Sólarhringur á Sauðárkróki

Sauðárkrókur er fallegur og skemmtilegur bær, sérstaklega þegar maður veit hvert á að fara og hvað á að skoða. Sólarhringur dugar til að gera allt það helsta á Króknum, en sá yrði ansi pakkaður svo það er um að gera að taka sinn tíma, njóta, og dreifa gleðinni á fleiri daga.

Sverðaglamur og sjófuglar

Sýndarveruleiki gegnir mikilvægu hlutverki í báðum sýningunum á Sauðárkróki.
Sýndarveruleiki gegnir mikilvægu hlutverki í báðum sýningunum á Sauðárkróki. Mynd: aðsend/1238

Það eru tvær sýningar á Sauðárkróki. Þær eru hvor um sig einstakar en eiga það sameiginlegt að vera skemmtilegar og setja viðfangsefnið fram á ljóslifandi máta, svo þær henta vel öllum aldurshópum. Ekki skemmir fyrir að þær eru hýstar hvor sínu megin við sömu götu svo það er fljótlegt að fara á milli.

Í sýningunni 1238 er notast við sýndarveruleika, muni og texta til að varpa gestum 800 ár aftur í tímann, á Sturlungaöld. Þar er m.a. hægt að máta miðaldarfatnað, ganga í gegnum Flugumýri á meðan hún brennur, og með hjálp sýndarveruleika, bókstaflega taka þátt í Örlygsstaðabardaga. Í húsinu er líka upplýsingamiðstöð og indælisveitingahús að nafni Grána.

Puffin and friends notar samblöndu af uppstillingum, sýndarveruleika og kvikmyndum til að kynna gesti fyrir lundunum sem byggja eyjar svæðisins, veiðar á þeim, öðrum fuglum og dýrum sem búa í sambýli við lundann, auk þess að fara stuttlega yfir mannanna áhrif á sjóinn og náttúruna. Sýningin opnar 15. júní næstkomandi.

Leyniskógurinn

Göngustígurinn í gegnum Litla-Skóg hlykkjast ýmist meðfram ánni eða í …
Göngustígurinn í gegnum Litla-Skóg hlykkjast ýmist meðfram ánni eða í hlíðinni fyrir ofan hana. Mynd: skjáskot af heimasíðu Sveitarfélagsins Skagafjarðar

Litli-Skógur er líklega bæði best og verst geymda leyndarmál Sauðárkróks. Skógurinn blasir ekki við þegar keyrt er í gegnum Krókinn en hann er staðsettur fyrir aftan tvö gríðarstór appelsínugul hús (fjölbrautaskólann og heimavistina), svo það er auðvelt að finna hann. Svæðið er ekki beint lystigarður en náttúran er mjög falleg. Neðst í gilinu hlykkjast Sauðáin, sem bærinn er kenndur við, þar eru stígar og fallegar brýr, frisbígolfvöllur og æfingatæki (ef líkamsræktarþráin kallar). Innarlega í skóginum er gömul köld laug sem skagfirsk börn hafa sullað í árum saman. 

Kaupmaðurinn á horninu

Ótal fréttir, greinar og meira að segja heimildamynd hafa fjallað …
Ótal fréttir, greinar og meira að segja heimildamynd hafa fjallað um störf Bjarna Haraldssonar kaupmanns á Sauðárkróki. Mynd: Helgi Bjarnason

Bjarni Haraldsson er goðsögn í lifanda lífi, gamaldags kaupmaður sem hefur staðið vaktina í Verslun Haraldar Júlíussonar í mjög marga áratugi. Verslunina stofnaði Haraldur faðir hans, en Bjarni er svo samnefndur henni að verslunin er alla jafna kölluð „Bjarni Har“. Búðin er agnarlítil en úrvalið er ótrúlegt, þar má finna allt frá gúmmískóm til íspinna og sykurpoka. Ekta kaupmaður á horninu.

Synda, skjóta, slá og stökkva

Á Sauðárkróki er ljómandi góð sundlaug sem er að hluta til nýuppgerð. Fyrir ofan gamla bæinn er golfvöllur sem er ekki bara skemmtilegur heldur með mjög fallegu útsýni yfir fjörðinn. Fyrir þá ævintýragjarnari er svo bæði krossarabraut og skotsvæði rétt við bæinn.

Sandarnir

Sandarnir eru löng fjara sem teygir sig frá Sauðárkróki alla leið að ósi Héraðsvatna, um 5 km leið. Sandarnir eru mjög vinsælt göngusvæði, þar blasir við víðáttan, náttúran og bátsflak að nafni Erna. Við Ósinn er gömul brú, hana er hægt er að ganga yfir fljótið og upp að útsýnispalli þar sem hægt er að stilla sér upp við styttu af heljarmenninu Jóni Ósmann, sem gegndi starfi ferjumanns yfir fljótið fyrir rúmum 100 árum.

Gamli bærinn

Útsýnisskífa á nöfunum, fyrir ofan Sauðárkrók
Útsýnisskífa á nöfunum, fyrir ofan Sauðárkrók Mynd: Ásdís Ásgeirsdóttir

Sauðárkrókur er gamall bær og státar af fjölda fallegra húsa sem mörg hver eru yfir aldargömul. Nyrsti hluti bæjarins er elstur og göturnar sem liggja undir hæðinni, innan við Aðalgötuna, eru prýddar sérstaklega fallegum húsum sem mörg hver eru nýlega uppgerð, það er alveg þess virði að taka göngutúr um þær.

Frá Kirkjuklaufinni, við hlið Sauðárkrókskirkju, er göngustígur í hlíðinni upp á nafirnar (hæðina fyrir aftan gamla bæinn). Þaðan er glæsilegt útsýni yfir fjörðinn og eyjarnar, yfir á Hofsós og Tröllaskagann, og inn að Mælifellshnjúki. Þar er líka útsýnisskífa til að gefa þeim sem ekki til þekkja nafn á þessa staði.

Sauðárkróksbakarí

Sauðárkróksbakarí.
Sauðárkróksbakarí. Helgi Bjarnason

Að öðrum matsölustöðum á Sauðárkróki ólöstuðum stendur Sauðárkróksbakarí upp úr. Það í gömlu húsi með einhvern sérstakan sjarma, útisvæðið er notalegt og sólríkt og rjóminn á kökunni er úrvalið af sætabrauði. Það hefur svo fastan stað í hjarta margra Sauðkrækinga að það er ekki ólgengt að heimsókn í bakaríið sé jafn mikilvæg brottfluttum í ferð á heimaslóðum, og að heimsækja vini og ættingja.

Sauðárkrókur, horft til suðurs yfir íþróttasvæðið undir Nöfunum.
Sauðárkrókur, horft til suðurs yfir íþróttasvæðið undir Nöfunum. Morgunblaðið/Sigurður Bogi
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert