Þykir best að vera í núvitund á hestbaki

Hörður segir það að blanda saman jóga og hestamennsku vera …
Hörður segir það að blanda saman jóga og hestamennsku vera áhugavert.

Hörður Bend­er frum­kvöðull hef­ur fundið áhuga­verða brú á milli jóga og hesta­mennsk­unn­ar þar sem hann seg­ir reiðleiðirn­ar ekki það sem mestu máli skipt­ir, held­ur að kom­ast á dýpt­ina í nú­vit­und með hest­in­um. 

Hörður hef­ur um­fangs­mikla reynslu af frum­kvöðla­starfi. Hann hóf þann fer­il sinn í Svíþjóð árið 1999, þegar vef­versl­un var fyrst að ryðja sér til rúms. 

„Þetta tíma­bil í fjár­mála­heimi Stokk­hólms ein­kennd­ist af tals­verðum pen­ing­um í um­ferð en hug­mynd­irn­ar voru kannski ekki svo marg­ar. Stokk­hólm­ur var „heit­ur reit­ur“ hvað varðaði þróun in­ter­nets­ins á þeim tíma og var magnað að geta starfað í þessu um­hverfi. Þessi tími mótaði frum­kvöðul­inn í mér, þar sem ég fann að þó ég væri kannski ekki alltaf með bestu grunn hug­mynd­irn­ar þá var ég fljót­ur að skilja og góður að fram­kvæma. Að búa til nýtt fyr­ir­tæki get­ur verið mjög skap­andi ferli þar sem maður þarf að hafa mjög góðan skiln­ing á um­hverf­inu í kring­um sig, geta unnið með mis­mun­andi ein­stak­ling­um, og hvatt áfram og leitt sam­an ein­stak­linga og auk þess borið virðingu fyr­ir ramma fjár­magns­ins. Þessi fyrstu skref í mót­un fyr­ir­tæk­is er um­hverfi sem ég þrífst mjög vel í. Svo er það bara þannig að þegar maður hef­ur stofnað sitt eigið fyr­ir­tæki þá get­ur verið erfitt að fara að  starfa hjá ein­hverj­um öðrum. Það var á þess­um tíma sem ég fann mína frum­kvöðlaköll­un. Síðan hef ég skapað og verið með í að skapa mörg fyr­ir­tæki sum hafa gengið en önn­ur ekki.“  

Byrjaði að stunda jóga til að fá frið

Hvað gerðist í líf­inu sem gerði það að verk­um að þú fórst þessa and­legu leið og ert nú með hestanám­skeiðin sem þú lýs­ir hér að neðan?

„Þegar ég flutti til Íslands 2010 eft­ir meira en 20 ára fjar­veru þá naut ég þess að tengj­ast ís­lenskri nátt­úru aft­ur og þeim krafti sem hún gef­ur. Upp­lifa aft­ur nátt­úr­una, veiðina og hest­ana og ég fann þessa sterku teng­ingu við landið mitt. Við hjón­in keypt­um litla jörð í Mos­fells­dal og byrjuðum að stunda hesta­mennsku aft­ur eft­ir langt hlé. Ég hélt þó áfram að starfa sem frum­kvöðull bæði í Svíþjóð og hér. Með tím­an­um varð svo ástríða mín fyr­ir nátt­úr­unni og ís­lenska hest­in­um enn sterk­ari og ég fann að ég vildi gera eitt­hvað meira með þessa til­finn­ingu. Að verða fimm­tug­ur var stórt skref fyr­ir mig og þar sem ég er aug­ljós­lega byrjaður á seinni hálfleik lífs­skeiðsins ákvað ég að skapa eitt­hvað sem veitti sjálf­um mér ánægju og lífs­fyll­ingu. Fyr­ir mig var það um­gengni við hesta og stunda meira jóga. 

Ég byrjaði að ganga á fell­in í bak­g­arði mín­um og stunda jóga. Ég fór á hverj­um morgni milli kukk­an átta og níu. Fljót­lega fann ég að gam­an væri að hafa fleiri með mér og fór því að bjóða ferðamönn­um að koma með mér. Marg­ir sem áttu leið hjá á leið sinni á Þing­völl og Gullna Hring­inn bætt­ust í hóp­inn. Við geng­um sam­an upp fellið og gerðum jóga á fjallstoppn­um. Það er mjög góð byrj­un á deg­in­um að mínu mati. 

Það þróaðist svo þannig að ég fór einnig að bjóða ferðamönn­um hesta­kennslu, reiðtúr og há­deg­is­mat. Marg­ir af jóga-gest­un­um mín­um tóku líka þátt í reiðtím­un­um mín­um og smátt og smátt með hjálp gest­anna byrjaði jóga að renna sam­an við hesta­mennsk­una. Það var á þess­um tíma sem ég fann hversu ná­tengt jóga er hestaíþrótt­inni og ég fór að nota allskon­ar jóga hug­mynda­fræði, eins og önd­un og slök­un sem grunn þegar ég leiðbeindi ferðamönn­um á ís­lenska hest­inn. Í dag finnst mér ég vera kom­in á nýj­an stað í minni hesta­mennsku, reiðleiðirn­ar skipta ekki mestu máli held­ur að byggja þessa brú milli manns og hests og kom­ast á dýpt­ina í nú­vit­und með hest­in­um.“

Hver er til­gang­ur lífs­ins að þínu mati?

„Mín mantra er að elska, vera op­inn fyr­ir nýj­um hug­mynd­um, sýna ná­ungakær­leik og hug­rekki. Þá vona ég að á lífs­leiðinni lær­ist manni að bæta sjálf­an sig og miðla til yngri kyn­slóða og þannig vona ég að börn­in mín verði mér fremri.“

Kynnt­ist jóga af galdra­konu í frum­skógi

Hvað get­ur hegðun og hugs­un hesta kennt okk­ur mann­fólk­inu? 

„Á hverj­um degi minn­ir hest­ur­inn mig á dygðina í þol­in­mæði. Hest­ur­inn hugs­ar ekki í fortíð eða framtíð hann er bara hér og nú. Þannig að þegar þú mæt­ir í verk­efni dags­ins þá þarftu að sýna auðmýkt fyr­ir því hvar hest­ur­inn er í sínu and­lega ferli. Þú þving­ar ekki fram eitt­hvað sem er ekki til staðar í dag.“

Hvernig er hægt að stýra hesti með hug­ar­ork­unni einni sam­an? 

„Þegar ég byrjaði mark­visst að nota önd­un sem tækni fyr­ir sjálf­an mig og miðla til þeirra sem voru með mér á hest­un­um sá ég strax að þetta hafði ekki bara áhrif á knap­ana held­ur gjör­breytt­ist viðmót hests­ins einnig. Í dag er hesta­mennsk­an orðin tals­vert tækni­leg, hvernig knapi breyt­ir sér og hvernig þú bygg­ir hest­inn rétt upp – það er allt gott og blessað. Það sem hins­veg­ar vant­ar stund­um er áhersla á and­leg­an þátt knap­ans og hvernig þú bygg­ir upp sam­band þitt við hest­inn. Önd­un­in er að mínu mati brú­in á milli knapa og hests og þegar þú hef­ur byggt þessa brú þá fara hlut­irn­ir að ger­ast. Marg­ir hesta­menn þekkja það þegar þeir eru í löng­um ferðum með hesta sína að tengsl­in milli manns og hests verða ótrú­lega sterk – hest­ur­inn er slak­ur og knap­inn líka. Á slík­um stund­um mynd­ast sterk brú milli hests og knapa.“

Er hægt að ná þess­ari teng­ingu við annað fólk líka?

„Fyrsta skrefið í að ná tök­um á eig­in líðan og til­finn­ing­um er að læra að geta verið í nú­inu. Það er í nú­vit­und. Ég held að þú verðir fyrst að reyna að ná tök­um á þessu áður en þú get­ur haft áhrif á aðra. Mín reynsla er sú að það sem við köst­um út í ver­öld­ina fáum við til­baka.  Það er magnað hvað nú­vit­und og ná­ungakær­leik­ur ger­ir fyr­ir sjálf­an þig og um­hverfið þitt.“ 

Hörður blandar saman jóga og hestamennsku og kennir fólki að …
Hörður bland­ar sam­an jóga og hesta­mennsku og kenn­ir fólki að ná góðri teng­ingu við ís­lenska hest­inn á baki.

 Hvers vegna fórstu fyrst í jóga og hvað hef­ur það gert fyr­ir þig?

„Mín fyrst reynsla af jóga var hjá galdra­konu í frum­skóg­um Costa Rika þá var ég um tví­tug­ur að aldri. Ég byrjaði svo að stunda jóga af al­vöru um þrítugt. Ástæðan var fyrst og fremst til að fá frið. Við hjón­in eignuðumst 5 börn á 6 árum og var gott að kom­ast í skjól ein­stöku sinn­um. Með ár­un­um hef­ur jóga haft meiri og meiri áhrif á mig og er ég nú kom­inn á þann stað þar sem ég get notið staðar og stund­ar það sem ég kalla að dvelja í nú­vit­und.“

Að finna sitt innra „Alpha“

Hver er mun­ur­inn á jóga og fjár­mál­um?

„Jóga er innra ferðalag þar sem þú ákveður sjálf­ur hversu djúpt þú vilt kafa. Fjár­mál eru hins­veg­ar fyr­ir utan þig og eiga ekki að hafa áhrif á þinn innri mann.“ 

Hvaða merk­ingu legg­ur þú í pen­inga? 

„Ég held að hjá flest­um frum­kvöðlum eru pen­ing­ar ekki það sem skipt­ir höfuðmáli. Það eru miklu meiri verðlaun að skapa heil­brigt fyr­ir­tæki held­ur en að selja fyr­ir­tæki.  Þegar ég fór af stað með þess­ar ferðir mín­ar var það helst til að hafa gam­an af þeim og miðla þess­ari skemmti­legu reynslu til annarra frek­ar en ein­hver gróðahug­sjón. Hins­veg­ar lýt ég lög­um markaðar­ins eins og all­ir aðrir og ef eng­um öðrum finnst þetta skemmti­legt þá væri ég ekki að hafa af þessu at­vinnu í dag. Mér finnst gott að finna að marg­ir virðast vilja fjár­festa í sjálf­um sér í dag, þ.e. safna reynslu, minn­ing­um og and­legri upp­bygg­ingu.“

Ertu í ólík­um pört­um sjálfs­ins þegar þú ert að fást við ólíka hluti í líf­inu? 

„Yf­ir­leitt reyni ég að vera sam­kvæm­ur sjálf­um mér í hinu dag­lega lífi. Gest­irn­ir sem koma til mín vilja líka hitta sann­an Íslend­ing. Þannig að upp­lif­un­in er svipuð og ég sé með vini mína í heim­sókn. Þannig verður það nú að marg­ir af gest­un­um eru nú orðnir vin­ir mín­ir.“

Hvað kenn­ir ís­lenski hest­ur­inn okk­ur? 

„Það sem ég legg mikið upp úr í minni nálg­un við hest­inn er efl­ing leiðtoga­hlut­verks knap­ans. Hest­ar eru hóp­dýr en það er alltaf „Alpha“, sem ræður. Í sam­bandi hests og knapa þarf knap­inn að vera „Alpha“. Hest­ar eiga ekki að vera kjölturakk­ar, þeir þurfa að virða mann­inn en sú virðing þarf að byggj­ast á gagn­kvæmu trausti. Marg­ir eiga erfitt með að taka fram sinn innri „Alpha“ og vera yfir – en þegar það ger­ist styrk­ir þú líka sjálfs­traust þitt og sjálfsímynd að mínu mati.“

Nán­ari upp­lýs­ing­ar um nám­skeiðin má finna hér.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert