Changi-flugvöllurinn í Singapúr er besti flugvöllur í heimi árið 2020 samkvæmt Skytrax World Airport Awards. Þetta er áttunda árið í röð sem flugvöllurinn er valinn sá besti í heimi.
Nú þegar enginn getur ferðast um heiminn kann að hljóma furðulega að veita þessi verðlaun en Skytrax heldur ótrautt áfram.
Kosningin um bestu fluvelli heims fór fram áður en veiran fór að breiða úr sér um heiminn eða frá september 2019 og fram í febrúar 2020. Upprunalega átti að veita verðlaunin 1. apríl á Passenger Terminal Expo í París í Frakklandi en viðburðinum var aflýst. Í stað þess fór verðlaunafhendingin fram 10. maí á YouTube.
„Eftir að hafa treint það í næstum sex vikur fannst okkur kominn tími til að reyna að skapa gleði í flugvallariðnaðinum á þessum erfiðu tímum,“ sagði Edward Plaisted, framkvæmdastjóri Skytrax, í tilkynningu.
Farþegar frá yfir 100 ríkjum í heiminum tóku þátt í kosningunni og náði hún til 550 flugvalla í heiminum. Tokyo Haneda-flugvöllurinn í Japan var í öðru sæti og Hamad International-flugvöllurinn í Doha í Katar lenti í því þriðja.
Á listanum yfir 10 bestu flugvellina í heiminum eru 7 í Austur-Asíu, þar af fjórir í Japan.