Ferðalag um frumskóga Perú

Jagúar er líklega eitt tignarlegasta dýrið sem finnst í frumskóginum.
Jagúar er líklega eitt tignarlegasta dýrið sem finnst í frumskóginum. Mynd: Uriel Soberanes/Unsplash

Bleikir höfrungar, letidýr, páfagaukar, fjarlægir menningarheimar, óviðjafnanlegur matur og stórbrotin náttúra eru meðal þess sem er að finna í Amasonfrumskóginum í Perú.

Skógurinn nær yfir gríðarstórt svæði, um 60% landsins. Honum er í daglegu tali er skipt upp í hærri og lægri frumskóginn, því hann teygir sig frá Amasonsléttunni og hátt upp í Andesfjöllin. Landslagið og náttúran eru fjölbreytt eftir því, ævintýraleg og tilkomumikil. 

Frumskógarborgin

Sum húsanna í Iquitos og fljóta á Amasonfljótinu, önnur standa …
Sum húsanna í Iquitos og fljóta á Amasonfljótinu, önnur standa á stultum. Miðbærinn, furðulegt nokk, stendur bara á jörðinni. Mynd: Deb Dowd/Unsplash

Framandi er líklega fyrsta orðið sem kemur upp í hugann þegar Iquitos ber á góma. Borgin er staðsett djúpt inn í skóginum á miðri Amasonsléttunni og þangað er aðeins hægt að komast með bát eða flugvél. Borgin er á bökkum Amasonfljótsins og húsin sem standa næst því eru á stultum. Hæðarbreytingar fljótsins nema fleiri metrum yfir árið, svo suma daga er siglt að húsunum en aðra þarf að klifra upp stiga til að komast inn. Hitinn og rakinn er næstum því yfirþyrmandi, veitingastaðir bjóða upp á allt frá maurum til krókódílasteika og skjaldbökusúpu (sem er sérréttur þessa svæðis) og þéttur frumskógurinn sem umkringir borgina er svo magnaður að það er erfitt að lýsa honum með orðum.

Iquitos tilheyrir selva baja, láglendi frumskógarins. Þar er skógurinn einhvern veginn meiri, trén þéttari og hærri, og dýralífið enn meira framandi. Það eru fjölmargar ævintýralegar ferðir í boði frá Iquitos inn í skóginn og flestar byrja þær á siglingu á hinu ægistóra Amasonfljóti, sem er lífæð svæðisins. Þaðan er hægt að fara í ferðir til að kynnast  einhverjum af ættbálkunum sem frumskógurinn hýsir, sofa á í hengirúmi milli tveggja trjáa fjarri öllu sem heitir nútímaþægindi, svo ekki sé talað um að skoða dýralífið. Höfrungar jafn bleikir og barnakjóll, letidýr, jagúarar, apar, slöngur, píranafiskar og páfagaukar... hér væri lengi hægt að halda áfram, en það er óhætt að segja að dýralífið sé ævintýralega fjölbreytt, forvitnilegt og skemmtilegt að kynnast í sínu náttúrulega umhverfi.

Borgin sjálf er ekki síður skemmtileg, menningin og andrúmsloftið er einstakt og þar er ýmislegt hægt að finna sér til dundurs. Athafnir leiddar af töfralæknum svæðisins hafa verið í vaxandi vinsældum i hjá ferðamönnum í leit að andlegri upplifun. Þar eru markaðir engu öðru líkir, eins og Belen, San Juan, eða matarmarkaðir með svo framandi úrvali ávaxta og grænmetis að það er engu líkt. Þar eru nokkrir dýragarðar en af þeim ber helst að nefna fiðrildagarðinn, sem hýsir líka ýmis önnur frumskógardýr. 

Nýlega fundinn foss

Þessi tilkomumikli foss fannst árið 2002.
Þessi tilkomumikli foss fannst árið 2002. Mynd: Elemaki/Wikimedia Commons

Gocta er hæsti foss í Perú og er vægast sagt tilkomumikill, hæðin er svo óraunveruleg. Gocta er 700m hár, sem samsvarar ríflega þreföldum Glym, hæsta fossi Íslands, eða tæplega tvöföldum hring á frjálsíþróttabraut.

Það er erfitt að ímynda sér að 700 metra hár foss hafi ekki uppgötvast fyrr en 2002, en það er tilfellið með Gocta (uppgötvað er notað lauslega í þessu samhengi, heimafólk vissi af honum þó umheimurinn hafi ekki gert það). Fossinn er umkringdur þéttum gróðri og mögnuðu dýralífi. Hann er sá 17. hæsti í heimi, þar af 5. í röðinni hvað varðar fossa í frjálsu falli. Eins og sést á myndinni er Gocta tvískiptur foss, efri hlutinn er rúmlega 200m hár, og neðri hlutinn um 500m.

Fossinn er ekki bara fallegur að sjá. Það er sérstaklega mögnuð upplifun að standa við vatnið þar sem hann lemst niður úr þessari miklu hæð. Krafturinn er óviðjafnanlegur og sú upplifun sem kemst því næst er líklega að standa úti í mjög, mjög slæmu stormviðri. 

Borg orkídeunnar

Höfnin í Moyobamba var áður mikilvæg miðstöð verslunar.
Höfnin í Moyobamba var áður mikilvæg miðstöð verslunar. Mynd: Christiam Erick Nuñez Piña/Wikimedia Commons

Moyobamba er þekkt sem borg orkídeunnar, um 3500 tegundir þessarar sérvitru plöntu sem margir kannast við úr íslenskum stofugluggum, eiga rætur sínar að rekja til svæðisins. Það er ótrúlega fallegt að keyra í gegnum borgina þegar orkídeurnar eru í fullum blóma á hverju torgi. 

Moyobamba var á árum áður mikilvæg bátahöfn fyrir flutning um ár frumskógarins, þetta hefur minnkað talsvert en höfnin er eigi að síður mjög falleg og skemmtileg að heimsækja. Þar er meðal annars hægt að leigja litla báta og sigla um lygna Mayo ánna sem borgin liggur við.

Blóm eru fjarri því að vera það eina áhugaverða við svæðið í kringum borgina. Þaðan er hægt að fara í leiðangra um frumskóginn. Þar er heilsulind með jarðhitavatni sem er hátt skrifuð á meðal heimamanna, en í frumskógarhitanum er talsvert meira hressandi að finna sér stöðuvatn til að baða sig í. Ekki er verra ef það fellur fallegur foss í það (af þessum stöðum er nóg að taka í kringum borgina). 

Hin týnda borgin

Hvað sem kann að virðast í fljótu bragði var þessi …
Hvað sem kann að virðast í fljótu bragði var þessi bygging ekki styrkt af íþróttafataframleiðandanum Umbro. Mynd: Elemaki/Wikimedia Commons

Kuélap væri líklega mjög fræg týnd borg, ef hún væri ekki í sama landi og ein frægasta týnda borg heims, Machu Picchu. Borgirnar eru oft bornar saman en þær eiga í raun fátt sameiginlegt umfram það að standa báðar á fjallstindi. Kuélap er byggð til að standa af sér árásir, umkringd háu borgarvirki með aðeins þremur þröngum inngöngum. Hún var byggð af Chachapoyas fólkinu nokkur hundruð árum fyrir tíma Inkanna, þó þeir hafi hertekið hana síðar, og er því ólík flestum rústum frá Inkatímanum. Auk þess eru nánast öll húsin í borginni hringlaga. Ferðamannastraumur til borgarinnar jókst talsvert þegar kláfur var settur upp til að auka aðgengi að henni, en heimsóknirnar eru samt bara brot af því sem frænka hennar í suðri sér. 

Í Kuélap eru rústir ríflega 400 húsa og talið er að borgin hafi hýst um 300.000 manns þegar mest var. Það er erfitt að ímynda sér að borgin hafi hýst það sem nálgast heildaríbúafjölda Íslands og það er í raun mjög lítið vitað um hana umfram það sem fornleifar gefa til kynna.  Líkt og Machu Picchu var borgin yfirgefin áður en Spánverjar komu höndum yfir hana svo hún gleymdist í nokkrar aldir, og hvorki Inkarnir né Chachapoyas-fólkið áttu ritmál.

Kuélap er bæði falleg og tilkomumikil. Ekki bara út af glæsilegu útsýni og virkisveggjum sem gefa til kynna stórkostlegar orrustur. Hringlaga húsin og borgarvirkið eru byggð úr kalksteini sem gefur borginni fallegt, ljóst, yfirbragð, og í sumum húsunum er þeim hlaðið í ákveðin munstur og í öðrum er búið að skera út litlar myndir af hinu og þessu sem gaman er að leika sér að því að finna. Það er eitthvað, þegar allt þetta er tekið saman, sem gerir Kuélap að einstökum og töfrandi áfangastað.

Flúðasiglingar og fiðrildi

Lamas kastalinn var reystur árið 2005 að fyrirmynd ítalskra miðaldakastala, …
Lamas kastalinn var reystur árið 2005 að fyrirmynd ítalskra miðaldakastala, úr kalksteini frumskógarins. Mynd: Pitxiquin/Wikimedia Commons

Tarapoto er ein stærsta borg efri Amasonfrumskógarins og afskaplega skemmtileg heim að sækja. Hún er lífleg, örlítið frumstæð, státar af vatnsleikjagarði, furðulegum ítölskum miðaldakastala sem var byggður fyrir aðeins nokkrum árum síðan, og síðast en ekki síst, er hún umkringd ævintýralegri náttúru. Svæðið er þekkt fyrir stórkostleg vötn, sem dásamlegt er að sigla um, og ef maður er heppinn, sjá fiðrildi í þúsundatali í öllum regnbogans litum sveima um yfirborðið. Þar eru ár þar sem hægt er að fara í flúðasiglingar, og fjöldi glæsilegra fossa sem bæði er hægt að dást að, eða baða sig í vötnunum sem þeir steypast niður í.

Maturinn í Tarapoto er út af fyrir sig upplifun, ólíkur þeirri perúsku matreiðslu sem hefur verið í tísku í hinum vestræna heimi undanfarið. Eitt skemmtilegasta hráefni svæðisins eru bananar, hvort sem þeir eru grillaðir, bornir fram sem stappa með nýveiddum fiski, eða steiktir og skipt út fyrir hrærð egg á morgunverðarborði. Hinir alræmdu 7 frumskógarsnafsar eru hinsvegar það þekktasta úr matarkistu svæðisins. Þeir eru bruggaðir úr skógarplöntum og eiga það hiklaust skilið að vera kallaðir alræmdir.

Þegar „heppnin“ er með manni gæti barþjónninn bætt heimagerðum drykkjum …
Þegar „heppnin“ er með manni gæti barþjónninn bætt heimagerðum drykkjum við pöntunina þegar frumskógarsnafsarnir sjö eru pantaðir. Mynd: Sóley Björk Guðmundsdóttir
Hægfara og vinaleg letidýr finnast víða um frumskóginn.
Hægfara og vinaleg letidýr finnast víða um frumskóginn. Mynd: Deb Dowd/Unsplash
Árnar koma í stað vega á frumskógarsléttunni, enda mun greiðfærari …
Árnar koma í stað vega á frumskógarsléttunni, enda mun greiðfærari en þéttur skógurinn. Mynd: Jlwad/Wikimedia Commons
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert