Ferðin á Kirkjufell eftirminnilegust

Andrea á toppi Kirkjufells.
Andrea á toppi Kirkjufells. Ljósmynd/Aðsend
Andrea Sigurðardóttir viðskiptafræðingur og útvistarunnandi segir að það sé engin þörf að vera Vilborg Arna til þess að geta farið í fjallgöngu. Andrea missti vinnuna í kórónuveiruheimsfaraldrinum líkt og svo margir sem starfa í ferðaþjónustu. Þessa dagana notar hún tækifærið til að ljúka við meistaraverkefnið sitt í fjármálum fyrirtækja og njóta útivistar.
Hverskonar útivist ert þú hrifnust af? 
„Ég stunda mjög fjölbreytta útivist og líklega er ég hrifnust af því hve útivistin bíður upp á mikinn fjölbreytileika, frekar en einhverri einni hlið hennar. Ég stunda m.a. fjallgöngur, gönguskíði, fjallahjólreiðar, villisund, utanvegaskokk og nýlega hefur klifur bæst við.
Fjölbreytileikinn gerir það að verkum að maður er ekki alltaf að gera það sama og maður fær því aldrei leið. Það gefur manni möguleika á að krydda ferðirnar aðeins, til dæmis ef farið er í gönguferð að koma við í stöðuvatni á leiðinni og taka sundsprett eða klifra í klettum á leiðinni.“ 
Hvað er það við fjallgöngur sem þú ert hrifnust af?
„Það besta við fjallgöngur er að þær eru ekki bara frábær líkamsrækt, heldur eru þær einnig andleg næring af bestu gerð. Ferska loftið, náttúran og það að ná toppnum, þó hann sé ekki endilega af hæstu gerð, er náttúruleg gleðipilla. Það er líka ótvíræður kostur við fjallgöngur að þær er bæði hægt að stunda í góðum félagsskap, þar sem allir eru alltaf í góðu skapi, og í einrúmi þar sem má ná góðri hugleiðslu og tengingu við náttúruna.“
Andrea er hrifin af allri gerð af útivist.
Andrea er hrifin af allri gerð af útivist. Ljósmynd/Aðsend
Hvert er uppáhalds fjallið þitt/gönguleiðin þín?
„Það er ofboðslega erfitt að velja uppáhalds gönguleið. Í nágrenni höfuðborgarsvæðisins er ég mjög hrifin af Móskarðshnjúkum. Þar er gengið upp í týpísku moslendi en þegar komið er að hnúkunum sjálfum gjörbreytist landslagið, líkt stígið sé inn á aðra plánetu.“
Hver er eftirminnilegasta gangan sem þú hefur farið í?
„Það er úr mörgu að velja. Á Íslandi held ég að Kirkjufell standi upp úr. Kirkjufell er einstaklega fallegt fjall sem öðlaðist heimsfrægð í „Game of Thrones“ þáttunum. Við fengum ótrúlegt veður; sól, logn og hlýindi. Það var ekki kalt á toppnum í það skiptið, hitamollan var svo mikil að það var engu líkara en við værum stödd í sólarlöndum um hásumar. Útsýnið af toppnum var stórbrotið. Það er þó nauðsynlegt að árétta að ganga á Kirkjufell er krefjandi og tæknileg á köflum. Fallhætta er töluverð og algengt er að fólk fari sér að voða á Kirkjufelli. Enginn ætti að halda á Kirkjufell án viðeigandi búnaðar, að mínu mati er nauðsynlegt að hafa línur til að tryggja sig og hjálma til að verjast grjóthruni. Einnig er skynsamlegt að njóta leiðsagnar einhvers sem þekkir til því leiðin á toppinn blasir ekki við og því auðvelt að koma sér í sjálfheldu.“
„Það er engin þörf á að vera einhver Vilborg Arna …
„Það er engin þörf á að vera einhver Vilborg Arna til að sigra hnjúkinn, þó fjallaformið þurfi auðvitað að vera gott,“ segir Andrea. Ljósmynd/Aðsend
Ljósmynd/Aðsend
Með hvaða fjöllum/gönguleiðum mælir þú með að fólk spreyti sig á til að byrja með?
„Flestir þekkja Úlfarsfell og Helgafell í Hafnarfirði og hefur verið vinsælt að byrja þar. Fyrir þau sem vilja fáfarnari leiðir mæli ég hiklaust með Mosfelli í Mosfellsbæ. Þar er skemmtileg hringleið yfir fjallið með viðráðanlegri hækkun. Fyrir þau sem vilja dreifðari hækkun er frábært að ganga í Heiðmörk, Öskjuhlíð og um Vífilsstaðahlíð og inn í Búrfellsgjá.“ 
En fyrir lengra komna?
„Á höfuðborgarsvæðinu er tilvalið fyrir lengra komna að ganga á Kerhólakamb á Esju að sumri til, en á veturna getur þar verið snjóflóðahætta. Gangan er krefjandi með ágætis hækkun, yfir 800m. Einnig má nefna Hafnarfjallshringinn við Borgarnes sem og Helgrindur og Ljósufjöll á Snæfellsnesi. Lengra komnir geta tekið stefnuna á 100 hæstu tinda landsins. Nokkra þeirra má finna í Kerlingarfjöllum sem er afskaplega fallegt göngusvæði. Sá hæsti, Hvannadalshnúkur, er í mínum huga skyldutoppur fyrir lengra komna. Þó hann sé hæstur, er hann langt í frá erfiðastur. Það er engin þörf á að vera einhver Vilborg Arna til að sigra hnjúkinn, þó fjallaformið þurfi auðvitað að vera gott.“
Ljósmynd/Aðsend
Andrea fór nýlega að stunda klifur.
Andrea fór nýlega að stunda klifur. Ljósmynd/Aðsend
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert