja bæði botnfastar og fljótandi eyjarnar. Það er hægt að fara í dagsferð frá bænum Puno og ná stuttum heimsóknum til beggja eyja en það er enn betra að gefa sér meiri tíma. Það eru engin hótel eyjunum en nokkrar fjölskyldur bjóða upp á heimagistingu og eini maturinn sem er í boði er ræktaður eða veiddur á svæðinu. Það er eitthvað við andrúmsloftið sem gerir heimsóknina ótrúlega afslappandi og rólega en um leið magnaða upplifun. Það er hins vegar lykilatriði að hafa lopapeysu eða álíka hlýjan fatnað meðferðis, Titicaca-vatnið er í 3800m hæð yfir sjávarmáli og þar verður kalt!

Machu Picchu

Yfirvöld hafa sett á fjöldatakmarkanir að Machu Picchu til að …
Yfirvöld hafa sett á fjöldatakmarkanir að Machu Picchu til að stuðla að varðveislu borgarinnar, því verður að bóka heimsókn með nokkra mánaða fyrirvara Mynd: Sóley Björk Guðmundsdóttir

Machu Picchu, týnda borgin, er talin eitt af undrum veraldar og er eitt frægasta kennileiti Perú. Hún var byggð af Inkunum og yfirgefin fljótlega eftir að Spánverjar komu til landsins, en talið er að hún hafi verið athvarf heldra fólks frá Cusco sem þá var höfuðborg Inkanna. Það er ákveðin upplifun að koma til Machu Picchu, heimafólk lýsir því sem svo að þar liggi einhverskonar yfirnáttúruleg mara yfir. Undirrituð fann ekki fyrir því, en var eigi að síður heilluð af stórbrotnu landslaginu og tignarlegum byggingunum. 

Borgin er staðsett á ævintýralega bröttum fjallstindi sem er þakinn lágvöxnum skógi, umkringdur fjöllum sem eru alveg jafn tilkomumikil. Útsýnið úr borginni er ótrúlegt, að horfa niður í þrönga dali umkringda þverhníptum fjöllum.

Machu Picchu er einstaklega vel varðveitt, þar standa enn fast veggir húsanna sem voru yfirgefin fyrir rúmum 500 árum síðan, þrátt fyrir að skógurinn hafi yfirtekið borgina í millitíðinni. Þar má finna gömul hof, fórnaraltari og byggingar í þeim sérstaka byggingarstíl sem Inkarnir eru  þekktir fyrir.

Það eru fleiri en ein leið að Machu Picchu og sú umtalaðasta er líklega gangan. Það eru nokkrar gönguleiðir í boði á mismunandi erfiðleikastigum sem taka mislangan tíma og útsýnið er misjafnt, svo flestir ættu að finna sér eitthvað sér við hæfi. Fyrir þá sem eru ekki jafn hreyfingalega sinnaðir er hægt að taka lest (þá einu í landinu). Hún fer frá Cusco, kemur við í Ollantaytambo og endar í Aguas Calientes, sem er lítill bær í dalnum fyrir neðan Machu Picchu. Þaðan ganga skutlur upp á borginni. Það er líka hægt að skoða Machu Picchu í dagsferð frá Cusco en það er þá vægast sagt langur og viðburðaríkur dagur og minni tími til að njóta þess sem á vegi verður.

Fyrrum höfuðborg Inkanna

Tólf horna steinninn er ekki það fallegasta sem finna má …
Tólf horna steinninn er ekki það fallegasta sem finna má í Cusco, en hann er forvitnilegur og dregur að sér fjölda ferðamanna á hverjum degi. Mynd: Unukorno/Wikimedia Commons

Cusco er fyrrum höfuðborg Inkanna, staðsett í 3.400m hæð í Andesfjöllunum. Orðspor hennar byggist fyrst og fremst á augljósri tengingu borgarinnar við hina týndu siðmenningu, en er einnig þekkt fyrir gott fótboltalið og bjórframleiðslu. Víða í borginni ægir saman hinu forna og nýja. Spánverjar nýttu sér byggingar sem fyrir voru í borginni svo grunnur margra bygginga miðbæjarins er frá Inkatímanum og efri hlutinn er frá tímum Spánverja og talsvert nýrri, ef 500 ára gamlir veggir geta kallast nýir. Hleðslustílar þessara tveggja menninga eru gjörólíkir og munurinn greinilegur, ef inkahluti veggjanna væri ekki undir væri auðvelt að ruglast og halda að hann hafi verið hlaðinn í fyrra. 

Í Cusco má finna fjöldann allan af söfnum. Þar er gnægð fornleifa frá tímum Inkanna svo það er auðvelt að drekkja sér í sögu þeirra. Hvort sem það er á Inkasafninu, í sólarhofinu sem er í dag grunnur að kaþólskri kirkju, við 12 horna steininn, eða í rústum Sacsayhuamán, virki og lítil borgareining sem var vígvöllur skæðrar baráttu milli Spánverja og Inka. Ef áhuginn liggur annarsstaðar er til safn um coca plöntuna (úr henni bæði bruggað vímuefnalaust te sem er líklega einn algengasti drykkur í Perú, og þykir afskaplega gott við háfjalllaveiki, og hún er uppistaðan í kókaínframleiðslu), svo ekki sé talað um forn- og nýlistasöfnin, markaði á borð við San Pedro, eða bara næturlífið sem er sérstaklega öflugt í þessari vinsælu ferðamannaborg.

Frá Cusco er hægt að fara í dagsferðir eða stuttar ferðir og sjá nokkra af vinsælustu áfangastöðum Perú. Þar má nefna Regnbogafjöllin, Madre de Dios hluta Amazon skógarins, Ollantaytambo í helga dalnum, og eitt helsta aðdráttarafl landsins, týndu borgina Machu Picchu.

Hvíta borgin

Það er bjart yfir Arequipa, þar eru að jafnaði 300 …
Það er bjart yfir Arequipa, þar eru að jafnaði 300 sólardagar á ári hverju. Mynd: Joel Takv/Wikimedia Commons

Þetta kann að hljóma eins og tilvísun í Hringadróttinssögu en ástæða þessa viðurnefnis annarrar stærstu borgar Perú, Arequipa, er hvíta hraunið sem er aðalbygginarefni miðbæjarins. Miðbærinn er því einstaklega bjartur og fallegur, næstum því of bjartur því þar dregur ekki ský fyrir sólu megnið af árinu.

Borgin er aðallega þekkt fyrir glæsilegar hvítar kirkjur, klaustur og nágrenni við glæsilegar gönguleiðir. Colca gilið er einn vinsælasti áfangastaður svæðisins, í stuttri akstursfjarlægð frá borginni, þar svífa kondórar um í uppstreyminu á sínum gífurlegu vængjum. Þar eru nokkrar gönguleiðir í boði um gilið en líka útsýnispallar sem gefa góða sýn á fuglana án fyrirhafnar. Önnur vinsæl gönguleið er upp á eldfjallið Misti sem teygir sig upp í 5800 metra hæð. Hækkunin er ekki ógnvænlega mikil frá borginni, Arequipa er sjálf í um 2300 metra hæð. Útsýnið þaðan, sem og af aðgengilegum nágrannafjöllunum sem eru enn hærri, er yfir eyðimörk hásléttunnar, stórbrotin fjöll og stöku árfarvegi umkringda þrjóskum trjágróðri.

Auk gönguleiða hefur Arequipa margt að geyma. Þar er sérstaklega áhugavert fornleifasafn þar sem aðal aðdráttaraflið er Juanita, hálfgerð múmía ungrar stúlku sem var fórnað til fjallanna á á 15. öld og hefur varðveist ótrúlega vel vegna kulda og þurrs loftlags. Þaðan er hægt að fara í ferðir og kynna sér sillar, hvíta hraunið sem borgin er byggð úr. Svo er það menningarlífið, borgin er lífleg án þess að vera lituð af ferðamannastraumi eins og margir staðir í landinu. Það þýðir líka að ætlast sé til þess að allir sem sækja næturklúbba kunni grunndansspor, hvaðan sem þeir koma. 

Snæviþaktir tindar hitabeltisins 

Mynd: Diego Baravelli/Wikimedia Commons

Huascaran þjóðgarðurinn er staðsettur hátt upp í Andesfjöllunum. Þar rís fjöldi fjallatinda og jökla (einn af fáum stöðum sem þeir finnst í hitabeltinu) yfir fleiri hundrað jökulvötnum og -ám. Svæðið býður upp á ýmiskonar vetraríþróttir, fjölbreyttar og stórfenglegar gönguleiðir um landslag og náttúru sem er nægilega fjölbreytt og falleg til að koma svæðinu á heimsminjaskrá UNESCO.

Fjallið Huascaran sem garðurinn er nefndur eftir stendur upp úr, bæði bókstaflega og ekki. Það er hæsta fjall Perú og það fjórða hæsta í álfunni. Það er líka einstaklega tilkomumikið þar sem það gnæfir hátt og bratt yfir litla smábænum Yungay. Svæðið ber greinileg merki kraftsins sem býr í náttúrunni. Árið 1970 féll stór aurskriða úr hæsta hluta Huascaran sem kæfði Yungay ásamt fleiri bæjum og drap yfir 20.000 manns. Það eina sem slapp var kirkjugarður og Kristsstytta sem stóðu á hæð við bæinn. Garðurinn stendur enn, og þjónar nú nýja Yungay, bæ sem var endurbyggður stuttu frá skriðunni. Yungay er hægt að hafa sem bækistöð fyrir ferðir inn um þjóðgarðinn, en hann er lítill og rólegur og því er vinsælla að hafast við í Huaraz, sem er talsvert stærri. En engin heimsókn til svæðisins er fullkomin án þess að fara upp að Laguna Paron, safírbláu vatni sem liggur við rætur Huascaran og er umkringt háum þverhníptum fjöllum.

Grafhýsi eða gluggar?

Ventanillas de Otuzco virðast í fljótu bragði vera híbýli fólks, …
Ventanillas de Otuzco virðast í fljótu bragði vera híbýli fólks, en það er langt frá því að vera rétt. Mynd: Lourdes Cardenal/Wikimedi Commons

Cajamarca er stór borg í Andesfjöllunum norðarlega í landinu. Hún er bæði þekkt fyrir glæsilegar byggingar frá tímum Spánverja í landinu, og fornleifa frá mun eldri siðmenningum, en talið er að byggð hafi verið á svæðinu í allavega 2000 ár.

Hvergi kristallast saga borgarinnar betur en á útsýnispallinum Cerro Santa Apolonia. Hluti hans er byggður upp af Spánverjum, og á hæðinni má finna fornleifar bæði frá tímum Inkanna, og þjóða sem réðu þar ríkjum enn 

Það er talsvert um áhugaverða staði í kringum borgina. Þar má helst nefna klettamyndanir og forna vatnsveitu í Cumbemayo, Ventanillas de Otuzco og Tumbaden, sem líta út fyrir að vera litlir gluggar fjölbýlishúsa utan í kletti, en eru í raun grafhýsi. Böð Inkanna eru líka vinsæll áfangastaður, en þar er hægt að baða sig í jarðhitavatni. Það verður þó að segjast að þó umgjörðin sé glæsileg þá bætir þetta ekki miklu í upplifunarbanka sundlaugaglaðra íslendinga.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert