Missir af afmæli á óðalssetri

Ebba Guðný í Mílanó ásamt Hafþóri og börnunum þeirra tveimur, …
Ebba Guðný í Mílanó ásamt Hafþóri og börnunum þeirra tveimur, Hönnu og Hafliða. Ljósmynd/Aðsend

Ebba Guðný Guðmundsdóttir rithöfundur og heilsukokkur segist hlakka mikið til að ferðast innanlands í sumar. Ferðaplön fjölskyldunnar röskuðust ekki mjög mikið vegna kórónuveirunnar enda hafa þau yfirleitt þann háttinn á að bóka ferðir með skömmum fyrirvara.

„Við vorum ekki búin að ákveða hvert við færum í sumar í frí. Við höfum yfirleitt haft þann háttinn á að bóka bara þegar við rekumst á eitthvert gott tilboð. Mjög oft verður Evrópa fyrir valinu. Svo tökum við bílaleigubíl og keyrum þangað sem okkur langar til. Maðurinn minn Hafþór er frábær í að búa til skemmtilegar óvæntar ferðir. Við erum yfirleitt ekki með neitt bókað, engin hótel, ekki neitt. Við bókum gistingar á netinu og oft á tilboði af því það er samdægurs og getum þannig verið lengur á stöðum sem okkur líkar vel á. Ég veit að sumum þætti þetta óþægilegt en við erum öll orðin vön þessu og finnst þetta gaman. Síðastliðin tvö sumur höfum við verið að keyra mikið um Ítalíu og er hún miklu uppáhaldi. Annars áttu börnin mín bæði að fara í æfingaferðir í vor og sumar sem voru blásnar af og einnig áttum við að vera í afmæli í sumar á óðalssetri á Englandi,“ segir Ebba Guðný. 

„Stykkishólmur dásamlega fallegur bær“

Spurð um uppáhaldsstaðina á Íslandi nefnir Ebba Guðný Stykkishólm og Húsavík. 

„Ég er úr Stykkishólmi svo hann fer efst á blað enda dásamlega fallegur bær sem ég hef tengingu við. Þar vann ég alltaf á sumrin sem unglingur í bakaríinu sem pabbi rak þá. Maðurinn minn er frá Húsavík og þar á hann tvær ömmur, önnur er orðin 100 ára og hin 97 ára svo við setjum hana númer tvö. Við förum þangað á hverju ári. Svo er ég líka frá Vestfjörðum (Suðureyri) og þeir eru líka í svakalegu uppáhaldi. Fátt eins heilandi og að dvelja á Vestfjörðum. Svo finnst mér alltaf best að vera þar sem ég er með manninum mínum og Hönnu og Hafliða. Þau eru langbesti félagsskapurinn. Ég er heppin að eiga þau og gleðst yfir hverju ári sem þau vilja ferðast með okkur pabba sínum.“

Ilmkjarnaolíur með í ferðalagið

Ebba Guðný leggur áherslu á að borða hreinan mat úr góðu hráefni þegar hún ferðast. „Ég er hrifin af grænmetisréttum, salötum, fiski og svo borða ég stundum kjöt. Við fáum okkur oft ís á ferðalögum og ég er mjög glöð ef ég fæ kaffibolla og eitthvað sætt í kaffinu. Alveg ferleg með það,“ segir Ebba Guðný sem passar líka að taka með sér meltingarensím og eplaedikstöflur í ferðalagið svo fátt eitt sé nefnt.

„Ég tek einnig með negulhylki og oregano-hylki sem bæði eru bakteríudrepandi. Þá tek ég líka astaxhanthin-hylki ef við erum að fara í sól svo enginn brenni og sólarvörn frá Jasön sem inniheldur engin slæm efni. Svo tek ég plástra sem eru eins og auka húð. Það er helst Hafliði sem þarf að nota þá (hann gengur á gervifótum) en við hin þurfum þá oft líka. Þá tek ég einnig með ilmkjarnolíur eins og piparmyntu sem er góð við ógleði og flugum, lavender sem er róandi og góð á brunasár og loks lemongrass fyrir bit.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert