Eliza Reid forsetafrú Íslands sendi starfsfólki Icelandair kveðju í dag en greint var frá því í gær að rúmlega tvö þúsund starfsmönnum yrði sagt upp. Eliza á sterkari tengingu við flugfélagið en margir aðrir þar sem hún starfaði eitt sinn fyrir félagið.
Það kannast flestir við að taka upp tímarit Icelandair í sætisvasanum við brottför. Fram kemur í færslunni sem forsetafrúin deildi í dag að hún ritstýrði flugtímariti félagsins í nokkur ár.
„Ég hugsa núna hlýtt til alls góða starfsfólksins hjá Icelandair. Í nokkur ár var ég ritstjóri flugtímarits félagsins og naut mjög samstarfsins við alla þar, að ekki sé minnst á frábæra þjónustu um borð alla tíð. Ég hlakka mikið til að fljúga á ný með Icelandair,“ skrifar Eliza.