Góð ákvörðun að verða eftir á meginlandinu

Kristinn býr í Belgíu.
Kristinn býr í Belgíu. Ljósmynd/Aðsend

Kristinn Guðmundsson, listamaður og mataráhugamaður, býr í Belgíu. Hann hefur verið fastur á meginlandinu síðustu vikur en hefur þó ekki setið auðum höndum. Hann hefur meðal annars skipulagt framtíð Soðs en nýjasta þáttaröðin af matreiðsluþáttunum, MömmuSoð, er að fara í sýningu á RÚV. 

„Ég myndi segja að þetta væri þáttaröð um nostalgíu og söknuð í það gamla, einhvers konar heimþrá. Ég leyfi mér alls kyns nýtt í þessum gömlu klassísku réttum sem mér finnst nauðsynlegt þegar við erum að vinna með nostalgíu,“ segir Kristinn um nýju matreiðsluþættina.  

Hvernig hefur lífið í Belgíu verið síðustu vikurnar? 

„Lífið hefur auðvitað verið voðalega skrítið, þótt það hafi verið þokkalega venjulegt hjá mér því ég vinn vanalega heiman frá mér. Í þessari heimavinnu hef ég verið að plana framtíð Soðs og byrjaði, eins og allir, á að búa til hlaðvarpið Suð sem kemur út á hverjum fimmtudagi á þessum helstu miðlum.“

Kristinn átti flug heim til Íslands rétt áður en Evrópa skellti í lás en ákvað að fara ekki þar sem kærasta hans átti flug með annarri flugvél. 

„Við þorðum ekki að vera hvort í sínu landinu þannig að við hættum við, sem var góð ákvörðun. Ég hef bara verið að setja niður grænmeti og hugsa um plönturnar í staðinn.“

Fyrsta þáttaröðin af matreiðsluþáttunum Soð var innblásin af Belgíu og játar Kristinn að landið hafi haft áhrif á þættina hans. Mataráhugafólk sem ferðast til Belgíu ætti að finna eitthvað við sitt hæfi og eru nokkrir réttir og veitingastaðir í uppáhaldi hjá Kristni. 

„Franskar á góðum „frituur“-stað eins og á Flagey er algjört möst, en svo er það „stoemp“ með pylsu eða „stoofvlees“ sem er hægeldað kjöt í bjórsósu, alveg himneskt! En uppáhaldsveitingarstaðurinn minn væri Café de Spores í Brussel, alveg himneskur veitingarstaður með fókus á sveppi. Ég get líka nefnt Hummus and Hortanse í Brussel sem er alveg himneskur grænmetisveitingastaður.“

Kristinn ætlar að koma heim í sumar.
Kristinn ætlar að koma heim í sumar. Ljósmynd/Aðsend

Hvað ætlar þú að gera í sumar? 

„Evrópa er að opnast þannig að við ætlum að koma og eyða miklum tíma á Íslandi í sumar. Ferðast um, hitta vini og ættingja og gefa fingurkossa til þeirra sem vilja.“

Hvaða staður á Íslandi er í uppáhaldi á sumrin? 

„Ég verð að segja Básar í Þórsmörk, því þetta er bara svo margslunginn og fallegur staður. Geggjað að labba þar um og finna fyrir orku náttúrunnar sem er alveg yndisleg í Þórsmörk. En annars eru margir staðir sem koma til greina. Höfn í Hornafirði og svæðið þar í kring, Eskifjörður, Dýrafjörður, þetta eru allt saman yndislegir staðir.“

Hvað er skotholt að borða í útilegunni?

„Það kemur í ljós vonandi eftir tæpt ár,“ segir Kristinn og hlær. „Mig vantar útgefanda, þannig að ég auglýsi eftir honum hér og nú.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert