Hápunktur sumarsins gönguhátíðin í Súðavík

Einar Skúlason á hugmyndina á bak við Wappið.
Einar Skúlason á hugmyndina á bak við Wappið. Ljósmynd/Aðsend

Einar Skúlason stendur á bak við smáforritið Wapp en í Wappinu má finna tæplega 400 gönguleiðir á Íslandi. Einar hefur unnið að gerð appsins síðustu ár en hugmyndin kviknaði þegar hann vann að göngubók um Vesturland. 

Einar er fæddur í Kaupmannahöfn en alinn upp í Breiðholtinu. Hann sóttist þó alltaf í í að vera með ömmu sinni og afa í Hvalfirði í Olíustöðinni/Hvalstöðinni þar sem þau unnu og í Botnsdal þar sem þau áttu bústað.

„Þarna í botni Hvalfjarðar byrjaði ég að kanna umhverfið með ömmu og svo einn með hundinum Bangsa. Ég fór í menntaskóla og háskóla í Reykjavík og framhaldsnám í Edinborg og hef unnið á ýmsum stöðum en alltaf blundaði gönguáhuginn undir niðri. Svo stofnaði ég Vesen og vergang gönguklúbb árið 2011 og eftir það fóru göngur að taka meira og meira rými í lífinu,“ segir Einar í viðtali við mbl.is.

Í Hornvík á Hornströndum.
Í Hornvík á Hornströndum. Ljósmynd/Aðsend



Hvernig kviknaði hugmyndin að Wapp?

Ég sat í gamla skólahúsinu í Reykholti í Borgarfirði árið 2014 og var að skrifa göngubók um Vesturland þegar hugmyndin kom fyrst. Það hafði rignt í þrjá daga og ég sá í hendi mér að enginn væri að spássera um með göngubók í hendinni í þessu veðri. Þá voru snjallsímarnir að komast í almannaeigu og mér fannst bara eðlilegt framhald að skrifa rafrænar göngubækur í app. Ef allt sem ég hef skrifað í Wappið væri gefið út á bók þá væru það um 20 bækur á íslensku og auðvitað annað eins á ensku. Þannig að það er komið dágott safn þarna inn og gönguleiðirnar eru að verða 400.

Ljósmynd/Aðsend

Hvert er markmiðið með Wappinu?

Markmiðin eru helst að auðvelda fólki að fara fjölbreyttar leiðir, hjálpa þeim að velja leiðir við hæfi og auka öryggi þeirra. Þá er líka markmið að fræða fólk um umhverfi, náttúru og sögu og vonandi auka tilfinningatengslin við svæðin. Við viljum líka vera í sátt við skipulags- og náttúruverndaryfirvöld og landeigendur og því höfum við tekið út leiðir eða hvílt þær ef svo ber undir.

Hvaða kosti hefur Wappið, fram yfir til dæmis pappírskort eða bara Google Maps?

Wappið er byggt á góðum innlendum kortagrunni sem er miklu nákvæmari en Google Maps. Notandi hleður inn leiðinni og borgar lága upphæð fyrir eða nýtir sér kostaða leið, þegar kortið er komið inn í símann þá skiptir ekki máli þó að gagnasamband sé ekki fyrir hendi.

Einar í Hornvík á Hornströndum.
Einar í Hornvík á Hornströndum. Ljósmynd/Aðsend

Hvaða gönguleið er þín uppáhaldsgönguleið á Íslandi?

Það er erfitt að segja. Fyrsta langa leiðin sem ég fór var Leggjabrjótur á milli Þingvalla og Hvalfjarðar þegar við Bangsi skunduðum þar yfir á unglingsárunum, þannig að sú leið á alltaf sinn uppáhaldsstað hjá mér enda hef ég líklega farið hana um þrjátíu sinnum. Annars held ég að uppáhaldsleiðin hverju sinni sé bara sú leið sem ég er að fara. Allar leiðir hafa eitthvað við sig hvort sem það er tengt sögu eða náttúru og allt hefur þetta áhrif á mann með einhverjum hætti.

Ljósmynd/Aðsend

Hvaða leiðir stefnir þú á að ganga í sumar?

Ég er að fara að leiða félaga mína í Veseni og vergangi um fjölbreyttar slóðir í sumar eins og Víknaslóðir, Hornstrandir, á Snæfell og Fimmvörðuháls og hápunktarnir á sumrinu verða svo gönguhátíðin í Súðavík og svo stóra gönguhátíðin um miðjan ágúst sem verður kynnt um næstu mánaðamót. Þannig að þetta verður viðburðaríkt sumar.

Það eru margar göngur á dagskrá hjá Einari í sumar.
Það eru margar göngur á dagskrá hjá Einari í sumar. Ljósmynd/Aðsend
Einar segir að sú gönguleið sem hann fer hverju sinni …
Einar segir að sú gönguleið sem hann fer hverju sinni sé hans uppáhaldsgönguleið. Ljósmynd/Aðsend
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert