Eins og sími í hleðslu á fjöllum

Seyðfirðingurinn Ívar Pétur Kjartansson rennir sér niður fjöll á snjóbretti.
Seyðfirðingurinn Ívar Pétur Kjartansson rennir sér niður fjöll á snjóbretti. Ljósmynd/Erlendur Þór Magnússon

Ívar Pétur Kjartansson, tónlistarmaður og leiðsögumaður, ólst upp á Seyðisfirði og þekkir fjöllin í kring eins og handarbakið á sér. Hann unir sér best á fjöllum og segir aðstæður til að ganga upp fjöll og renna sér niður á fjallaskíðum eða snjóbretti með þeim betri í heiminum á Íslandi á vorin. 

„Ég held að einfalda svarið sé hreinlega endorfín. Eftir langan dag á fjöllum er maður svo endurnærður og ótrúlega glaður, líður vel á líkama og sál, að það gefur manni orku og drifkraft langt fram í tímann. Vinur minn orðaði það þannig að maður væri eins og sími í hleðslu þegar maður færi á fjöll,“ segir Ívar Pétur þegar hann er spurður hvað það gefi honum að vera á fjöllum. 

Ívar Pétur er meðal annars einn vinsælasti plötusnúður landsins. Hann segir að undir venjulegum kringumstæðum fari það mjög vel saman að vera tónlistarmaður og leiðsögumaður. 

„Fyrir nokkrum mánuðum fór það mjög vel saman. Ég gat skipulagt tímann minn mikið sjálfur og hafði sveigjanleika í báðum störfum og gat hagað seglum eftir vindi. Það er líka performatíf hlið í báðum störfunum sem ég á auðvelt með. Núna fara þessi störf enn þá betur saman því það er nákvæmlega ekkert búið að vera að gera hjá mér í vetur þannig að ég hef getað einbeitt mér að því að vera með fjölskyldunni minni og að fara á snjóbretti.“

Ívar Pétur er búinn að vera duglegur að fara á …
Ívar Pétur er búinn að vera duglegur að fara á snjóbretti í vetur en segir vorin ekki síðri. Ljósmynd/Daníel Örn Gíslason

Endalausir möguleikar á Seyðisfirði og Austfjörðum

Snjóbrettið sem Ívar Pétur notar í fjallaferðum sínum kallast splitboard en hann segir það vera eins og snjóbretti sem er klofið í tvennt endilangt niður mitt brettið. 

„Það þýðir að það er hægt að ganga á því upp brekkur og fjöll eins og á fjallaskíðum, með skinn undir brettinu. En svo smellir maður því saman þegar maður rennir sér niður og er þá á venjulegu snjóbretti.“

Ívar Pétur ætlar að halda áfram að fara með ferðamenn upp á fjöll í lok maí. 

„Seyðisfjörður og Austfirðir bjóða upp á endalausa möguleika fyrir þá sem eru á fjallaskíðum og snjóbretti. Þess vegna ætla ég að bjóða upp á fjallaskíða- og splitboardferð um hvítsunnuhelgina heima á Seyðisfirði. Það er nægur snjór í fjöllunum eftir snjóþungan vetur og getum við valið úr leiðum til að skíða. Á vorin er það í sérstöku uppáhaldi hjá mér að fara upp á fjallgarðinn sunnan megin í Seyðisfirði að kvöldi til og njóta kvöldsólarinnar þar uppi. Þaðan er útsýni niður í Mjóafjörð og víðar. Síðan er hægt að velja sér leiðir niður eftir aðstæðum og reynslu hópsins. 

Sandhólatindur er hæsta fjall Seyðisfjarðar og bíður upp á ótrúlega góðar og langar skíðabrekkur. Sandhólatindurinn er líka algjör snjóakista og verður hægt að renna sér þar fram í júlí á þessu ári. 

Það sem mér finnst síðan toppa það að renna sér heima á Seyðisfirði, fyrir utan fjöllin, er að það er alltaf góð og hugguleg stemmning í bænum á vorin og hægt að velja úr veitingastöðum til að borða á eftir langan dag í fjallinu. Ég enda nánast alltaf á Skaftfelli til að svala þorstanum og seðja hungrið.“ 

Útsýnið getur verið ægifagurt.
Útsýnið getur verið ægifagurt. Ljósmynd/Daníel Örn Gíslason

Af hverju ekki hefðbundnar gönguferðir?

„Hefðbundnar gönguferðir eru líka mjög skemmtilegar og gefandi og stór partur af því að vera á fjallaskíðum. En á vorin á Íslandi eru aðstæður til þess að vera á fjallaskíðum með þeim betri í heiminum og þá kemur ekki til greina að ganga niður fjöllin þegar frekar er hægt að renna sér niður á skíðum eða snjóbretti.“

Lónsöræfi eitt fallegasta svæði á landinu

Þegar Ívar Pétur er ekki að renna sér niður fjöll reynir hann að vera eins mikið úti og hann getur.

„Þegar enginn snjór er í boði reyni ég að vera eins mikið úti og ég get. Það þarf ekki alltaf að vera langt og lengi. Að skjótast í Elliðaárdalinn eða Laugarnesfjöruna getur bjargað deginum. En fjallgöngur og göngur í skóglendi eru í miklu uppáhaldi hjá mér.“

Það eru líklega ófáir húfuborgarbúar sem hugsa fyrst um Hallormstaðaskóg og krúttlega bæinn Seyðisfjörð þegar Austfirðir koma upp. Ívar Pétur segir þó af nógu að taka á Austurlandi.  

„Borgarfjörður eystri er auðvitað stórkostlegur staður til að vera á og ættu allir að heimsækja hann oftar en einu sinni. Það er líka hefð hvert sumar hjá mér að fara í hádegishlaðborð á Skriðuklaustri og heimsækja Vallanes og borða kræsingar í Asparhúsinu þar. 

Í Berufirðinum er svo Havarí. Það er skyldustopp á Austfjörðum og ég legg til að fólk gisti alla vega eina nótt til að njóta gestrisni Karlsstaðahjónanna til hins ýtrasta. Þar er alltaf frábær andi, góð stemmning, frábær matur og svo er mikið af tónleikum og viðburðum í gangi þar allt sumarið. 

Að mínu mati er svo eitt sérstakasta og fallegasta svæði landsins í Lónsöræfum og gönguleiðin úr Múlaskála út í Lón er skemmtilegasta gönguleið sem ég hef gengið á Íslandi.“ 

Ívar Pétur gengur upp fjöll og rennir sér niður.
Ívar Pétur gengur upp fjöll og rennir sér niður. Ljósmynd/Daníel Örn Gíslason
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert