Ísak Frey dreymir um Lágafellslaug

Ísak Freyr ferðast mikið vegna vinnu. Þegar hann fer í …
Ísak Freyr ferðast mikið vegna vinnu. Þegar hann fer í frí þá kann hann að meta að slaka á og njóta.

Ísak Freyr Helgason er vanur að vera á faraldsfæti vegna vinnu sinnar. En hann er að margra mati sú förðunarstjarna sem hefur náð hvað lengst á erlendri grundu. Langflest ferðalög sem hann fer í eru vinnutengd, en þegar hann fer í frí ótengt vinnu, þá vill hann helst fara á stað þar sem hann getur verið í ró og næði. Hann býr í Bretlandi nánar tiltekið í London þar sem hann býr með kærasta sínum James og hundinum þeirra Dimmu. Þó hann sé afar sáttur í ferðabanni í dag dreymir hann um ferðalag til Íslands. 

„Þegar ég ferðast vil ég helst fara á staði sem eru lítið þekktir. Þá nota ég tímann minn vel til að lesa og hugleiða. Ég reyni að ná eins mikilli jarðtengingu og ég get áður en ég sný aftur til vinnu. 

Mér finnst líka skipta miklu máli að leyfa símanum að vera og hafa helst slökkt á honum því mér finnst hann oft stuða mig svolítið og ég get átt það til að vera svolítið fastur í vinnuheilanum þegar ég læt hann ekki í friði þegar ég er í fríi. Ég set athyglina í að hlusta og horfa á náttúruna, og passa upp á hvíld og öndun.“

Hefur farið í margar ævintýraferðir

Þó ferðalög Ísaks séu oftast farin í tengslum við vinnu, þá fara þeir James oft í helgarferðir til Evrópu.  

„Þessar ferðir eru farnar til að slaka aðeins á. En svo finnst mér einnig dásamlegt að koma heim, því ég fæ ekki nóg af því að faðma fjölskylduna mína.“

Ísak var í Joshua Tree, Palm Springs í vinnuferð rétt áður en ferðabannið skall á. 

„Ég eyddi 8 dögum í eyðimörkinni þar í kringum alla kaktusana sem var ótrúlega áhugaverð upplifun. Maður þurfti virkilega að passa sig hvar maður steig niður, því sumir kaktusarnir voru ótrúlega beittir og harðir eins og sverð, svo voru sumir sem skutu frá sér nálum ef maður var að fikta í þeim svo þetta var mjög mikill hasar!“

Aðspurður um uppáhalds ferðalagið hans til þessa segir hann erfitt að velja á milli þriggja ferðalaga sem hann hefur farið í sem hann heldur mikið upp á í minningunni. 

„Eitt ferðalaganna var til Tulum í Mexíkó. Þetta var vinnuferð með vinum sem ég þekki vel. Við eyddum öllum dögum á ströndinni og borðuðum yndislegan mat og skemmtum okkur vel. Annað ferðalag sem stendur upp úr var á Mont Blanc. Þangað fór ég í vinnuferð og tók langan tíma að komast upp með allar fyrirsæturnar og starfsfólk. Síðan þurftum við öll að vera bundin saman í keðjur og klifra upp á staðinn þar sem ljósmyndirnar voru teknar. Við vorum líka með her úlfa sem voru notaðir í myndatökuna. Þetta var ótrúleg lífsreynsla. Þriðja ferðalagið sem stendur upp úr og ég held jafnvel mest upp á er þegar mamma hélt upp á fimmtugs afmælið sitt og tók mig og systir sína með til Sitges á Spáni í 2 vikur. Þar borðuðum við góðan mat og nutum þess að liggja á ströndinni og fá okkur nudd og svo kynntist ég ótrúlega mikið af áhugaverðu fólki þar sem sýndi mér yfirgefin munkaklaustur og rústir sem voru faldar í djúpum dölum.“

Tekur ferðabanni með æðruleysi

Hvaða áhrif hefur ferðabannið á þig persónulega?

„Það hefur ótrúlega góð áhrif á mig persónulega. Ég hef verið að huga mikið að andlegu hliðinni og verið mikið að hugleiða og að stunda jóga. Svo hef ég hafist handa við skrif á bók sem er í bígerð og það gefur mér ótrúlega mikið. Mér finnst einhvernvegin eins og heimurinn sé svolítið að segja okkur að stoppa aðeins og hugsa og íhuga hvað það er það sem við í raun þurfum og hvað skiptir máli í lífinu.“

Er þig að dreyma um ferðalag á nýja staði?

„Já mig dreymir um að komast til Íslands í Lágafellslaug. Ég get ekki lýst því hversu mikið ég þrái að komast í gufu og heitan pott.“

Þegar kemur að sumarförðuninni í ár segir Ísak flestir vera að hugsa frekar minimalískt og að leyfa náttúrulegu útliti að njóta sín. 

„Það er alltaf stemngin á sumrin og sérstaklega þá á öllum hátíðum, svo sem kvikmyndahátíðinni í Cannes og fleira. Allir vilja vera ferskir og ljómandi, með jafnvel fallegan lit á vörunum.“

View this post on Instagram

Gorgeous @josielane___ shot by @smiggi for @wonderland, styled by @luca_falcioni_ hair by @bjornkrischker @afrankagency xx

A post shared by Ísak Helgason (@isakhelgason) on Mar 14, 2019 at 6:42am PDT

Hvaða förðunarvörum mælirðu með í fríið?

„Ég er alltaf með Bronzing Gel frá Sensai til þess að skella á fyrir smá lit, gullpennann frá YSL aðeins til þess að hressa upp á augum, Augnhárabrettara, SPF50 spreyjið frá Kate Sommerville sem maður spreyjar yfir farða fyrir vörn og svo skelli ég smá boy brow frá Glossier til þess að fínisera aðeins augnabrúnirnar. Ef maður vill taka þetta eitthvað lengra þá mæli ég með fallegum kinnalit og varalit með smá lit í. Sem dæmi Volupte Tint-In-Balm frá YSL sem gefur manni fallegan ljóma og smá lit á varirnar.“

Listaverk af Ísaki, James og Dimmu.
Listaverk af Ísaki, James og Dimmu.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert