Sigríður Kristín Hrafnkelsdóttir lýðheilsufræðingur starfar hjá Embætti Landlæknis þar sem hún er verkefnisstjóri Heilsueflandi framhaldsskóla og Heilsueflandi vinnustaða. Ferðalög hafa mikla þýðingu í hennar huga. Bæði sem afslöppun en eins fær hún sumar af bestu hugmyndum sínum á ferðalögum.
„Fyrir mig er afar mikilvægt að upplifa hvernig fólk býr og lifir á öðrum stöðum í heiminum en það á líka við hérlendis. Ég horfi til sjálfbærni í þessu samhengi og líka hvernig umhverfið hefur áhrif á það hvernig við lifum lífinu. Þá er alltaf gaman að finna af eigin skinni hvernig hlutirnir eru í öðrum samfélögum og máta þær hugmyndir við lífið og hegðun okkar í eigin samfélagi.
Hvaða ferðalag er það skemmtilegasta sem þú hefur farið í til þessa? Ég á erfitt með að gera upp á milli. Ég hef lengi farið í árlegt skíðaferðalag til Austurríkis sem mér finnast frábært frí. Ég fer einnig reglulega í nokkurra daga göngu hérlendis í góðum hópi og hef verið svo heppin að fara í veiðiferðir innanlands undanfarin ár.
París er uppáhalds borgin mín og reyni ég að fara þangað reglulega og mér finnst gaman að fara í borgarferðir og upplifa stórborgarlífið inn á milli. Síðan hef ég haft sérstakar mætur á eyjaklösum karabíska hafsins og Playa del Carmen í Mexico er í uppáhaldi en Cancun er líka góður afslöppunarstaður. Á síðasta ári fór ég til St. Maarten í karabíska hafinu sem var dásamlegt frí.“
Sigríður mun eins og aðrir ferðast um landið okkar í sumar og er mikil tilhlökkun í henni því tengt.
„Við fórum í stórkostlega bátsferð í fyrra og fórum einnig Hringveginn síðasta sumar og upplifði ég marga afar áhugaverða staði sem mig langar aftur á því ég hef lítið haft tíma til að ferðast um norður og austurland síðustu áratugina.“
Hvaða ferðalag dreymir þig um að fara?
„Ég hef aldrei komið til Asíu, Afríku eða Eyjaálfunnar Ástralíu. Það er draumurinn að komast á þær slóðir í góðra vina hóp.“
Áttu góðar minningar af ferðalögum í æsku?
„ Já, ég á minningar um tjaldútilegur með mömmu og pabba þegar veðrið virtist alltaf vera gott. Svo man ég eftir góðum ferðum til Lúxemborgar, Englands og Skotlands en mamma mín vann hjá Flugleiðum á þeim tíma og við ferðuðumst því aðeins erlendis á þeim tíma.“
Aðspurð um hvernig ferðabannið hefur farið með hana segir hún að áhrif þess hafi ekki haft svo mikil áhrif á lífið og tilveruna.
„Ég á mjög auðvelt með að aðlaga mig að nýjum aðstæðum og þetta er bara auðvelt enda svo ótrúlega mikið hægt að gera hér í þessu fallega landi okkar. Ég elska að uppgötva gróskuna sem hefur átt sér stað hérlendis þegar bændur hafa boðið upp á ræktun sína á litlum matsölustöðum og haft gæði að leiðarljósi og boðið upp á nýjar leiðir í nýtingu ræktunar úr heimahögum.“
Hún segir að þó fjarfundarbúnaður virki gríðarlega vel þá finnst henni einnig gott að hitta fólk með hefðbundnum hætti. Hún ætlar að leggja sig fram um að taka hugarflugsfundi og fara á ólíka staði á landinu og tengja við fólk þannig.
Sigríður ætlar í þriggja daga gönguferð líkt og hún gerir árlega, eins ætlar hún í styttri göngur og á von á að fara í veiðiferð með unnusta sínum líkt og í fyrra.
„Svo hef ég verið að æfa golfsveifluna og ætla að taka það fastari tökum í sumar. Svo er ég búin að vera að skoða gististaði á Íslandi því að við förum klárlega í hálendisferðir og Hringveginn eins og við gerðum í fyrra. Það eru tækifæri í öllum aðstæðum og ég sé ekkert nema frábær tækifæri til ferðalaga hérlendis í sumar.“
Á ferðalagi um landið heimsótti Sigríður í fyrra meðal annars Vallanes, þar sem sjálfbærni og ræktun er í fyrirrúmi.
„Ég varð dolfallin af hugmyndafræði rekstraraðila Vallaness þar sem boðið er upp á gæðamatvöru sem er ræktuð á staðnum. Á Egilsstöðum fékk ég líka bestu lífrænu jógúrt sem ég hef smakkað á litlu kaffihúsi við hlið Hótel Héraðs og frábæran mat á hótelinu. Það var svo stórkostlegt að upplifa þessa grósku í ræktun og sjálfbæra hugsun sem ég á svo erfitt með að skilja að við getum ekki gert meira af hér á landi. Ég er í hópi þeirra sem er algjörlega fyrirmunað að skilja af hverju það er ekki hægt að selja ódýra raforku til þeirra sem eru í matvælaræktun og af hverju við ræktum ekki landið okkar betur. Við eigum matreiðslufólk á heimsmælikvarða sem geta nýtt ræktunina á marga vegu, þeir hafa sýnt það. Við þurfum að horfa meira til Heimsmarkmiðanna og verða sjálfbærari á allan máta með hugmyndaauðgi að vopni og við eigum að efla nýsköpun í þessa átt.
Vonandi að jákvæð áhrif af Covid-19 leiði okkur þangað. Á Suðurlandi vil ég líka nefna Friðheima og Flúðasveppi sem rækta sjálfir það sem þeir bjóða upp á. Ég mun klárlega eyða sumrinu í það að elta uppi álíka staði og vil endilega fá ábendingar um staði sem byggja á sjálfbærni og hugmyndafræðinni að matreiða úr ræktun í nærumhverfi.“