Þykir best að vera í núvitund á hestbaki

Hörður segir það að blanda saman jóga og hestamennsku vera …
Hörður segir það að blanda saman jóga og hestamennsku vera áhugavert.

Hörður Bender frumkvöðull hefur fundið áhugaverða brú á milli jóga og hestamennskunnar þar sem hann segir reiðleiðirnar ekki það sem mestu máli skiptir, heldur að komast á dýptina í núvitund með hestinum. 

Hörður hefur umfangsmikla reynslu af frumkvöðlastarfi. Hann hóf þann feril sinn í Svíþjóð árið 1999, þegar vefverslun var fyrst að ryðja sér til rúms. 

„Þetta tímabil í fjármálaheimi Stokkhólms einkenndist af talsverðum peningum í umferð en hugmyndirnar voru kannski ekki svo margar. Stokkhólmur var „heitur reitur“ hvað varðaði þróun internetsins á þeim tíma og var magnað að geta starfað í þessu umhverfi. Þessi tími mótaði frumkvöðulinn í mér, þar sem ég fann að þó ég væri kannski ekki alltaf með bestu grunn hugmyndirnar þá var ég fljótur að skilja og góður að framkvæma. Að búa til nýtt fyrirtæki getur verið mjög skapandi ferli þar sem maður þarf að hafa mjög góðan skilning á umhverfinu í kringum sig, geta unnið með mismunandi einstaklingum, og hvatt áfram og leitt saman einstaklinga og auk þess borið virðingu fyrir ramma fjármagnsins. Þessi fyrstu skref í mótun fyrirtækis er umhverfi sem ég þrífst mjög vel í. Svo er það bara þannig að þegar maður hefur stofnað sitt eigið fyrirtæki þá getur verið erfitt að fara að  starfa hjá einhverjum öðrum. Það var á þessum tíma sem ég fann mína frumkvöðlaköllun. Síðan hef ég skapað og verið með í að skapa mörg fyrirtæki sum hafa gengið en önnur ekki.“  

Byrjaði að stunda jóga til að fá frið

Hvað gerðist í lífinu sem gerði það að verkum að þú fórst þessa andlegu leið og ert nú með hestanámskeiðin sem þú lýsir hér að neðan?

„Þegar ég flutti til Íslands 2010 eftir meira en 20 ára fjarveru þá naut ég þess að tengjast íslenskri náttúru aftur og þeim krafti sem hún gefur. Upplifa aftur náttúruna, veiðina og hestana og ég fann þessa sterku tengingu við landið mitt. Við hjónin keyptum litla jörð í Mosfellsdal og byrjuðum að stunda hestamennsku aftur eftir langt hlé. Ég hélt þó áfram að starfa sem frumkvöðull bæði í Svíþjóð og hér. Með tímanum varð svo ástríða mín fyrir náttúrunni og íslenska hestinum enn sterkari og ég fann að ég vildi gera eitthvað meira með þessa tilfinningu. Að verða fimmtugur var stórt skref fyrir mig og þar sem ég er augljóslega byrjaður á seinni hálfleik lífsskeiðsins ákvað ég að skapa eitthvað sem veitti sjálfum mér ánægju og lífsfyllingu. Fyrir mig var það umgengni við hesta og stunda meira jóga. 

Ég byrjaði að ganga á fellin í bakgarði mínum og stunda jóga. Ég fór á hverjum morgni milli kukkan átta og níu. Fljótlega fann ég að gaman væri að hafa fleiri með mér og fór því að bjóða ferðamönnum að koma með mér. Margir sem áttu leið hjá á leið sinni á Þingvöll og Gullna Hringinn bættust í hópinn. Við gengum saman upp fellið og gerðum jóga á fjallstoppnum. Það er mjög góð byrjun á deginum að mínu mati. 

Það þróaðist svo þannig að ég fór einnig að bjóða ferðamönnum hestakennslu, reiðtúr og hádegismat. Margir af jóga-gestunum mínum tóku líka þátt í reiðtímunum mínum og smátt og smátt með hjálp gestanna byrjaði jóga að renna saman við hestamennskuna. Það var á þessum tíma sem ég fann hversu nátengt jóga er hestaíþróttinni og ég fór að nota allskonar jóga hugmyndafræði, eins og öndun og slökun sem grunn þegar ég leiðbeindi ferðamönnum á íslenska hestinn. Í dag finnst mér ég vera komin á nýjan stað í minni hestamennsku, reiðleiðirnar skipta ekki mestu máli heldur að byggja þessa brú milli manns og hests og komast á dýptina í núvitund með hestinum.“

Hver er tilgangur lífsins að þínu mati?

„Mín mantra er að elska, vera opinn fyrir nýjum hugmyndum, sýna náungakærleik og hugrekki. Þá vona ég að á lífsleiðinni lærist manni að bæta sjálfan sig og miðla til yngri kynslóða og þannig vona ég að börnin mín verði mér fremri.“

Kynntist jóga af galdrakonu í frumskógi

Hvað getur hegðun og hugsun hesta kennt okkur mannfólkinu? 

„Á hverjum degi minnir hesturinn mig á dygðina í þolinmæði. Hesturinn hugsar ekki í fortíð eða framtíð hann er bara hér og nú. Þannig að þegar þú mætir í verkefni dagsins þá þarftu að sýna auðmýkt fyrir því hvar hesturinn er í sínu andlega ferli. Þú þvingar ekki fram eitthvað sem er ekki til staðar í dag.“

Hvernig er hægt að stýra hesti með hugarorkunni einni saman? 

„Þegar ég byrjaði markvisst að nota öndun sem tækni fyrir sjálfan mig og miðla til þeirra sem voru með mér á hestunum sá ég strax að þetta hafði ekki bara áhrif á knapana heldur gjörbreyttist viðmót hestsins einnig. Í dag er hestamennskan orðin talsvert tæknileg, hvernig knapi breytir sér og hvernig þú byggir hestinn rétt upp – það er allt gott og blessað. Það sem hinsvegar vantar stundum er áhersla á andlegan þátt knapans og hvernig þú byggir upp samband þitt við hestinn. Öndunin er að mínu mati brúin á milli knapa og hests og þegar þú hefur byggt þessa brú þá fara hlutirnir að gerast. Margir hestamenn þekkja það þegar þeir eru í löngum ferðum með hesta sína að tengslin milli manns og hests verða ótrúlega sterk – hesturinn er slakur og knapinn líka. Á slíkum stundum myndast sterk brú milli hests og knapa.“

Er hægt að ná þessari tengingu við annað fólk líka?

„Fyrsta skrefið í að ná tökum á eigin líðan og tilfinningum er að læra að geta verið í núinu. Það er í núvitund. Ég held að þú verðir fyrst að reyna að ná tökum á þessu áður en þú getur haft áhrif á aðra. Mín reynsla er sú að það sem við köstum út í veröldina fáum við tilbaka.  Það er magnað hvað núvitund og náungakærleikur gerir fyrir sjálfan þig og umhverfið þitt.“ 

Hörður blandar saman jóga og hestamennsku og kennir fólki að …
Hörður blandar saman jóga og hestamennsku og kennir fólki að ná góðri tengingu við íslenska hestinn á baki.

 Hvers vegna fórstu fyrst í jóga og hvað hefur það gert fyrir þig?

„Mín fyrst reynsla af jóga var hjá galdrakonu í frumskógum Costa Rika þá var ég um tvítugur að aldri. Ég byrjaði svo að stunda jóga af alvöru um þrítugt. Ástæðan var fyrst og fremst til að fá frið. Við hjónin eignuðumst 5 börn á 6 árum og var gott að komast í skjól einstöku sinnum. Með árunum hefur jóga haft meiri og meiri áhrif á mig og er ég nú kominn á þann stað þar sem ég get notið staðar og stundar það sem ég kalla að dvelja í núvitund.“

Að finna sitt innra „Alpha“

Hver er munurinn á jóga og fjármálum?

„Jóga er innra ferðalag þar sem þú ákveður sjálfur hversu djúpt þú vilt kafa. Fjármál eru hinsvegar fyrir utan þig og eiga ekki að hafa áhrif á þinn innri mann.“ 

Hvaða merkingu leggur þú í peninga? 

„Ég held að hjá flestum frumkvöðlum eru peningar ekki það sem skiptir höfuðmáli. Það eru miklu meiri verðlaun að skapa heilbrigt fyrirtæki heldur en að selja fyrirtæki.  Þegar ég fór af stað með þessar ferðir mínar var það helst til að hafa gaman af þeim og miðla þessari skemmtilegu reynslu til annarra frekar en einhver gróðahugsjón. Hinsvegar lýt ég lögum markaðarins eins og allir aðrir og ef engum öðrum finnst þetta skemmtilegt þá væri ég ekki að hafa af þessu atvinnu í dag. Mér finnst gott að finna að margir virðast vilja fjárfesta í sjálfum sér í dag, þ.e. safna reynslu, minningum og andlegri uppbyggingu.“

Ertu í ólíkum pörtum sjálfsins þegar þú ert að fást við ólíka hluti í lífinu? 

„Yfirleitt reyni ég að vera samkvæmur sjálfum mér í hinu daglega lífi. Gestirnir sem koma til mín vilja líka hitta sannan Íslending. Þannig að upplifunin er svipuð og ég sé með vini mína í heimsókn. Þannig verður það nú að margir af gestunum eru nú orðnir vinir mínir.“

Hvað kennir íslenski hesturinn okkur? 

„Það sem ég legg mikið upp úr í minni nálgun við hestinn er efling leiðtogahlutverks knapans. Hestar eru hópdýr en það er alltaf „Alpha“, sem ræður. Í sambandi hests og knapa þarf knapinn að vera „Alpha“. Hestar eiga ekki að vera kjölturakkar, þeir þurfa að virða manninn en sú virðing þarf að byggjast á gagnkvæmu trausti. Margir eiga erfitt með að taka fram sinn innri „Alpha“ og vera yfir – en þegar það gerist styrkir þú líka sjálfstraust þitt og sjálfsímynd að mínu mati.“

Nánari upplýsingar um námskeiðin má finna hér.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka