Óhætt að mæla með Íslandi

Bláa lónið er vinsæll ferðamannastaður.
Bláa lónið er vinsæll ferðamannastaður. mbl.is/Árni Sæberg

Ísland er eitt af þeim löndum sem eru að vinna í því að bjóða ferðamenn velkomna. Á vef Washington Post er fjallað um Ísland sem öruggan og aðgengilegan áfangastað. Í greininni kemur fram að fáir búi á Íslandi, fá smit hafi greinst og heilbrigðiskerfið sé gott. Auk þess er tekið fram að ferðamenn verði skimaðir fyrir veirunni. 

Rætt er við Chunhuei Chi sem er í forsvari fyrir Center for Global Health við ríkisháskólann í Oregon. Hann segir ferðamenn þurfa hafa nokkur atriði í huga áður en farið er í ferðalög. Þeir þurfa að hugsa út í hversu útbreidd kórónuveiran er á hverjum stað fyrir sig og hversu vel hefur tekist að lækna fólk með kórónuveiruna. Sem betur fer kemur Ísland afar vel út þegar blaðamaður Washington Post lítur yfir tölurnar. Næstum því engin ný smit hafa greinst á undanförnum vikum og nánast allir sjúklingar ná bata. 

Ferðamenn þurfa ekki bara að hafa í öryggi í huga þegar áfangastaður er valinn. Gott er að skoða hvernig faraldurinn hafði áhrif á daglegt líf. Þarf að athuga hvað er opið og hvort ferðaþjónustufyrirtæki eru með starfsemi. Í umfjölluninni um Ísland kemur fram að hægt verði að fara í ferðir með ferðaþjónustufyrirtækjum auk þess sem veitingastaðir, hótel og sundlaugar eru opin. 

Ferðamenn taka sjálfur við Goðafoss.
Ferðamenn taka sjálfur við Goðafoss. mbl.is/Haraldur Jónasson/Hari

Einnig er tekið fram hversu gott er að vera á Íslandi þegar kemur að því að halda fjarlægð við annað fólk. Fram kemur að fáir búi á Íslandi og náttúran sé það sem heillar ferðamenn. 

„Fólk kemur til Íslands vegna náttúrunnar — ekki vegna skemmtigarða, kvikmyndahúsa eða annarra staða þar sem fólk er í takmörkuðu rými,“ segir Ryan Connolly hjá Hidden Iceland í greininni. 

Chi bendir sömuleiðis á að það sé öruggara ef fólk vill komast hjá smiti að forðast stóra hópa og þá sérstaklega innandyra. „Ef þú ert að gera eitthvað utandyra þar sem fáir eru er það frekar öruggt,“ sagði Chi en lýsingin virðist eiga afar vel við Ísland. 

Samkvæmt sérfræðingnum Chi er þó stærsta áhættan að komast á áfangastað en til þess að komast til Íslands neyðast flestir til að fara í flug. Hann mælir gegn því að fólk með undirliggjandi sjúkdóma fari í ferðalög eins og er. 

Upplýsingarnar sem koma fram í greininni eru afar jákvæðar og virðist blaðamaður einna helst mæla með því að fólk skelli sér til Íslands. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert