Rakel María Hjaltadóttir er 27 ára gamall hársnyrtir og förðunarfræðingur hjá Borgarleikhúsinu og RÚV. Rakel María hefur alltaf verið mikið náttúrubarn og nú veit hún ekkert betra en að hlaupa um í íslenskri náttúru og njóta augnabliksins.
„Ég hef alltaf verið mikið fyrir útivist og verið algjört náttúrubarn frá því ég man eftir mér en það var ekki fyrr en fyrir fjórum árum, þegar að ég fékk mér hund, sem að ég byrjaði fyrst að fikta við hlaupin. Þá þurfti maður að gefa sér tíma alla daga til að losa um orku hjá honum og ég fann fljótt að það virkaði langbest að gera það með hlaupunum. Það leið svo ekki á löngu þar til ég var komin með hlaupabakteríuna og í dag er það yfirleitt bara fyrsta hlaup dagsins hjá mér að hreyfa hundinn,“ segir Rakel María um hvernig hún smitaðist af hlaupabakteríunni.
„Það að hlaupa úti í náttúrunni gefur mér svo ótrúlega margt. Það er einhver ólýsanleg tilfinning að fá hjartað til að slá hraðar og vera umvafinn fallegri náttúru á meðan. Ég er aldrei með tónlist í eyrunum og nýt augnabliksins þegar að ég hleyp úti í náttúrunni og það gefur mér svo mikinn kraft og hugarró á sama tíma. Ég stoppa mig reglulega af bara til þess að njóta augnabliksins og þakka fyrir að hafa möguleika á að upplifa þessa tilfinningu.“
Rakel María er dugleg að nýta útivistarsvæðin í Reykjavík og nágrenni til æfinga.
„Heiðmörkin er alltaf í miklu uppáhaldi en hún er svo stór og býður upp á endalausa möguleika. Þar er bæði hægt að fara upp allskonar hóla og hæðir en líka hægt að hlaupa nokkuð flata utanvegarstíga bara eftir því hvað maður vill hverju sinni. Fyrir þessi utanvegarhlaup er líka nauðsynlegt að æfa mikla hækkun og ég er tíður gestur bæði á Esjunni og Helgafelli í Hafnafirði. Á báðum þessum stöðum eru allskonar stígar og leiðir í kring um fellin svo maður getur farið meira en bara upp og niður fjallið sjálft. Ég verð svo að nefna svæðið fyrir ofan Rauðavatn, þar eru líka allskonar þægilegir stígar og margar vegalengdir í boði. Þar er líka mjög gott að hlaupa með hunda.“
Hvaða keppnishlaup á Íslandi stendur upp úr?
„Ég er svo nýlega farin að stunda keppnishlaup en ætli mitt fyrsta keppnishlaup hafi ekki staðið upp úr. Þá hljóp ég 25 kílómetra í Hengill Ultra en þar er hlaupið um Reykjadalinn og svæðið þar í kring og það er ótrúlega fallegt og nokkuð þægilegt hlaup. Þá fyrst kviknaði á einhverju og ég fann að þarna væri ég búin að finna minn flöt. Annars eru Mýrdalshlaupið, Hvítasunnuhlaup Hauka, Laugavegurinn, Súlur Vertical og Jökulsárhlaupið þau hlaup sem að heilla mig hvað mest hérna heima.“
Hvernig er að hlaupa löng hlaup erlendis miðað við á Íslandi?
„Í stórum hlaupum úti er náttúrlega allt svo miklu stærra, fleiri þátttakendur og allt eftir því. Upplifunin er svolítið eins og að vera komin á risa festival í útlöndum. Stemningin og spennan að vera á ráslínunni með þvílíkum fjölda af fólki er alveg mögnuð. Þar er fólk líka svo opið og maður eignast oft fullt af vinum á leiðinni sem er ekkert nema gaman. Landslag og veðurfar er auðvitað allt annað og oft eru hlaupastígarnir mjög ólíkir því sem maður er vanur heima sem getur verið erfitt.“
Ertu að stefna á að hlaupa einhverjar skemmtilegar leiðir á Íslandi í sumar?
„Ég er með fullt af plönum fyrir sumarið til dæmis að hlaupa Fimmvörðuhálsinn og taka þátt í sem flestum af þeim hlaupum sem ég nefndi hérna fyrir ofan. Þar sem maður hefur meiri tíma en venjulega þá ætla ég að nýta það og hlaupa og ferðast um landið okkar eins mikið og ég get. Næsta hlaup á dagskránni er Puffin Run í Vestmannaeyjum núna um miðjan maí.“
Hvað þarf fólk sem stefnir á lengri utanvegahlaup að hafa í huga þegar það byrjar?
„Að taka bara eitt skref í einu. Þetta hefur allt upphaf og endi og maður getur ekki annað gert en að taka bara eitt skref í einu. Það er líka gott að hafa í huga að það kemur alltaf tímapunktur þar sem að þetta er erfitt og jafnvel alveg ótrúlega erfitt en maður kemst í gegnum það og það koma 100 aðrir tímapunktar þar sem að þér líður svo vel og erfiðið verður allt þess virði. Að koma í mark er svo rúsínan í pylsuendanum en þá líður manni svolítið eins og maður geti sigrað heiminn!“
Rakel María hvetur fólk til þess að nýta tímann sem það hefur núna til að njóta náttúrunnar á hlaupum.
„Núna er rétti tíminn til að koma sér af stað í útihlaupunum og ég hvet alla til að nýta þetta tækifæri og byrja að njóta náttúrunnar,“ segir Rakel María að lokum.