Geimverur, rauðvín og sólarstrendur

Huacachina er einn fjölmargra skemmtilegra áfangastaða á strandsvæði Perú.
Huacachina er einn fjölmargra skemmtilegra áfangastaða á strandsvæði Perú. Mynd: Willian Justen de Vasconcellos/Unsplash

Strandsvæði Perú er ævintýralega fjölbreytt. Þar er að finna fornar myndir á eyðimerkursandi sem aðeins sjást úr lofti, glæsilegar baðstrendur, „geimveruhauskúpur“, vínekrur, elstu borg beggja Ameríkanna, svo ekki sé talað um hina líflegu höfuðborg landsins, Lima. Þessir staðir eru ekki allir við sjóinn en eru á því svæði sem Perúbúar kalla Costa, eða strönd, sem liggur milli sjávar og Andesfjallanna.

Leiðangur um svæðið veit á einstaka og ævintýralega reynslu, hvort sem hann verði farinn seinna meir eða í huganum heima á sófa.

Kónguló, api og geimfari

Nazca línurnar voru gerðar milli 500 fyrir Krist og 500 …
Nazca línurnar voru gerðar milli 500 fyrir Krist og 500 eftir Krist, og ná yfir 450 ferkílómetra svæði. Mynd: Diego Delso/​Wiki­media Comm­ons

Þau eru fá fyrirbærin sem vekja jafn margar spurningar og Nazca línurnar. Fjöldi risastórra mynda af „geimfara“, könguló, apa og fleira skreyta jörðina innan um uppþornaða árfarvegi. Sem og fleiri hundruð metra stór form, línur og þríhyrningar með þráðbeinum útlínum sem virðast eiga betur heima í stærðfræðitíma en á eyðimerkurjörð. Samanlagt eru útlínur myndanna yfir 1300 km langar, og það sem merkilegra er, þær sjást aðeins úr lofti. Fólkið sem bjó þær til fyrir meira ein 1500 árum sá þær aldrei og það er erfitt að ímynda sér ástæðu þess að það lagði á sig þá gífurleg miklu vinnu að skapa þær.

Það er útsýnispallur þar sem hægt er að sjá yfir nokkrar línanna, en besta leiðin til að átta sig á því hvað Nazca línurnar eru í raun mikið og magnað mannvirki er að sjá þær úr lítill flugvél. Svo verður hver á ákveða fyrir sig hvaða samsæriskenning skýrir best uppruna línanna, hvort Nazca fólkið fólkið hafi verið háþróað, geimverur eða yfirnáttúrulegar verur hafi komið að gerð þeirra, eða þá að spinna bara sína eigin kenningu.

Geimveruhauskúpur, rauðvín og sandbretti

Afmynduðu höfuðkúpurnar á Museo Regional de Ica voru innblástur að …
Afmynduðu höfuðkúpurnar á Museo Regional de Ica voru innblástur að kristalhöfuðkúpunni í nýjustu bíómyndinni um Indiana Jones. Mynd: Marcin Tlustochowicz/Wikimedia Commons

Þetta eru ekki orð sem fara saman á hverjum degi en þau eiga öll við Ica, bæ á stærð við Reykjavík nærri suðurströnd Perú. Ica er staðsettur í hálfgerði eyðimörk og er umkringdur sandöldum og er eitt frægasta vínhérað landsins. Það er ekki úr vegi að víkja að heimsækja einn af ævagömlum vínframleiðendum svæðisins og smakka á framleiðslunni. Jafnvel toppa kvöldið með því að skella sér á bar og fá sér þjóðardrykk Perú, pisco sour (pisco er sterkt áfengi sem er bruggað úr vínberjum)

Í útjaðri bæjarins er að finna vin í eyðimörkinni, eins og klippta úr bíómynd. Lítið vatn, pálmatré og nokkur hús, umkringd mjög háum sandöldum. Svæðið þykir skemmtilegur sumardvalastaður, og þaðan er farið á sandbretti (eins og snjóbretti, bara á sandöldum), og í hálfgerðar rallýferðir á buggybílum í sandinum.

Síðasta en ekki sísta aðdráttaaflið í Ica er hauskúpurnar sem finna má í Museu Regional de Ica. Þær eru bókstaflega eins og klipptar úr bíómynd, Indiana Jones and the Kingdom of the Crystal Skull nánar tiltekið. Höfuðkúpurnar eru ílangar, eins og þær hafi tilheyrt verum aðeins lauslega skyldum mannfólki (samsæriskenningar hafa flestar eitthvað með geiminn að gera). Raunin ekki alveg svo spennandi, það lítur út fyrir að litlum börnum hafi verið gert að vera með einhverskonar höfuðbúnað áður en hauskúpan var fullgróin saman eftir fæðingu. Búnaðurinn var til þess gerður að höfuðkúpan mótaðist á annan máta en eðlilegt er, varð nærri því að vera ílöng en hnöttótt, og útkoman er vægast sagt framandi.

Glerhýsi og gamlar rústir

Höfuðborg Perú, Lima, stendur á klettum við strönd Kyrrahafsins.
Höfuðborg Perú, Lima, stendur á klettum við strönd Kyrrahafsins. Mynd: Aarom Ore/Unsplash

Lima er borg þversagna. Þetta kristallast líklega best í hverfinu Miraflores, sem er bæði glæsilegt og nútímalegt. Þar má finna vinsælustu verslunarmiðstöð landsins, Larco Mar sem hangir utan í klettum yfir hafinu, þar er líka að finna fornar rústir frá því fyrir Krist. Aðrir hlutar borgarinnar minna margt á suður-evrópskar borgir, spænskur byggingarstíll í bland við stál og gler. Jaðar hennar og fátækari hverfi bera á móti sterkari keim af menningu innfæddra.

Perú er land með mikla sögu, menningu og stórfenglega fjölbreytta náttúru, nokkuð sem endurspeglast í söfnunum. Þau eru of mörg glæsileg og metnaðarfull til að telja upp hér, en safnheimsókn í Lima ætti enginn að láta framhjá sér fara.

Lima er fullkomin borg til að njóta og skemmta sér. Hún stendur á klettum við hafið og þar fyrir neðan eru glæsilegar baðstrendur. Hún er höfuðborg matarlistar landsins sem tröllreið heiminum fyrir nokkrum árum síðan og státar af fleiri en einum heimsfrægum veitingastað. Í ofanálag þá iðar borgin af lífi. Perúbúar eru mjög hrifnir af því að dansa og njóta og það er um að gera að hrífast með þegar landið er heimsótt.

Borg hins eilífa vors

Fornleifafræðingar vinna enn að því að grafa upp borgina Chan …
Fornleifafræðingar vinna enn að því að grafa upp borgina Chan Chan. Mynd: David Holt/Wikimedia Commons

Trujillo er þriðja stærsta borg Perú og það eru fjölmargar og fjölbreyttar ástæður til að heimsækja hana. Borgin hefur viðurnefnið „borg hins eilífa vors“, vegna sérlega milds og sólríks veðurfars. Yfirvöld svæðisins hafa verið dugleg að styrkja listir og menningu, nokkuð sem endurspeglast í andrúmslofti borgarinnar. Trujillo er þó fyrst og fremst þekkt fyrir að vera umkringd fornleifum.

Rústir hinnar miklu borgar Chan Chan eru í útjaðri Trujillo. Hún var byggð af Chimor fólkinu og var stærsta borg Suður-Ameríku fyrir komu Evrópubúa, 20 ferkílómetrar að stærð. Blómaskeið hennar snemma á 15 öld, en Chimor fólkið var stuttu síðar sigrað af Inkunum, og stuttu eftir það gerðu Spánverjar innrás í landið. Chan Chan er er allt öðruvísi en fornleifarnar sem finnast í suðurhluta Perú, stærðin, byggingabragurinn og skreytingarnar eru einstakar. Uppgröftur stendur enn yfir á svæðinu og borgin kemst reglulega í heimsfréttirnar fyrir áhugaverða fornleifafundi.

Við borgina er einnig að finna hof sem voru byggð af Moche fólkinu, Huaca del Luna og Huaca del Sol, hið fyrrnefnda er betur varðveitt en hið síðarnefnda var stærra, en illa farið eftir að hafa verið strípað gulli af Spánverjum. Þau eru eigi að síður bæði glæsileg og alveg þess virði að heimsækja.

Ibiza Suður-Ameríku

Bærinn Mancora er nærri miðbaugnum og hitastigið er eftir því, …
Bærinn Mancora er nærri miðbaugnum og hitastigið er eftir því, sem þýðir að sundsprettur við sólarlag er heldur meira hressndi en kaldur. Mynd: Melissamarzo/Wikimedia Commons

Það eru ekki fornleifar eða náttúra sem fólk sækist í á Mancora, það er mannlífið, sólin og brimbrettabrölt. Mancora er lítill bær með stórar hvítar strendur þar sem ekkert ber fyrir augu annað en óendanleg stærð Kyrrahafsins. Bærinn er einn vinsælasti ferðamannastaður Perú fyrir ferðamenn frá Suður-Ameríku og þar er ferðamannastraumur allt árið, þó mest sé að gera yfir sumarmánuðina (nóv-jan). Skráðir íbúar eru ekki nema um 10.000 en fjöldinn sem stoppar við er gífurlegur, sem endurspeglast líklega best í fjölda bara og næturklúbba í bænum.

Elsta borg Ameríkanna

Caral fellur í skugga annarra og heillegri fornra borgarrústa landsins …
Caral fellur í skugga annarra og heillegri fornra borgarrústa landsins og því lítið sótt heim af ferðamönnum. Mynd: Paulo JC Nogueira/Wikimedia Commons

Caral er 5000 ára gamlar rústir elstu borgar Norður- og Suður-Ameríku. Til að setja borgina í sögulegt samhengi var hún byggð á undan sfinxinum í Egyptalandi. Fornleifarnar voru uppgötvaðar árið 1948, en fengu litla athygli framan af. Borgin er nú komin á fornminjaskrá Unesco og þykir einstaklega vel varðveitt og með sérstakan arkitektúr. Svæðið er tiltölulega stórt, og státar m.a. af pýramídum, þó þeir geti ekki keppt við þá egypsku í stærð.

Caral er staðsett 200km norðan við Lima og það er meðal annars hægt að fara í dagsferðir þaðan til að skoða borgina. Þar er alla jafna lítill umferð ferðamanna því þrátt fyrir mikilvægi borgarinnar í sögulegu samhengi er hún ekki jafn tilkomumikil eða falleg og margar aðrar og yngri fornleifar landsins.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert