Tengir ekki við fólk sem fer alltaf til Tenerife

Sóldís Alda er mikill ferðalangur.
Sóldís Alda er mikill ferðalangur. Ljósmynd/Aðsend

Sóldís Alda Óskarsdóttir er 26 ára með ólæknandi ferðabakteríu. Hún byrjaði snemma að ferðast og fór meðal annars sem skiptinemi til Ástralíu. Hún fer vanalega í lengri ferðalög til útlanda og elskar að kynnast menningu heimamanna. 

„Það að ferðast hefur gefið mér mjög margt, kannski helst hamingju og nýja og skýrari sýn á heiminn. Maður kemst að því þegar maður ferðast að margt sem maður les til dæmis á netinu og í fréttum um önnur lönd gefur ekki rétta mynd,“ segir Sóldís um hvað gefur henni að ferðast. 

„Ég hafði heyrt ótrúlega góða hluti um Kólumbíu frá fólki sem hafði verið þar og ákvað þess vegna að fara þangað. Svo þegar ég sagði fólki hérna heima frá því að ég ætlaði til Kólumbíu fengu sumir hálfgert áfall, þeirra ímynd af Kólumbíu var bara að það væri stórhættulegt, en sama fólkið gat ekkert endilega staðsett Kólumbíu á landakorti. Það vissi í raun ekkert um landið en var samt sannfært um að það væri stórhættulegt að fara þangað. Ég elska að fara til nýrra landa og komast að því hvernig lífið er þar. Ég er mjög forvitin um heiminn og til dæmis áður en ég fór í skiptinám til Ástralíu fór það ótrúlega í taugarnar á mér að það væri eitthvert risastórt land hinum megin á hnettinum og ég vissi bara ekkert hvernig lífið gengi fyrir sig þar. Mig langar að sjá allt og gera allt. Ég tengi til dæmis ekkert við fólk sem fer endalaust til Tenerife.

Ég er aldrei hamingjusamari en þegar ég er að ferðast, ég er ótrúlega háð frelsistilfinningunni sem fylgir því. Ég er ekki mikið fyrir rútínu og líður best þegar ég er í einhverju fjarlægu landi, með ekkert plan og vakna bara á hverjum morgni og get gert nákvæmlega það sem ég vil.“

Sóldís finnur fyrir frelsistilfinningu á ferðalögum.
Sóldís finnur fyrir frelsistilfinningu á ferðalögum. Ljósmynd/Aðsend

Menningarsjokk í Kosta Ríka

Ferð Sóldísar Öldu til Kosta Ríka er eftirminnilegasta ferð hennar erlendis. 

„Þetta var fyrsta ferðin mín út fyrir Evrópu og Bandaríkin. Þegar ég lenti tók á móti mér allt annar heimur. Á leiðinni af flugvellinum hugsaði ég bara: „Nei, hvað er ég búin að koma mér út í?“ Ég fékk nett menningarsjokk þarna þegar ég kom, fyrsta og eina skiptið sem ég hef fengið menningarsjokk. Ég var þarna á vegum samtaka sem heita AUS (Alþjóðleg ungmennaskipti) og bjó hjá „host“-fjölskyldu í úthverfi San José, sem er höfuðborgin. Það var ótrúlega áhugavert að búa með heimamönnum og fá að kynnast lífi Kosta Ríka-búa alveg frá fyrstu hendi,“ segir Sóldís og segir að hún hafi neyðst til að tala spænsku enda nær eingöngu töluð spænska. 

Ég tók strætó í vinnuna alla daga og lifði því svolítið bara eins og innfæddir á meðan ég var úti. Ég vann á leikskóla sem var rekinn af trúarsamtökum og var fyrir börn foreldra sem höfðu ekki efni á að senda þau í leikskóla. Ég vann á virkum dögum og eyddi helgunum svo yfirleitt í einhverjum strandbænum við Kyrrahafið. Í þessari ferð var allt svo nýtt fyrir mér, fyrsta ferðin mín til svona alveg framandi lands og á hverjum degi var ég að upplifa og sjá eitthvað nýtt. Líf mitt þarna úti var svo allt öðruvísi en allt sem ég hafði gert áður og það var það sem gerði þetta svona áhugavert. Margt sem maður þurfti að venjast og allt önnur menning og siðir en maður er vanur. Það eru til dæmis engin götuheiti í Kosta Ríka, það eru einhver götuheiti ef maður skoðar kort en það notar þau enginn. Maður útskýrir bara einhvern veginn staðsetninguna, til dæmis 250 metrum austan við KFC, fyrsta gula húsið til vinstri. Ótrúlega skrítið kerfi en einhvern veginn virkar þetta og maður finnur á endanum það sem maður er að leita að. Það er líka hvergi hægt að sjá tímatöflur eða kort yfir hvaða strætó fer hvert og hvenær, þeir koma bara þegar þeir koma og svo þarf maður bara einhvern veginn að komast að því hvaða strætó maður á að taka. Sem lýsir svolítið menningunni þar, hlutirnir gerast bara þegar þeir gerast og fólk er ekkert að stressa sig á hálftíma til eða frá. Lífið þar er á allt öðrum hraða en maður á að venjast hér á Íslandi,“ segir Sóldís sem hefur farið til Kosta Ríka þrisvar á síðustu fjórum árum og þekkir orðið landið vel. 

Sóldís elskar að ferðast.
Sóldís elskar að ferðast. Ljósmynd/Aðsend

Sydney hefur allt

Uppáhaldsborg erlendis?

„Það eru margar sem eru í uppáhaldi hjá mér, til dæmis Sevilla á Spáni og Cartagena í Kólumbíu en Sydney er alveg uppáhalds. Ég fór fyrst til Sydney þegar ég var í skiptinámi í Ástralíu fyrir þremur árum, bara í langa helgarferð, og á fyrsta degi þar langaði mig helst bara að flytja þangað. Sydney hefur einhvern veginn allt sem manni gæti hugsanlega dreymt um í einni borg. Borgin gefur frá sér dæmigerða stórborgartilfinningu sem minnir svolítið á Manhattan, þar eru allar búðir sem maður getur ímyndað sér, gaman að versla þar og oft mikið af götulistamönnum. Síðan eru mörg skemmtileg útisvæði og almenningsgarðar og mikið af þeim með útsýni yfir Harbour Bridge og óperuhúsið. Ég get alveg eytt heilu dögunum í þessum görðum, kannski með góða bók og kaffi og bara að njóta útsýnisins. Svo er hverfi nálægt höfninni sem minnir svoldið á evrópskar borgir, þar eru markaðir um helgar og mjög gaman að rölta þar.

Sóldís í Sydney.
Sóldís í Sydney. Ljósmynd/Aðsend

Eins og alls staðar í Ástralíu, eru strendurnar í Sydney ótrúlega fallegar, til dæmis Bondi-ströndin sem er líklega ein frægasta ströndin í Ástralíu. Bondi er í raun úthverfi í Sydney og þar er allt meira afslappað og meiri strandarstemmning. Þar er líka mjög mikil brimbrettamenning og yfirleitt allt fullt af brimbrettafólki þar,“ segir Sóldís og segir borgina bjóða upp á allt sem hægt er að hugsa sér. 

Var heppin að bóka ekki langt fram í tímann í kórónuveirufaraldrinum

Besti maturinn sem þú hefur smakkað á ferðalagi?

„Maturinn í Mexíkó er út af fyrir sig alveg næg ástæða til að fara þangað! Ég var þar í þrjár vikur í fyrra og bókstaflega lifði á tacos og guaca­mole og hefði ekki viljað hafa það neitt öðruvísi. Það virtist ekki skipta neinu máli hvaða veitingastað maður datt inn á, allur maturinn sem ég fékk var geggjaður.

Annars mæli ég með að halda sig sem mest við mat sem heimamenn eru vanir að elda, maður heldur að það sé ekki hægt að klúðra jafn einföldum mat og til dæmis hamborgara, en ég komst að því eitt skipti í Kosta Ríka að það er heldur betur hægt,“ segir Sóldís og segir jafnframt að hún fái oft æði fyrir ákveðnum veitingastöðum á ferðalögum. Hún fer þá á veitingastaðina oft en reynir að fara ekki oftar en tvisvar á dag á sama staðinn. 

Ljósmynd/Aðsend

Sóldís mælir með því að bóka ekki of mikið fyrir fram þegar fólk fer í lengri ferðalög, en fer hún yfirleitt í lengri ferðir. 

„Ég bóka yfirleitt ekkert áður en ég fer út nema bara flugið út og stundum flugið heim. Svo bóka ég yfirleitt hostel fyrir fyrstu þrjár til fjórar næturnar. Læt síðan bara allt hitt ráðast. Það gefur manni ótrúlega mikinn sveigjanleika og maður getur þá verið lengur á stöðum sem manni líst vel á og styttri tíma á stöðum sem maður fílar ekki eins vel. Ég er yfirleitt með eitthvert gróft plan í höfðinu um hvert ég vil fara en þau plön breytast nánast alltaf. Maður kynnist oft skemmtilegu fólki sem maður vill ferðast með og endar oft á að gera eitthvað allt annað en upphaflega planið var. Stundum er líka miklu meira að sjá og gera á ákveðnum stöðum en maður hélt oft segir heimafólk manni frá stöðum sem maður vissi ekki af fyrir.

Ljósmynd/Aðsend

Ef maður er búinn að skipuleggja alla ferðina og alla daga út í hið óendalega getur maður ekki endilega tekið ákvarðanir með stuttum fyrirvara. Ég bóka hostel einn til tvo daga fram í tímann og það er yfirleitt það sem fólk í bakpokaferðalögum gerir. Það hefur aldrei verið neitt vesen nema yfir páska eða á einhverjum hátíðisdögum þá getur maður þurft að bóka með lengri fyrirvara. Það kom sér líka mjög vel núna þegar ég þurfti að fara fyrr heim úr Asíuferðinni minni útaf Covid að vera ekki búin að bóka til dæmis gistingu langt fram í tímann. Ég væri þá eflaust núna að berjast við að fá það endurgreitt og myndi líklega ekki sjá mikið af þeim peningi aftur. Svo eru auðvitað einhverjir staðir og afþreyingar sem taka bara við ákveðið mörgum á dag og selst þá upp langt fram í tímann, ég bókaði til dæmis miðann minn til Machu Picchu með mánaðarfyrirvara.“

Sóldís segir einnig mjög sniðugt á ferðalögum að reyna að tala tungumál heimanna. Hún segir ekki nauðsynlegt að geta talað mikið en heimamenn kunni að meta þegar fólk reyni aðeins. 

Sóldís við Angkor Wat í Kambódíu.
Sóldís við Angkor Wat í Kambódíu. Ljósmynd/Aðsend

Hvað er ómissandi í flugvélinni?

Í lengri flugum tek ég alltaf með mér kósýsokka, svefngrímu, eyrnatappa og passa að vera með tannburstann í handfarangri! Ég reyni svo að vera búin að hlaða niður hlaðvörpum í mjög miklu magni. Yfirleitt í löngum flugum eru líka skjáir í sætunum þá er mikilvægt að vera með „venjuleg“ heyrnatól með snúru sem er hægt að tengja við sætið. Það virkar sem sagt ekki að vera með „airpods“ eða önnur þráðlaus heyrnatól. Mörg flugfélög láta mann fá heyrnartól en þau eru misþægileg.“

Rauðisandur fallegur

Uppáhaldsstaður á Íslandi?

„Ég fór á sunnanverða Vestfirði síðasta sumar, þeir heilluðu mig mikið. Ótrúlega fallegt landslag og flottar strendur. Mér fannst til dæmis mjög gaman að koma á Rauðasand.

Svo er ég frekar nýlega búin að uppgötva það að fara í „road trip“ seint á kvöldin á sumrin, sérstaklega þegar það er fallegt sólsetur. Að keyra bara eitthvað út úr bænum og horfa á sólina setjast er alveg geggjað.“

Sóldís var að pæla í að ferðast um Portúgal og Spán allan júní og vinna svo í júlí og ágúst. Hún var þó ekki búin að bóka neitt og verður ferðalagið að bíða. 

„Það er mjög erfitt að plana eitthvað eins og ástandið er núna. Ég geri alla vegana ráð fyrir að ferðast eitthvað innanlands. Mig dreymir alltaf um að vera einhvers staðar annars staðar en á Íslandi. Ég elska að vera á flakki og sjá eitthvað nýtt en verður bara að koma í ljós hvort það verður hægt í sumar.“

Sóldísi dreymir alltaf um að vera annars staðar en á …
Sóldísi dreymir alltaf um að vera annars staðar en á Íslandi. Ljósmynd/Aðsend
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert