Kórónuveiruheimsfaraldurinn hefur breytt lífum okkar flestra all mikið. Við erum hætt að faðma annað fólk en okkar nánustu, við þvoum okkur oftar um hendurnar og gætum mikið að hreinlæti. Síðast en ekki síst höfum við þurft að hætta að ferðast til að hindra útbreiðslu veirunnar.
Það er óvíst hvað mun fylgja okkur áfram og hvernig ferðalög framtíðarinnar munu líta út. Huffington Post ræddi við nokkra sérfræðinga í ferðamannabransanum um hvernig ferðalög framtíðarinnar munu líta út.
„Það mun ekki koma eitthvað ákveðið augnablik þegar ferðalög um heiminn munu hefjast að nýju,“ segir Konrad Waliszewski framkvæmdarstjóri TripScout-appsins. „Þetta mun hefjast hægt og rólega eftir því sem ferðamönnum fer að líða öryggari og ákveðnir áfangastaðir munu verða eins og áður,“ sagði Waliszewski.
„Við þurfum að segja löngum röðum stríð á hendur, röðum sem við sjáum við innritunarborðin, öryggishliðin, við flugvélarnar og landamæraeftirlit. Í allt of langan tíma höfum við tekið þeim sem gefnum en við getum notað tæknina til að flýta öllu ferlinu,“ segir Brian Kelly framkvæmdarstjóri The Points Guy.
Hann telur að skannar, eins og andlitsskannar verði notaðir til að flýta fyrir og fækka röðum og fækka mannlegum samskiptum.
„Er nauðsynlegt að rétta blaðsnifsi til annarrar manneskju til að komast um borð í flugvél árið 2020? Alls ekki.“
Hann segir líka að fingrafaraskannar verði ekki lengur jafn algengir til að sleppa við fleti sem margir snerti. Aðspurður hvort tæknin muni ekki stríða gegn friðhelgi einkalífsins segir hann að fólk þurfi að meta heilsu sína meira en einkalífið.
Flestir ferðalangar frá vesturlöndunum áttu ekki andlitsgrímu áður en faraldurinn breiddist út um heiminn. Notkun andlitsgríma hefur hinsvegar verið almenn í mörgum Asíuríkjum til fjölda ára. Kelly segir að fólk þurfi að venjast því að nota þær.
FlugfélagiðJetBlue var fyrsta stóra flugfélagið í Bandaríkjunum til að setja reglur um andlitsgrímur og ber farþegum þeirra nú skylda til að vera með grímu á ferðalagi.Kelly telur það líklegt að fleiri flugfélög taki upp þessa reglu.
Waliszewski segir að við séum nú þegar búin að upplifa gullöld lágra flugfargjalda. Hann telur að fyrst eftir að ferðalög komast á muni flugfargjöld vera í sögulegu lágmarki. „Lítil eftirspurn, lágt olíuverð og aðstoð frá ríkjum ætti að valda því að flugfargjöld verði gríðarlega lág út árið 2021, en á endanum munu yfirvofandi gjaldþrot lággjaldaflugfélaga og uppgötvunin að flugfélög ættu að spara fyrir erfiðu tímunum valda því að flugfargjöld munu hækka til lengri tíma litið,“ sagði Waliszewski