Húsavík er áhugaverður og fallegur bær á Norðausturlandi. Tilvalið er að skella sér í helgarferð til bæjarins og njóta náttúrunnar og alls þess sem bærinn hefur upp á að bjóða. Fjöldi veitingastaða er í bænum sem bjóða upp á fjölbreyttan mat. Sjóböðin á Húsavík eru án efa eitt helsta aðdráttarafl bæjarins en þaðan er gott útsýni yfir Skjálfandaflóa.
Tæpar sex klukkustundir tekur að keyra til Húsavíkur frá höfuðborgarsvæðinu en Flugfélagið Ernir flýgur einnig til Húsavíkur og tekur flugið um 40-50 mínútur. Flugvöllurinn er í um 10 mínútna akstursfjarlægð frá bænum og því gott að gera ráð fyrir bílaleigubíl sé sá kostur valinn.
Geosea-sjóböðin
Geosea-sjóböðin á Húsavík opnuðu haustið 2018 og hafa orðið gríðarlega vinsæl á þeim stutta tíma, bæði meðal heimamanna og aðkomumanna. Einstaklega notalegt er að baða sig í heitum sjónum og um leið horfa yfir til Kinnarfjallanna handan flóans. Miðinn í sjóböðin kostar 4.500 krónur og 2.000 fyrir 16 ára og yngri. Gott er að bóka fyrir fram í sjóböðin.
Ganga á topp Húsavíkurfjalls
Fyrir ofan bæinn trónir Húsavíkurfjall sem virðist ansi hátt séð frá bænum. Það er hins vegar ekki erfið ganga að skella sér á toppinn þótt síðasta brekkan virðist ansi brött. Dásamlegt útsýni er frá toppnum yfir bæinn, flóann og Kinnarfjöllin handan flóans. Gangan hefst við afleggjarann norðan við Húsavík þar sem hægt er að leggja bílnum. Gangan á toppinn tekur um klukkustund og er flestum fær.
Hvalaskoðun
Hvalaskoðun er eitt af aðdráttaröflum Húsavíkur og fjöldi ferðamanna leggur leið sína til bæjarins ár hvert til að fara í hvalaskoðun. Fjögur hvalaskoðunarfyrirtæki bjóða upp á ferðir út á flóann, Norðursigling, Húsavík Adventures, Sölkusiglingar og Gentle Giants.
Könnunarsögusafnið
Könnunarsögusafnið er safn um sögu land og geimkönnunar. Aðalsýningarrými safnsins er helgað geimferðum, æfingum amerískra tunglfara á Íslandi árin 1965 og 1967, sem og tilraunageimskotum Frakka sem áttu sér stað hér á landi frá 1964 til 1965. Þá er ýtarlega fjallað um landkönnun víkinga og norrænna manna. Ekkert kostar inn á safnið en safngestir geta ákveðið hvort þeir greiða fyrir aðgang að safninu.
Hvalasafnið
Hvalasafnið á Húsavík er sérhæft safn um hvali sem hefur þann megintilgang að stuðla að söfnun muna og sagna tengdum hvölum og hvalveiðum, skráningu þeirra og varðveislu. Auk þess sem hlutverk þess er að miðla fræðslu og upplýsingum um hvali og búsvæði þeirra á hagnýtan og áhugaverðan hátt og auðvelda þannig aðgang þjóðarinnar að slíkum upplýsingum. Með fræðslu um hvali og lífríki þeirra eykur Hvalasafnið einnig á fræðslugildi hvalaskoðunarferða sem farnar eru frá Húsavík og víðar. Aðgangseyrir er 2 þúsund krónur en frítt er fyrir 16 ára og yngri. Þeir sem fara í hvalaskoðun geta fengið afslátt.
Fish & Chips
Fish & Chips er lítill fjölskyldurekinn veitingastaður við höfnina á Húsavík. Eins og nafnið gefur til kynna er aðalréttur staðarins djúpsteiktur fiskur og franskar. Tilvalinn staður til þess að fá sér hádegismat á.
Veitingahúsið Salka
Salka er tilvalinn veitingastaður fyrir alla fjölskylduna. Matseðillinn er fjölbreyttur og ættu allir að finna eitthvað girnilegt á honum.
Naustið
Ólíkt öðrum veitingastöðum á Húsavík stendur Naustið ekki við hafnarsvæðið. Naustið er í fagurgulu húsi inni í bænum, nálægt Skrúðgarðinum. Fiskur og fiskréttir eru í fyrirrúmi á Naustinu og þar má finna eina bestu fiskisúpu landsins.
Húsavík öl
Húsavík öl er lítið brugghús staðsett í Gömlu mjólkurstöðinni, steinsnar frá Könnunarsögusafninu. Þar má gæða sér á bjór brugguðum á staðnum.
Fosshótel
Fosshótel Húsavík er staðsett í hjarta bæjarins og er stutt í alla þjónustu og afþreyingu þaðan. Tilvalinn gististaður fyrir fjölskyldur.
Kaldbakskot
Kaldbakskot eru staðsett rétt sunnan við bæinn. Þar má finna 18 misstóra sumarbústaði sem eru álíka stórir og hótelherbergi. Kotin standa við Kaldbakstjarnir og eru með frábært útsýni yfir tjarnirnar og Skjálfandaflóa. Austan við þjóðveginn má finna volga tjörn sem kölluð er Gullfiskatjörnin. Þar er hægt að vaða en einnig kíkja á gullfiskana sem þar lifa.